11.02.1976
Neðri deild: 54. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1852 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

148. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. sjútvn. án fyrirvara og mun því fylgja frv. fram og greiða því atkv. Það er þó ekki þar með sagt, að ég hefði ekki kosið að í einstökum atriðum væri það á annan veg en nú er. Hins vegar liggur það ljóst fyrir, eins og komið hefur fram, að grundvöllur frv. er samkomulag sem náðst hefur milli sjómanna og útvegsmanna um breytingar á því sjóðakerfi sem nú er í lögum. Ef farið væri að flytja við frv. brtt., þá mundi það tefja framgang málsins og ekki að mínum dómi æskilegt nú að gera tilraun til þess að raska þeim samningsgrundvelli sem fyrir hendi er í sambandi við þetta mál.

Sjóðakerfið hefur að undanförnu mjög verið rætt meðal þeirra aðila sem við útgerðarmál fást, bæði sjómanna og útvegsmanna, og hafa menn verið sammála um að kerfið í heild hafi mjög þróast í óæskilega átt. Aðallega hafa það verið tveir sjóðir sem mjög hafa verið þyrnir í augum manna, en það er annars vegar Olíusjóðurinn og hins vegar Tryggingasjóðurinn. Með þessu frv. eru að fullu numin úr gildi ákvæðin um Olíusjóðinn, en eftir standa að nokkru, u. þ. b. að hálfu leyti, framlög í sambandi við Tryggingasjóðinn. Ég hefði sannarlega kosið að einnig sá sjóður hefði að fullu horfið út úr kerfinu, því að ég tel að hann sé nákvæmlega sama eðlis og Olíusjóðurinn, að það sé verið að færa á milli einstakra aðila innan sjávarútvegsins.

Menn, sem höfðu sýnt dugnað og forsjálni í rekstri, voru í gegnum Olíusjóðinn að greiða niður olíu fyrir aðra sem minna höfðu aflað og kannske ekki stundað útgerð eins fast og þeir sem betri útkomu og meiri afla höfðu náð. Ég tel að það eigi að vera grundvallaratriði í rekstri, sérstaklega í rekstri sjávarútvegs, að þar beri hver úr býtum í sem fyllstu samræmi við það sem hann aflar og leggur á sig til þess að afla sér aukinna tekna.

Eins og þetta kom út og liggur ljóst fyrir í sambandi við Olíusjóðinn, þá má segja að það liggi nokkurn veginn ljóst fyrir einnig í sambandi við Tryggingasjóðinn, að hann skapi óréttmæta millifærslu milli aðila innan sjávarútvegsins. Ég tel að það hefði átt að stíga skrefið fullt og afnema einnig Tryggingasjóðinn að fullu, þannig að menn hefðu hver borið að fullu kostnað af vátryggingu sinna skipa, en ekki að þar væri verið að láta hvern bera annars byrðar að nokkru leyti.

Varðandi Aflatryggingasjóð er mér alveg ljóst og ég skal viðurkenna það, að sá sjóður hefur oft á tíðum komið mjög að notum og verið til hagræðis bæði fyrir útgerðarmenn og einnig sjómenn, þannig að þeir hefðu tryggingu fyrir að fá kaup sitt greitt ef um aflabrest hefur verið að ræða. Ég tel að sá sjóður eigi fullan rétt á sér og að hann beri að standa áfram. En ég tek mjög undir það, sem fram kemur í grg. með frv., að lögð er áhersla á að úthlutunarreglur þessa sjóðs verði endurskoðaðar og sérstaklega í þá átt, sem ætlað er, að hvert svæði um sig fái til ráðstöfunar það fjármagn sem það leggur í sjóðinn, en ekki verði þar í sumum tilfellum um eins mikinn hrærigraut að ræða og nú á sér stað. Ég tel að það sé næsta undarlegt að lögin um Aflatryggingasjóð skuli ekki hafa verið endurskoðuð fyrr, en sennilega hefur ekki náðst um það samkomulag. Ég fagna því að þetta skuli liggja fyrir nú og sérstaklega að endurskoðunin skuli eiga að miðast við það sem fram kemur í grg. með frv., eins og ég hef bent á.

Ég skal ekki tefja umr. um þetta mál meira, en mun fylgja því fram eins og það er, þó að ég hafi óskað þess eða talið réttara að skrefið varðandi Tryggingasjóðinn hefði verið stigið að fullu.