12.02.1976
Efri deild: 52. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1865 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

148. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil fullvissa hæstv. ráðh. um það, að ég mun reyna að gera það sem ég get til að hraða þessum málum í gegnum sjútvn. þessarar d. Ég er sjálfur heldur hlynntur þeim breyt. sem hér eru um að ræða, þó að ég hafi við þær nokkrar athugasemdir að gera, en vil þó jafnframt nú þegar leggja á það ríka áherslu, að ég er þeirrar skoðunar að viss samtrygging og samhjálp í íslenskum sjávarútvegi sé ákaflega nauðsynleg. Þannig er ég ekki með fylgi mínu við þessar breytingar að lýsa andstöðu minni við slíka samtryggingu að vissu marki. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að þetta hafi gengið nokkuð langt hjá okkur íslendingum og um hættulega mikla tilfærslu á fjármagni að ræða, jafnvel svo mikla að verulega hefur á vissum sviðum dregið úr vilja einstaklingsins til þess að spjara sig eins og hann frekast má, en ég hygg að það hafi ávallt verið mjög svo nauðsynleg undirstaða í íslensku atvinnulífi og eigi að vera það.

Ég gæti gert vissar athugasemdir við það frv. sem hér liggur fyrir. T.d. hefði ég viljað sjá nokkru meiri breytingu á Aflatryggingasjóði en hér er gert ráð fyrir. Hann er raunar aukinn. Í grg. og sérstaklega í skýrslu þeirri, sem fylgdi frá sjóðanefnd, er þó lagt til að á þeim sjóði verði gerðar vissar breytingar, jafnvel honum skipt eftir landshlutum. Ég geri mér grein fyrir að hér er um mjög erfitt mál að ræða, en vil þó spyrja hæstv. ráðh. hvort hann hafi hugleitt það og hvort hann treysti sér á þessu stigi að segja nokkuð um framhald þess máls.

Það er rétt að þetta mál hefur ekki verið lengi fyrir Alþ. En staðreyndin er þó sú, að þeir, sem sitja í sjútvn., fengu fyrir nokkru ítarlegar skýrslur þeirrar n. sem undirbúið hefur þetta frv. Í þeim skýrslum er ákaflega mikinn fróðleik að finna, ég vil segja óvenjumikinn, og er mál þetta að þessu leyti vel undirbúíð. Ég vil einnig geta þess, að báðar sjútvn. þessa þings hafa haldið sameiginlegan fund með sjóðanefnd þar sem viðbótarupplýsingar komu fram, og eitt af því mikilvægasta að mínu mati var að í þeirri fjölmennu n., sem í eiga sæti fulltrúar flestra þeirra greina sem hér koma við sögu, hefur náðst nær því, vil ég segja, samkomulag um þetta mjög svo viðkvæma mál. Það kom greinilega fram þar, að vissir aðilar hefðu viljað ýmsa hluti nokkuð á annan veg. En hitt var öllum ljóst, að þarna hafði verið gerð ítarleg tilraun til samkomulags, og ég hygg að öllum hafi jafnframt verið ljóst að vafasamt var að lengra yrði gengið á þeirri braut. Það kom einnig mjög greinilega fram á þeim fundi að þeir, sem sitja í sjóðanefnd, óskuðu beinlínis eftir því að fá að víta frá þm., sem þar voru mættir, hvort þeir gætu lýst sig fylgjandi þessu frv. eins og það lá fyrir frá n. og er nokkurn vegin það sama og nú, og töldu það raunar forsendu fyrir þeim samningum sem nú eru fram undan um kjaramál. Því er ljóst að hér er um ákaflega viðkvæmt mál að ræða og mál sem mjög erfitt er að gera á nokkrar verulegar eða jafnvel nokkrar efnisbreytingar. Slíkt gæti haft í för með sér mjög mikil vandkvæði í þeim viðkvæmu samningum sem nú eiga sér stað. Það er ekki síst að þessum niðurstöðum fengnum á þessum sameiginlega fundi sem ég, eftir að hafa kynnt mér málið þar og í þeim skýrslum sem fram hafa verið lagðar, hef ákveðið að fylgja frv. án efnisbreytinga, þótt, eins og ég hef sagt, ég gæti hugsað mér vissa þætti þess nokkuð á annan veg.

Ég vil einnig geta þess, að sjútvn. þessa þings hafa haft einn sameiginlegan fund um málið, þannig að þar einnig hafa sjútvn.-menn haft tækifæri til að kynnast afstöðu þm. til þess máls. Ég mun því gera það sem ég get til þess að hraða málinu í gegnum þingið.