11.02.1976
Neðri deild: 54. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1856 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

147. mál, Stofnfjársjóður fiskiskipa

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Það er ekki ástæða til að lengja mjög þessar umr. Ég vil þó, vegna þess að við eigum ekki fulltrúa í þeirri n. sem um þessi mál hefur fjallað, segja um þau nokkur orð nú við 2. umr. eftir að þau koma frá nefnd.

Það hefur greinilega komið í ljós í þessum umr. og var raunar vitað fyrir, að efnislega eru þm. stjórnmálafl. um það sammála, að nú skuli horfið af braut hins mikla sjóðakerfis í sjávarútvegi og reynt að snúa því hjóli við, þannig að helst verði að sem mestu leyti afnumið það kerfi sem nú er í gildi. Um þetta eru ekki einungis samhljóða raddir efnislega hér á hv. Alþ., heldur hefur þetta og verið áréttað bæði frá samtökum sjómanna og útvegsmanna.

Það hefur verið rifjað hér upp í dag með hverjum hætti þetta sjóðakerfi var á sett á sínum tíma og hverjir eru fyrst og fremst höfundar að því. Að sjálfsögðu hefði ekki þurft að rifja þetta upp. Þetta er öllum þeim kunnugt sem með þessum málum hafa fylgst á undanförnum árum og áratugum kannske. Meginatriðið er auðvitað þetta, að menn eru orðnir um það sammála að hér skuli breytt til og úr þessu sjóðakerfi dregið. Það er auðvitað öllum ljóst, að upphaf að þessu sjóðakerfi átti sú ríkisstj. sem að völdum sat 1968, og þá var a. m. k. á fót komið þeim sjóði sem kannske hvað mest hefur verið umdeildur, þ. e. a. s. Stofnfjársjóði fiskiskipa, þar sem gert var ráð fyrir að taka nokkurn hluta af aflaverðmæti áður en það kæmi til skipta. Um þetta held ég að menn þurfi ekki að deila. Við vitum um höfundana í upphafi, og við vitum hverjir það hafa verið, nú síðast núv. hæstv. ríkisstj. og núv. hæstv. sjútvrh., sem hafa nokkuð utan á þetta hlaðið allt til þessa. En þetta er auðvitað ekki meginmálið. Meginmálið er þetta, að það hefur tekist að sannfæra núv. hæstv. ríkisstj. og þar með hæstv. sjútvrh., sem að vísu hefur lýst því yfir hér nokkru áður að hann væri á þeirri skoðun, að það bæri að draga úr þessu sjóðakerfi. En mergurinn málsins er sá, að nú hefur tekist að sannfæra hæstv. ríkisstj. um þetta og nú á að brjóta blað að þessu leyti, draga úr þessu kerfi.

Menn getur auðvitað greint á um það, hversu langt eigi að ganga í þessum efnum. Í sambandi við Stofnfjársjóðinn er tekið hér nokkurt skref. Mörgum hverjum þykir það of lítið, en ég vil sérstaklega undirstrika það af minni hálfu, að ég tel að hér sé um byrjunaraðgerð að ræða í þessum efnum, þessu eigi að halda áfram, það eigi að minnka Stofnfjársjóðinn og Tryggingasjóðinn í áföngum þar til ekkert af því stendur eftir. Menn geta deilt um hversu stór skref eigi að stiga í hverju tilviki. En þó eru ekki allir hv. þm. sammála um þetta. Hv. 3. þm. Austurl. sagði hér áðan, að hann teldi að það ætti að viðhalda Stofnfjársjóði fiskiskipa og það væri eðlilegt að í þessu tilviki tækju sjómenn þátt í endurnýjun flotans og tilkostnaði sem af því leiddi. Ég út af fyrir sig er ekkert undrandi á þessari afstöðu hv. þm. af eðlilegum ástæðum sem ekki er þörf á að ég fari hér að lýsa. Hv. þm. vita sjálfsagt af hverju það er sem þessi afstaða kemur fram hjá hv. þm. En að þessu leyti er hann þó ósammála þeim sem hér hafa talað í þessum umræðum, vegna þess að a. m. k. allflestir ræðumanna hafa lýst þeirri skoðun sinni að þeir teldu að það bæri að afnema Stofnfjársjóðinn alveg.

En ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta. Sem sagt, mergurinn málsins í þessu er að hér liggja fyrir frv. sem eru í meginatriðum eins og hin svokallaða sjóðanefnd gekk frá þessum málum. Sjálfsagt hefði hvor aðili um sig, bæði fulltrúar sjómanna og útvegsmanna, viljað hafa þetta með öðrum hætti að einhverju leyti. En þeir hafa í meginatriðum fallist á þessa meðferð mála að þessu sinni. Ég held því að það sé rétt að undirstrika það, að það væri æskilegast að efnislegar breyt., a. m. k. ekki verulegar efnislegar breyt., væru á þessu gerðar frá því sem þessir aðilar gengu frá því.

Það hefur líka komið hér fram að þær miklu deilur, sem átt hafa sér stað um sérstaklega tvo þessa sjóði, eru ekki leystar þrátt fyrir það að þessi frv. fari í gegnum þingið. Því er lýst yfir af hálfu hæstv. ráðh. að forsenda þess að þessi frv. nái fram að ganga sem löggjöf, sé að það takist að ná samkomulagi í yfirstandandi deilu milli sjómanna og útvegsmanna sem hlýtur að snúa mjög að þessum atriðum. Það er alveg ljóst, að það eru mjög skiptar skoðanir um þann hlut sem t. d. sjómenn ættu að fá úr því hækkaða fiskverði sem gert er ráð fyrir að þessi breytta löggjöf gæti skammtað, og það er enginn vafi á því að þar er mikil togstreita um milli sjómanna og útvegsmanna. Ég held því að Alþ. ætti að gera sem minnst í breytingunum. Ég hygg að það muni vera nógu erfitt fyrir þessa aðila að ná saman endum í þessari kjaradeilu þó að ekki verði með einhverjum hætti skorið upp það samkomulag sem þessir aðilar hafa nú gengið frá. Ég fyrir mitt leyti tel að það muni affarasælast, eins og málum er nú komið, að Alþ. gangi frá þessu eins og það nú liggur fyrir.

Ég vil aðeins segja það um brtt. hv. þm. Garðars Sigurðssonar, að ég hefði talið mjög æskilegt að framlag í Stofnfjársjóð hefði verið lægra en þetta frv. gerir ráð fyrir, og það hefðu sjómannasamtökin í heild ábyggilega talið. En hér er um samkomulag að ræða milli þessara aðila og því vafamál a. m. k. hvort það geri nokkra bót á þó að farið væri að breyta því hér. En ég vil ítreka það, að ég lít á þetta sem byrjun á uppskurði á sjóðakerfinu, en víðs fjarri að hér sé um neina endanlega lausn á því að ræða.

Ég vil aðeins, svo að ég þurfi ekki að tala hér við 3. umr. í sambandi við fyrra málið sem hér var á dagskrá, þ. e. í sambandi við útflutningssjóðinn, segja um það, að bæði hv. 2. þm. Austurl. og hv. 7. þm. Reykv. komu hér aðeins inn á þann lið í 4. gr. þess frv. sem gerir ráð fyrir ákveðnum hluta sem renna á til samtaka sjómanna skv. sérstökum reglum sem sjútvrn. kemur til með að setja. Að sjálfsögðu er það alveg rétt, að hér er um viðkvæmt mál að ræða. Hér er gert ráð fyrir breyt. frá því sem er. En ég fyrir mitt leyti vil segja það, að ég tel að þessi breyting sé eðlileg. Eins og þetta hefur verið, þá hafa svæðasamböndin, þ. e. a. s. Alþýðusamband Vestfjarða, Alþýðusamband Austurlands og félög, sem aðilar eru að Sjómannasambandi Íslands, fyrst og fremst og svo til eingöngu farið með samningamál sjómanna um langt árabil. Alþýðusamband Íslands hefur ekki haft með höndum samningsgerð fyrir sjómenn um langt árabil. Ég tel því ekki óeðlilegt, ef á annað borð er farið inn á þessa leið, að samtökin fái einhvern hluta úr þessu, að það sé gert með þessum hætti. En að þetta er e. t. v. viðkvæmnismál og síður en svo að ég sé að hafa á móti því að rætt verði við fulltrúa Alþýðusambandsins áður en hin væntanlega reglugerð verður út gefin. En mér finnst þetta sem sagt eðlileg breyting.

Ég skal ekki hafa þetta fleira, en ég ítreka það, að ég tel að hér sé stefnt í rétta átt. En betur má ef duga skal, og ég tel að ekki eigi að hætta fyrr en búið er að afnema a. m. k. þá sjóði sem fyrst og fremst og alla tíð hafa verið mjög umdeildir frá því að þeir voru á fót settir. Ég fyrir mitt leyti a. m. k. tel fráleitt að ætlast til þess að sjómenn taki þátt í útgerðarkostnaði, eins og gert var ráð fyrir í tíð viðreisnarstjórnarinnar. Það ætti þó hv. 3. þm. Austurl. að muna, að afnumin var í tíð vinstri stjórnarinnar þátttaka háseta eða skipverja í sérstökum útgerðarkostnaði, en eftir stóðu að vísu 10% í sambandi við Stofnfjársjóðinn. — Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, eins og ég sagði áðan, en ég held að það sé rétt að Alþ. geri ekki efnislegar breyt. á því samkomulagi sem þessir aðilar báðir hafa komið sér saman um