12.02.1976
Efri deild: 52. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1867 í B-deild Alþingistíðinda. (1540)

147. mál, Stofnfjársjóður fiskiskipa

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Ég vísa til formála þess er ég flutti í sambandi við frv. til laga um útflutningsgjald af sjávarafurðum um leið og ég mæli með frv. því til laga um Stofnfjársjóð fiskiskipa sem hér er til umr.

Frv. þetta er samhljóða drögum sem tillögunefnd um sjóði sjávarútvegs og hlutaskipti gerði, en efni þess er að gjöld til Stofnfjársjóðsins lækki og verði 10% af verðlagsráðsverði sjávarafla við heimalandanir, en 16% við landanir erlendis, en í dag er þetta gjald l5% og 21%.

Í þessu frv. er lagt til að inn í lögin um Stofnfjársjóðinn verði sett ákvæði um tekjur sjóðsins og eru þá öll ákvæði um hann, tekjur og ráðstöfun fjár úr honum, felld inn í ein lög, en nú eru tekjuákvæðin í öðrum lögum.

Með samþykkt þessa frv. yrðu úr gildi numin öll eldri lög varðandi Stofafjársjóðinn og þar með öll ákvæði varðandi hann í þessum lögum, en gert er ráð fyrir að ákvæðum þeirra verði beitt frá 16. þ. m.

Varðandi frekari upplýsingar vísa ég til athugasemda með frv. þessu og til skýrslu sjóðanefndar, en legg til að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til hv. sjútvn.