12.02.1976
Neðri deild: 57. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

151. mál, gjald af gas- og brennsluolíum

Þórarinn Þórarinsson:

Hæstv. forseti. Það má vera að ég hafi ekki hagað orðum mínum nógu skýrt áðan, mér skildist a. m. k. af orðum síðasta ræðumanns að hann hefði skilið þau þannig, að það hafi verið ágreiningur á milli stjórnarflokkanna um þetta mál. En það er ekki rétt skilið, og ég ætlaðist a. m. k. ekki til þess að þetta yrði skilið á þá leið. Hitt er hins vegar rétt, að í flokki mínum hafa komið fram vissar óskir um breyt. á því frv. sem ég minntist á og liggur fyrir hv. Ed. En ég hygg að þær skoðanir eigi líka verulegt fylgi í Sjálfstfl., þannig að hér sé ekki um ágreining á milli stjórnarflokkanna að ræða, heldur vilji í báðum flokkunum fyrir því að fá fram vissar breyt. á því frv., sem að vísu er stjfrv. En það sýnir sig vonandi í sambandi við þessi mál eins og fleiri, að þó að hæstv. núv. stjórn sé góð stjórn, þá er hún ekki nein einræðisstjórn og hún tekur tillit til ábendinga frá sínum flokksmönnum þegar þær koma fram og hún álítur að þær séu réttmætar.