12.02.1976
Efri deild: 52. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1866 í B-deild Alþingistíðinda. (1538)

148. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Út af því, sem hv. 5. þm, Norðurl. e. sagði, hef ég ekki við að bæta að öðru leyti en því, að skýrsla sjóðanefndar er dags. 19. jan. Þá á eftir að fjölrita allar bækurnar, og þegar því var lokið var málið kynnt í ríkisstj., og frá því að ráðh. fengu skýrsluna og þangað til ríkisstj. endanlega afgr. málið liðu 6 dagar. Ég kalla það nokkuð góða afgreiðslu á þessu stóra og mikla máli og ekki gefa tilefni til ásakana í þeim dúr sem fram komu. Jafnframt var nm. í sjútvn. send skýrslan og tveimur dögum síðar þm. öllum til þess að menn fengju einhvern tíma. En svo átti eftir að semja frv., fara yfir það frá lögfræðilegu sjónarmiði, sem lögfræðingar í sjútvrn. gerðu, þannig að það ræki sig ekki hvað á annars horn því að hér er um afar viðamiklar breytingar að ræða. Ég held því að það sé hægt að finna einhver frekari ásökunarefni á ríkisstj. heldur en það, að hún hafi legið lengi á þessu máli. Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta.

En varðandi fyrirspurn hv. 2. þm. Vestf., þá er það rétt hjá honum, það kemur afar lítið fram varðandi breytingar á Aflatryggingasjóði. En lögin um Aflatryggingasjóð voru endurskoðuð fyrir nokkrum árum og þá var leitað umsagna um allt land varðandi endurskoðun Aflatryggingasjóðsláganna. Því miður létu mjög fáir til sín heyra í sambandi við þá endurskoðun, og þeirri endurskoðun lauk á þann veg, að það voru gerðar fremur lítilvægar breyt. á Aflatryggingasjóði, þá á ég við almennu deildina. Áhafnadeildin, fæðiskostnaðurinn, er kapítuli út af fyrir sig. Ég hef hugsað mér að láta framkvæma nýja endurskoðun á lögunum, en velja ekki stjórnarmenn Aflatryggingasjóðs í þá n. eins og gert var síðast. Ég held að það hafi verið að mörgu leyti misheppnað, án þess að ég sé neitt að tortryggja þá eða gera lítið úr þeirra kunnugleika. En það er aldrei gott að láta menn endurskoða sjálfa sig. Ég mun leita samstarfs bæði hjá útgerðarmönnum og sjómönnum utan við stjórn Aflatryggingasjóðs. Það, sem ég tel persónulega koma frekast til greina og taldi, — ég átti þá sæti í stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna, — ég hef alltaf talið að bótasvæðin væru allt of lítil og það ætti að fækka þeim. En það hefur ekki orðið ofan á fram til þessa. Hjá þeim, sem eru t. d. með lágan afla nokkur ár í röð, getur farið svo að þeir fái engar bætur úr Aflatryggingasjóði. En aftur þar sem sveifla á milli tveggja eða þriggja ára verður mikil fær bótasvæðið miklar bætur út á miklu hærri meðalafla en á svæði sem er jafnvel búið að þola langvarandi aflaleysi. Þetta mælir, finnst mér, mjög með því að stækka svæðin. Sumir, sem róttækastir eru, segja: Hvers vegna ekki eitt svæði? Ég get alveg tekið undir þá spurningu. Það þarf að huga að henni mjög alvarlega. Það er alls ekki útilokað að landið eða fiskveiðilandhelgin verði gerð að einu svæði. Ég vil ekki útiloka þann möguleika. En a. m. k. verða svæðin að vera stærri og færri en þau eru skv. núgildandi reglum.

Ýmislegt fleira kemur þarna inn í sem á hefur verið bent, en ég ætla ekki á þessu stigi að fara að lengja þessar umr. Ég vil aðeins út af þessari fyrirspurn taka þetta fram, að ég hef ákveðið að láta þessa endurskoðun fara fram og fela hana fulltrúum úr sjómannastétt og útgerðarmannastétt fyrst og fremst.