12.02.1976
Neðri deild: 57. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

151. mál, gjald af gas- og brennsluolíum

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ekki heyrist mér á síðustu ræðu hv. 4. þm. Reykv., að málið hafi neitt skýrst, því að eftir því sem hann talaði í sinni seinni ræðu, þá virðist vera um að ræða allsherjar ágreining þingflokka stjórnarflokka við ríkisstj. sjálfa. Það verður ekki annað skilið af því sem hv. þm. sagði áðan.

En kannske væri rétt til þess að botn kæmist í málið milli þingflokka ríkisstj. og hennar sjálfrar að þessu máli yrði nú frestað, ákvarðanatöku eða afgreiðslu málsins hér í hv. d., þangað til það liggur fyrir hvort ekki sé samkomulagsgrundvöllur í þessu máli milli aðila eins og kannske í mörgum öðrum.