12.02.1976
Neðri deild: 57. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1879 í B-deild Alþingistíðinda. (1545)

151. mál, gjald af gas- og brennsluolíum

Frsm. meiri hl. (Ólafur G. Einarsson) :

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur athugað þetta mál og er álit meiri hl. n. á þskj. 322. Eins og þar kemur fram varð n. ekki sammála um afgreiðslu málsins. Fulltrúar stjórnarflokkanna, sem mættir voru á fundinum, leggja til að frv. verði samþ., en minni hl. er andvígur frv. og skilar séráliti.

Eins og fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. í gær, er um það að ræða að lagt er innflutningsgjald á gasolíu og brennsluolíu, kr. 1.33 á hvert kg, og skal gjaldið innheimt með aðflutningsgjöldum. Með þessari gjaldtöku er gert mögulegt að aflétta söluskatti af gasolíu til fiskiskipa án þess að tekjutap verði hjá ríkissjóði, en um er að ræða 580 millj. kr. á ári sem sá söluskattur gefur. Ég þykist vita að allir vildu geta fellt niður söluskatt af gasolíu til fiskiskipa án þess að til þyrfti að koma sérstök skattlagning í staðinn, þ. e. að ríkissjóður tæki einfaldlega á sig tapið, og það hefur víst þegar verið nefnt að ríkissjóður eigi að taka þetta á sig. Mönnum ætti hins vegar að vera það ljóst, að fjárhagur ríkissjóðs er ekki þannig nú að slíkt sé mögulegt. Því er sú leið valin sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þ. e. að söluskatti þeim, sem íslensk fiskiskip eiga að greiða samkv. gildandi lögum af gasolíunotkun sinni, verði jafnað niður á alla notendur gasolíu og svartolíu.

Samkv. frv. þessu verður verð á gasolíu til fiskiskina og húsahitunar kr. 25.30 hver lítri, en hefði orðið kr. 25.75 eða 45 aurum hærra ef ákvörðun verðlagsnefndar frá 30. júlí 1971 stæði óbreytt. en samkv. þeirri ákvörðun var í raun lagt gjald á alla gasolíu, einnig hina söluskattsfrjálsu gasolíu til húsahitunar, og nam það kr. 1.58 á hvern lítra við síðustu áramót. Og samkv. þessu frv. verður verð á hverju tonni svartolíu 16 675 kr., en var áður komið í 15 300 kr.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál. Hins vegar hef ég leyft mér, herra forseti, að bera fram brtt. við þetta frv. og er hún á þskj. 323. Hún er á þá leið. að í stað orðanna ..sérstakt innflutningsgjald“ komi aðeins orðið: gjald í 1. gr. frv., og jafnframt að fyrirsögn frv. breytist til samræmis við það.

Rökin fyrir þessari brtt. eru þau, að orðalag það sem notað er í frv., sé líklegt til að valda einhverri óánægju hjá Fríverslunarbandalaginu og að fyrirspurnum yrði beint hingað vegna þessa, en hjá því mætti komast með því að nota einungis orðið gjald. Ég gef að vísu lítið fyrir þessa ástæðu, en meira fyrir það, að það sem hægt er að komast af með eitt stutt orð í stað tveggja lengri án þess að merking breytist, þá skuli velja það fyrrnefnda. Einnig má segja að þetta sé til að samræma greinar frv. Ef við héldum 1. gr. óbreyttri ætti 2. gr. að hefjast á orðunum: „Þetta sérstaka innflutningsgjald“ o. s. frv., í stað: „Gjald þetta“, eins og er í frv.

Þessi rök ættu að nægja, og ég held ég megi segja að nm. í fjh.- og viðskn. séu þessari brtt. samþykkir þótt hún hafi ekki verið flutt í n.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þessi atriði frekar, en mæli með að frv. verði samþykkt með þeirri brtt. sem ég hef hér lýst.