27.10.1975
Neðri deild: 10. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

2. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Mér þykir nú miður að fjarstaddir eru ýmsir þeir sem koma við sögu í þessu máli, sennilega á kostnað þess að ég kemst ekki í nægilega mikinn ham þegar ég flyt mitt mál. Engu að síður, þá hafði ég kvatt mér hljóðs hér þegar þessi umr. hófst til þess að ræða nokkuð þetta mál sem er á dagskrá.

Forsrh. gaf yfirlýsingu í umr. í síðustu viku þess efnis að lögin um Framkvæmdastofnun ríkisins yrðu endurskoðuð á þessu þingi. Þessi yfirlýsing er ágæt, svo langt sem hún nær. En hún nær ákaflega skammt því að þessi yfirlýsing segir ekkert til um hvernig á að endurskoða þessi lög og auðvitað er það mergurinn málsins og það sem umr. snýst um. Satt að segja hefur maður heyrt yfirlýsingar um þetta mál áður, m. a. í sjónvarpi í jan. s. l. þegar þá nýsettur framkvæmdastjóri þessarar stofnunar, hv. þm. Sverrir Hermannsson, lýsti því yfir að hann væri settur algerlega til bráðabirgða og þess mætti vænta að fram yrði lagt frv. um endurskoðun á þessari stofnun og lögum um hana sem leiddi til þess að hann mundi leggja niður störf sem framkvæmdastjóri eða kommissar. Síðan eru liðnir 10 mánuðir og ekki bólar á neinni endurskoðun enn.

Ég er líka mjög vantrúaður á, að endurskoðunin, sem boðuð hefur verið, verði í samræmi við m. a. mínar skoðanir og yfirlýstar skoðanir Sjálfstfl., vegna þeirra ummæla sem þessi hv. þm. hefur viðhaft í ræðu og riti, en hann virðist ráða nokkuð um gang þessa máls. M. a. birtist viðtal við hv. þm. Sverri Hermannsson í Morgunblaðinu 19. okt. s. l. undir fyrirsögninni: „Það vantar meiri pólitíska stjórn á þetta þjóðfélag“ — og er nú satt að segja ekki alveg í samræmi við það sem menn höfðu gert sér vonir um að endurskoðunin stefndi að. Eins voru athugasemdir hæstv. dómsmrh. á þá leið í umræðunum um daginn að þær gáfu ekki tilefni til þess að vera bjartsýnn um niðurstöðu þessarar endurskoðunar.

Allar þessar umræður og drátturinn, sem orðið hefur á því að endurskoðunin sæi dagsins ljós, veldur því að mér þykir nauðsynlegt að rifja upp nokkrar staðreyndir og virða nokkrar skoðanir í þessu máli við þessar umræður.

Eins og menn muna og óþarfi er að fara mörgum orðum um, þá réðst Sjálfstfl. og reyndar Alþfl. líka mjög harkalega að þessu frv. hér haustið 1971, og hv. þm. Sverrir Hermannsson segir réttilega frá því, hvers vegna sú gagnrýni kom fram, í því viðtali sem birtist við hann í Morgunblaðinu sunnudaginn 19. okt. Þar segir hann, með leyfi hæstv. forseta: „Í inngangi laganna um Framkvæmdastofnun ríkisins er henni ætlað að annast hagrannsóknir, áætlunargerð og heildarstjórn fjárfestingarmála. Hér var ekki lítið lagt undir. Sjálfstfl. hafði brotið niður að verulegu leyti ofboðsleg ríkisafskipti sem hér höfðu þróast og vildi ekki hverfa aftur til kerfis hafta og skömmtunar og náðar og miskunnar hins opinbera.“

Ég hygg að þetta sé í mjög stuttu máli góð lýsing á þeim ástæðum og þeim forsendum fyrir gagnrýninni sem kom fram hjá þáv. stjórnarandstöðu gagnvart þessum lögum.

Matthías Bjarnason, núv. hæstv. ráðh., taldi í umr. um þetta mál haustið 1971 að hér væri verið að hverfa 40 ár aftur í tímann, það væri nú hvorki meira né minna.

Og hæstv. fjmrh. núv. Matthías Á. Mathiesen, kom fram í sjónvarpi fyrir síðustu kosningar og var þar að skýra ýmsar framkvæmdir og stefnu af hálfu síns flokks og hann var spurður um niðurskurð á opinberum stofnunum og þá nefndi hann eingöngu þessa einu stofnun sem væri sjálfsagt mál að leggja niður ef Sjálfstfl. kæmist til valda.

Ingólfur Jónsson, sem var hvað skeleggastur hér í umr. haustið 1971, viðhafði mörg orð um þessa stofnun, og honum til upprifjunar og öðrum, sem hlýddu á mál hans hér í síðustu viku, vildi ég fá að lesa hér nokkrar setningar úr ræðu hans frá þessum tíma, með leyfi forseta, en þar segir hv. þm. Ingólfur Jónsson m. a. þegar hann ræðir um Framkvæmdastofnunina:

„Það, sem verst er í sambandi við þetta — og það er sama hvað sagt er af hæstv. ríkisstj. eða stjórnarstuðningsmönnum um þessa stofnun — er að það er stórhætta á því að Framkvæmdastofnunin verði í raun og veru almenn skömmtunarskrifstofa með alræðisvaldi yfir mestum hluta þess fjármagns sem til framkvæmda er ætlað á hverjum tíma, þegar á að raða framkvæmdum og ákveða í hvaða framkvæmdir skuli ráðist. Það á að ákveða hverjir skuli lifa og fá fjármagn til framkvæmda og hverjir ekki skuli fá það, og er þá að tala um annað en skömmtun í þessu sambandi.“

Þetta telur hv. þm. Ingólfur Jónsson vera slíkt ranglæti og slíka ósanngirni „að það verði ekki þolað til lengdar, sem betur fer,“ segir hv. þm. haustið 1971. Það var þess vegna mjög dapurlegt að hlusta á þennan sama þm. flytja hér ræðu um þetta mál í síðustu viku og fara mjög vægum orðum um þessa „óskaplegu“ stofnun. Hann komst að þeirri niðurstöðu í þessari ræðu sinni að það þyrfti kannske að sníða einhverja agnúa af gildandi lögum! Það var nú komið niður í það. En ég kem kannske betur að því síðar.

Sjálfstfl. valdi í stjórn þessarar stofnunar á s. l. hausti mjög skelegga málsvara, þá hv. þm. Ingólf Jónsson og Matthías Bjarnason og hinn eðalborna vestfirðing Sverri Hermannsson, og var því við því að búast að þeir létu nú hendur standa fram úr ermum að breyta því sem breyta þyrfti í þessari stofnun. Það kom þess vegna mjög flatt upp á menn þegar hv. þm. Sverrir Hermannsson var settur kommissar snemma á s. l. vetri. Það var ekki aðeins vegna þess að Sjálfstfl. hafði léð máls á þessu, að gera hann að kommissar, heldur líka vegna þess að þarna var um þm. að ræða. Þetta hvort tveggja stangaðist náttúrlega mjög á við það sem þessi sami flokkur hafði talað um og þessir sömu menn höfðu barist fyrir nokkrum mánuðum áður, svo að ekki sé meira sagt.

En hann hefur gefið þá skýringu að það sé ekki honum að kenna hversu það dragist að breyta lögunum, og verða þeir að taka þá gagnrýni, sem eiga hana. En ég minni á þá staðreynd að stjórnmálaflokkar og ríkisstjórnir hafa auðvitað skyldum að gegna gagnvart umbjóðendum sínum, og ég er ekki að flytja hér inn í hv. deild innanflokksvandamál í mínum flokki hans vegna sérstaklega, heldur líka vegna þess að ég tel þetta erindi eiga til allra þeirra, sem hafa afskipti af stjórnmálum, og til þingsins sem slíks, vegna þess að álit Alþingis hefur að margra mati mjög rýrnað á undanförnum árum. Við skulum einmitt líta í eigin barm og átta okkur á því að ástæðurnar fyrir hinu rýrnandi áliti eru kannske fyrst og fremst það að menn hafa ekki borið gæfu til eða haft þrek til að standa nægilega oft við yfirlýsingar og gefin loforð. Almenningur tortryggir yfirlýsingar og dregur í efa sannleiksgildi stefnuyfirlýsinga flokkanna þegar eitt er sagt fyrir kosningar og annað gert eftir kosningar. Það er siðferðileg skylda allra flokka að reyna að breyta eftir því sem þeir boða, og ég held að það sé líka siðferðileg skylda þeirra flokka, sem ganga til samstarfs við aðra flokka, að taka tillit til slíks. Ef menn vilja með eðlilegum hætti reyna að auka veg þingsins og auka veg stjórnmálaflokkanna og þeirra manna sem þar starfa, þá er þetta mál sem við verðum að taka á með réttum hætti. Það ræður ekki úrslitum að sjálfsögðu, en slíkum málum er tekið eftir og ég höfða þess vegna í þessu máli til siðferðisvitundar allra þeirra sem hlut eiga að máli.

Það er, held ég, öllum ljóst að almenningsálit hefur breyst á þann veg, sem betur fer, að það eigi ekki að draga menn í pólitíska dilka þegar um opinbera þjónustu eða fyrirgreiðslu er að ræða, og fólk hefur ímugust á skömmtun eða mismunun á hlutunum, á ívilnunum, á pólitískri fyrirgreiðslu. Og slík pólitísk fyrirgreiðsla er andstæð hugsunarhætti og hugmyndum fólks um það hvernig eitt þjóðfélag skal rekið. Bitlingapólitík flokka fór á sínum tíma út fyrir öll velsæmismörk og það hefur dregið úr henni sem betur fer, vegna þess að fólk snerist gegn slíku og hafði andstyggð á því. Fólk vill gera greinarmun á stjórnsýslu og stjórnmálum, á fjármálaaðstöðu og þingmennsku. Og ég minni á að það hefur dregið úr því að valdsmenn, eins og t. d. sýslumenn, veljist til framboðs, nema þá að þeir láti af slíkum störfum. Það hefur dregið úr því að bankastjórar séu valdir til framboðs, embættismenn, ráðuneytisstjórar og dómarar — dómarar eru reyndar sumir hverjir ekki kjörgengir — en það er almenn viðurkenning á því að slíkir menn fari ekki í framboð vegna þess að fólk gerir greinarmun á stjórnsýslu og stjórnmálum.

Ég hef líka vakið athygli á því að almenningur er almennt mjög á varðbergi um að þm. hagnist ekki á þingsetu sinni. Að vísu er það misskilningur að eigi að launa þm. illa eða yfirleitt að þeir séu vel launaðir, því að auðvitað eiga þeir að vera á góðum launum meðan þeir sitja á þingi til þess að þeir séu fjárhagslega sjálfstæðir og þurfi ekki að vera upp á aðra komnir. En þessi almennt útbreidda skoðun, tortryggni gagnvart þm. og stjórnmálamönnum, þegar um valdaðstöðu þeirra er að ræða annars vegar og fjármál hins vegar, á rætur að rekja til þess að fólk er hrætt við samspil valds og fjár. Þarna ræður siðferðið úrslitum.

Pólitísk yfirstjórn er auðvitað nauðsynleg og ekki það sem ég er að gagnrýna. En pólitísk yfirstjórn á ekkert skylt við embættisvörslu. Við höfum ríkisstjórnir til þess að stjórna og leggja almennar pólitískar línur í þessu landi, en síðan höfum við embættismenn og opinbera þjónustu til þess að framkvæma þá meginstefnu. Þetta þjóðfélag er þannig byggt upp, okkar stjórnskipun er þannig byggð upp að það er gerður mjög skýr greinarmunur á þessu tvennu.

Hæstv. dómsmrh. sagði hér um daginn að hrakspárnar um þessa stofnun hefðu ekki reynst á rökum reistar. Hv. þm. Sverrir Hermannsson hefur svarað þessu í blaðaviðtali með því að segja að sjálfstæðismenn hafi kæft niður það sem fyrir þáv. stjórn vakti, gagnrýni þeirra hafi haft áhrif. Ég veit nú ekki hvor þeirra er ánægður með það hlutskipti, því að það er viðurkennt af mikilli hreinskilni af hæstv. dómsmrh. að það hafi beinlínis vakað fyrir vinstri stjórninni, þegar hún setti þetta kerfi á, að framkvæmdastjórar Framkvæmdastofnunar ríkisins ættu að vera til eftirlits fyrir ríkisstj. um að hennar stefna næði fram að ganga. Þeir áttu að stýra pólitískt þessari stofnun í samræmi við stefnu ríkisstj. Þess vegna hljóta að hafa verið vonbrigði fyrir þáv. stjórn og þ. á m. fyrir hæstv. dómsmrh. að slíkt hafi ekki tekist.

Nú hefur því verið haldið fram af hv. þm. Sverri Hermannssyni og hv. þm. Ingólfi Jónssyni og reyndar fleirum, að framkvæmdastjórarnir hefðu engin völd í dag, vegna þess að það væri stjórn þessarar stofnunar sem réði öllu, þar væri engin ákvörðun tekin nema af henni, með hennar fulla samkomulagi og vitund. En hvers vegna eru þá mennirnir að halda í þessar framkvæmdastjórastöður, og hvernig skyldi standa á því að maður, sem situr í stjórninni, er kosinn í stjórnina, eins og hv. þm. Sverrir Hermannsson, skuli segja af sér, segja sig úr stjórninni til þess að geta tekið að sér framkvæmdastjórastöðuna, á sama tíma sem hann gefur yfirlýsingar um að það sé stjórnin sem ráði öllu? Þetta er mikil fórnfýsi, þetta er ákaflega sérstakt tilvik sem hver getur auðvitað tekið trúanlegt sem vill.

Því var haldið fram á sínum tíma að það mundi þrífast hugsanleg spilling innan þessarar stofnunar að því leyti til, að þar mundi hugsanlega koma til misbeiting valds og pólitísk mismunun. Nú var auðvitað ekkert hægt að fullyrða um það haustið 1971 hvort þessi gagnrýni mundi standast, enda er ég ekki að fullyrða heldur að þetta hafi átt sér stað, að það hafi þrifist nein spilling í þessari stofnun. Það var ekki heldur verið að gagnrýna einhver einstök dæmi eða einstakar ákvarðanir um haustið 1971, þegar frv. var til umr. Þá var verið að gagnrýna frv., væntanleg lög, vegna þess að lögin sjálf fela í sér spillinguna. Það eru lögin sjálf sem gera ráð fyrir slíkri pólitískri handleiðslu og ég hef komið inn á, sem fela í sér þessa spillingu. A. m. k. nota ég þetta orð, spilling, með hliðsjón af þeim stjórnmálaskoðunum sem ég hef og ég get ímyndað mér að meginþorri þm. hafi.

Menn sönnuðu ekki heldur neina spillingu áður fyrr þegar skömmtunarskrifstofur voru við lýði, þegar húsnæðismálalánum var gegndarlaust úthlutað eftir pólitískum litum. Það var ekki hægt að sanna neitt lagalegt brot. Það er afar sjaldgæft að hægt sé að sanna slíkt þegar um pólitík er að ræða. Þetta er spurning um siðferði. Og það er líka það sem við verðum að hafa í huga að vald er vandmeðfarið og það er skammt í freistingar þegar sverfur að og þegar kosningar nálgast.

Það þýðir ekki að flytja fagrar ræður um það hversu mikið þessi stofnun hafi gert, vegna þess að einmitt vegna umsvifa hennar, vegna stærðar hennar er því meiri ástæða til þess að vara við að þarna fari allt fram með heiðarlegum hætti og að lagaramminn sé slíkur að menn tortryggi ekki þessa stofnun. Það er einmitt vegna þess að þarna var safnað saman sjóðum, sem skipta hundruðum og þúsundum millj. kr., safnað saman undir einn hatt og undir pólitíska stjórn, að þetta er gagnrýnt, og ég tel að það sé um að ræða spillingu þegar um lögin er að ræða. Ég heiti því á alla þá, sem vilja skoða þetta mál með raunsæjum hætti og af fullri sanngirni, að taka höndum saman og reyna að breyta lögunum á þann hátt að það sé ástæðulaust að tortryggja þá framkvæmd og starfsemi, sem þarna fer fram.

Ég hef ekkert á móti því, að stjórn sú, sem situr í slíkri stofnun, hafi mikil völd og taki ákvarðanir, og mér skilst að það sé gert. En þá er það auðvitað auðveldasti hlutur í heimi núna að fella niður það fyrirkomulag, sem er á ráðningu framkvæmdastjóranna, og ganga í þá átt sem þetta frv. gerir ráð fyrir sem hér er á dagskrá. Reyndar vil ég ganga miklu lengra í þeim efnum, leggja niður þessa stofnun sem slíka og setja starfsemi hennar yfir á ýmsar aðrar stofnanir sem nú þegar eru fyrir hendi. Það mundi spara margt og vera að mínu áliti miklu heppilegra þegar til lengdar lætur.

Svo eru það nokkur orð út af hv. þm. Sverri Hermannssyni sem ég tel ástæðu til þess að gera skil með örfáum orðum, vegna þess að honum hefur verið léð gott rúm í málgagni sínu, Morgunblaðinu, og þar undir fyrirsögninni: „Það vantar meiri pólitíska stjórn á þetta þjóðfélag.“ Ég veit ekki hvort það hefur ruglast eitthvað í kollinum á honum, en það, sem menn hafa verið að gagnrýna allan tímann, er að það sé um að ræða pólitíska stjórn, það sé pólitísk stjórn á þessari stofnun. Og hann viðurkennir að þetta hafi verið ástæðan fyrir því að Sjálfstfl. og hann sjálfur gagnrýndi frv. og lögin á sínum tíma. Hann segir líka: „Við kæfum þetta niður með gagnrýninni. Við kæfum niður þessa pólitísku stjórn.“ En svo segir hann í næstu setningu: „Við þurfum meiri pólitíska stjórn.“ Þetta er röksemdafærsla sem ég átta mig ekki alls kostar á.

Hann sest síðan í kommissaraembættið, á sama tíma sem það gerist að öll völd eru tekin af kommisörunum og sett í hendurnar á stjórninni. Og nú rís þessi maður upp og segir: Nú hef ég valdið, nú get ég sagt já eða nei, og ég læt ekki þetta vald af hendi. — Segir í þessu viðtali að það komi ekki til greina að Framkvæmdastofnunin víki neinu frá sér, orðrétt, með leyfi forsela:

„Við verðum að hætta þessum feluleik (þ. e. a. s. að þora ekki að segja já eða nei) og taka óhræddir ákvarðanir sjálfir fyrir opnum tjöldum. Hér hjá okkur í Framkvæmdastofnuninni verður að segja já eða nei í sambandi við afgreiðslu mála. Við viljum ekki vísa þeim málum frá okkur til eins eða neins.“

Það sem sagt vakir fyrir þessum hv. þm. og skoðanabræðrum hans að halda öllum völdum í þessari stofnun undir þeim kringumstæðum sem nú eru, eftir því sem ég get best skilið. Hann segir að ráðh. hafi engan tíma til nýsköpunar, séu alltaf að sinna daglegum vandamálum, en hann sjálfur virðist nú vera heldur betur út og suður. Hann sem eðalborinn vestfirðingur er búinn að þræða alla firðina þar fyrir vestan og tala við allar hreppsnefndir og lætur sig nú ekki muna um það, heldur mun vera á ferðalagi í Helsinki þessa stundina. Það er auðvitað ljóst að það er alls ekki skynsamlegt eða heppilegt, hvorki fyrir hann né aðra þm., að vera í slíkum ferðaleik út og suður þegar þeir eiga auðvitað að vera hér niðri í þingi og sinna almennri nýsköpun með sínum eigin ráðherrum. Þó að það sé auðvitað gagnlegt fyrir þm. að ferðast um landið, þá á það ekki að taka svo mikinn tíma frá þessum sömu mönnum að þeir hafi ekki tíma til þess að sinna þeirri nýsköpun sem við erum væntanlega sammála um að þurfi að fara fram.

Ég tek fram, eins og ég hef tekið fram áður, að ég er ekki að gagnrýna persónulega þá menn sem skipaðir eru framkvæmdastjórar í þessari stofnun. Ég er að tala um þetta almennt, vegna þessa máls í heild. Ég tel að þeir hafi orðið leiksoppar í valdatafli og það sé skaðlegt fyrir þá og þeirra flokka. Og mér þykir að sjálfsögðu vænt um að heyra að það komi fram till., sem þeir tveir og ýmsir aðrir hafa undirritað, um að leggja niður kommissarakerfið. En ég heiti þá á þá að knýja á um það og vera þá menn til þess að standa við það og ef endurskoðunin kemur ekki fram innan skamms, þá að fylgja þessum till. sínum eftir með því hreinlega að segja af sér.

Ég vonast til þess, að þessar umr. komi hreyfingu á þetta mál og að Alþ. hafi til að bera þann þroska að koma til móts við kröfur almennings um stjórnmálaafskipti sem eru á þá leið, að við höfum hina almennu pólitísku stjórn í okkar höndum með því að setja meginlínur, móta meginstefnur, en fela síðan embættismönnum að framkvæma það, eftir því sem þeir hafa aðstöðu til, en setja þá af ella. Það er alla vega algerlega útilokað fyrir okkur að halda að við getum leyst þessa pólitísku yfir stjórn okkar og henni sé best borgið með því að við sjálfir tökum að okkur embættismennskuna.

Herra forseti. Ég lýk þá máli mínu. Þetta frv. gengur í rétta átt, en gengur of skammt. Ég tel að það hafi gert sitt gagn með því að setja af stað þessar umr. En það þarf auðvitað að endurskoða þessi lög í heild sinni, ekki aðeins ákvæðið um skipun framkvæmdastjóranna, heldur líka lögin öll, þannig að það sé meira í samræmi við það, sem núv. stjórnarflokkar eða alla vega minn flokkur hefur hugmyndir um.