11.02.1976
Neðri deild: 54. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1850 í B-deild Alþingistíðinda. (1522)

148. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég stóð aðallega upp að þessu sinni til þess að gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hafði í sambandi við afgreiðslu þessa máls í sjútvn., en í því nál., sem n. lét fara frá sér, er þess hvergi getið að nokkur hafi hátt fyrirvara um málið. Hins vegar var það bókað í fundargerðarbók, ég gáði að því, það er rétt, en það hefur ekki komið fram í nál. og ekki heldur í framsögu með málinu. Þetta sýnir einungis hver æðibunugangur er í sambandi við afgreiðslu þessa máls.

Þarna er verið að afgreiða mál sem er upp á marga milljarða kr., og það er ætlast til þess að afgreiðslu þess sé lokið á einum einasta fundi í sjútvn. Og ég verð að segja það, að fyrst það tekur svona stuttan tíma að afgreiða eitt stærsta mál þingsins, þá ætti ekki að vefjast fyrir núv. hæstv. ríkisstj. að leysa önnur minni háttar mál. Svo mikið lá á að mönnum var ekki gefinn kostur á því að setja saman nál. á nokkurn veginn eðlilegum tíma og þaðan af síður að n. fengi tækifæri til þess að kanna þetta mál. eftir að það var lagt fram í þinginu, nema í rúman klukkutíma.

Hæstv. ráðh. lauk máli sínu áðan með því að segja að sjútvn. hefði komið saman áður. Það er rétt. Sjútvn. beggja d. hafa einu sinni hist vegna þessa máls áður og það með öllum sjóðanefndarmönnunum. Og hæstv. ráðh. segir að það hafi staðið á sjóðanefndinni. Það er rétt, það tók alllangan tíma að vinna þetta verk sem er yfirgripsmikið og tímafrekt. En ég vil benda á það, að það eru þó nokkrar vikur síðan þessi n. lauk störfum, og það væri fróðlegt að fá að vita hvers vegna frv. hefur ekki verið lagt fram fyrr. Hvað hefur tafið hæstv. ráðh. í þessum efnum? Frv. er nefnilega fyrir alllöngu tilbúið. En þessi vinnubrögð öll og þessi æðibunugangur og flýtir við afgreiðslu málsins er einungis eitt dæmið enn og í fullu samræmi við vinnubrögð núv. hæstv. ríkisstj. sem afgreiðir hin stærstu mál með þessum hætti og gerir hv. Alþ. að hreinni afgreiðslustofnun fyrir sig, þar sem hv. þm. eiga að afgreiða stórmál án þess að hafa fengið tækifæri til þess að skoða það náið.

Hitt er svo annað mál, að þeir, sem vissu það fyrirfram að þeir þyrftu að fjalla um málið hér í þinginu, hefðu auðvitað haft tækifæri til þess að skoða þetta og fylgjast með því. En ég er alveg viss um að mikill fjöldi hv. þm. hefur alls ekki kynnt sér málið og veit bókstaflega ekkert um það. Ég vil ekki fara að nefna nein dæmi hér, en mér er vel kunnugt um það. Það hefur aldrei verið litið í grænu bækurnar. Þm. sitja ekki hér einu sinni og hlusta á umr. um málið og vita ekkert um það, en rétta bara hendurnar upp í loftið eftir pöntun frá hæstv. ráðh. Matthíasi Bjarnasyni.

Ég hafði fyrirvara fyrir afstöðu minni við afgreiðslu þessa máls í þeim tilgangi að hafa tækifæri til þess m. a. að ræða nokkuð um sjóðakerfið í heild og hvernig það hefur orðið til og hvernig tilfærslur til þessa kerfis hafa sífellt, að vísu smátt og smátt, en þó stundum í nokkuð stórum stökkum, verið að þrengja hlut sjómanna. Og svo mikið hefur verið gengið á réttmætan hlut sjómanna, að nú er ástandið þannig að af aflaverðmæti upp úr sjó er fyrst tekinn helmingur eða rúmur helmingur sem síðan er skipt á milli sjóðanna í þessu bákni. Það er auðvitað gleðilegt að með þessu frv. og með þeim aðgerðum, sem nú er unnið að, sé verið að reyna að draga svolítið úr sjóðakerfinu, og síst vil ég vera á móti því. En hins vegar verður að gæta þess, þegar þessi breyting fer fram, að sjómenn hljóti í sinn hlut sanngjarnan part af þeirri fiskverðshækkun sem verður til við lækkun á tillögum til sjóðanna.

Það væri auðvitað ástæða til að rekja hér í fáum atriðum ýmislegt af því sem er í þessu frv., m. a. það, svo að tekið sé dæmi, að framlagið til Aflatryggingasjóðs hækkar um 75 millj. kr. Þetta er sá sjóður sem einna mest hefur verið gagnrýndur, sérstaklega þær reglur sem hann hefur unnið eftir og hvernig þær hafa komið út. En ég sé ekki ástæðu til að vera að eyða tíma þingsins í að rekja margt af þessu tagi, vegna þess að hv. 2. þm. Austurl. hefur rækilega gert grein fyrir skoðunum okkar Alþb.- manna í þessu máli.

Ég vil að lokum undirstrika það, að ég tel að þetta stefni í rétta átt, en árétta enn einu sinni að þegar sjóðakerfið er dregið saman, þá verði þess vandlega gætt að sjómannastéttin beri ekki skarðan hlut frá borði.