12.02.1976
Efri deild: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1886 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

148. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér sérstakt nál., þó að ég styðji efnislega frv. sem hér liggur fyrir til umr., og mun nú gera grein fyrri afstöðu minni í þessu stutta nál.

Frv. þetta fjallar um breytingu á gjaldi sem tekið skal við útflutning á sjávarafurðum. Um langan aldur hefur slík gjaldtaka átt sér stað og verið ráðstafað með lögum frá Alþingi eftir óskum útgerðaraðila. Í langan tíma var þetta gjald fyrst og fremst notað til að mynda tekjur fyrir Aflatryggingasjóð, var fremur lítil upphæð og kallaði ekki fram neinar deilur að ráði um það. Það, sem inn kom, fór aftur til þess að gera upp launahluti áhafna þegar afli brást.

Á erfiðleikaárunum 1967 og 1968 var gerð gengisbreyting, og einn þátturinn í því að rétta við rekstur útgerðarinnar var að stofna sérstaka deild við Fiskveiðasjóð Íslands er fékk nafnið Stofnfjársjóður fiskiskipa. Um áramótin 1968–1969 var fyrst innheimt útflutningsgjald í þessa deild og þá ákveðið 10% af fiskverði — bolfisktegundum — og 20% af síldarafurðum. Við sölu erlendis var gjaldið 22% af brúttó-söluverði. Þessi mismunun olli strax deilum um gjaldið, en löggjöfin um Stofnfjársjóð fiskiskipa gerir ráð fyrir að tekjuöflun sé ákveðin í lögum hverju sinni.

Það er sameiginlegt þessum tveimur sjóðum, sem hér eru nefndir, að til þeirra rennur föst hlutfallstala af afla hvers skips. Þörfin á Stofnfjársjóðnum var löngu ljós, og hefur hann reynst til mikilla bóta fyrir Fiskveiðasjóð. Þetta tryggir Fiskveiðasjóði nokkuð örugga greiðslu á lánum frá sjóðnum, en gífurleg vanskil voru áður við Fiskveiðasjóð. Ef þetta fyrirkomulag hefði ekki gilt nú undanfarið, orkar ekki tvímælis að miklu minni uppbygging fiskveiðiflota okkar hefði átt sér stað. Eftirspurn eftir lánum hjá Fiskveiðasjóði er og hefur verið svo mikil, að án sem næst tryggra skila á lánum og vöxtum hefði Fiskveiðasjóður gersamlega verið vanefnum búinn til þess að mæta lánsfjárþörfinni við fiskiskipakaupin og uppbyggingu fiskvinnslustöðvanna. Það, sem menn hafa deilt um, er hve mikið gjald skuli tekið í þessu skyni. Einnig var ósanngjarnt að gera mönnum mishátt gjald eftir samsetningu aflans.

Samhliða frv. um breytingu á útflutningsgjöldum er frv. um breytingu á Stofnfjársjóðnum, en þar er gert ráð fyrir að gjaldið verði 10% fiskverðs, eins og það er ákveðið hverju sinni hér innanlands, en við löndun og sölu afla erlendis verði gjaldið 16%. Þetta ætti að vera raunhæf tala fyrir báða aðila og tryggja áfram gildi Stofnfjársjóðsins við Fiskveiðasjóð.

Gjaldið í Aflatryggingasjóðinn er mikið hagsmunamál og hefur ekki valdið átökum milli sjómanna og útgerðar um það, þar sem það á að tryggja betri skil á uppgjöri til áhafna.

En auk áðurnefndra tveggja sjóða hefur vaxandi hátt gjald verið tekið af útflutningi Tryggingasjóðs fiskiskipa og nú seinast í svonefndan Olíusjóð. Tilgangur þessara sjóða og gjaldtaka í þá er og hefur verið verulegt deiluefni, hæði á meðal útgerðaraðila og sjómanna. Á s. l. ári sauð upp úr um þessi efni og knúið var fram loforð frá hæstv. forsrh. um skipun n. til þess að kanna umfang sjóðakerfisins og úrbætur í því efni og afnám fyrst og fremst Olíusjóðs og Tryggingasjóðsins. Nú fyrir skömmu kom fram löng grg. um þessa sjóði alla. Frv., sem hér er flutt, felur í sér afnám Olíusjóðsins og mjög mikla lækkun, um helming, á gjaldstofni til Tryggingasjóðsins.

Til Olíusjóðsins var stofnað fyrir um það bil tveimur árum af þáv. sjútvrh., Lúðvík Jósepssyni, og voru sett ný útflutningsgjöld í þessu skyni, og fyrst og fremst átti loðnuaflinn að bera gjaldið. Þessi ráðstöfun var sögð réttlætanleg vegna erfiðleika hinna nýju togara vegna olíuhækkunarinnar og hins vegar vegna góðra möguleika í afla og verði hjá loðnuveiðiskipunum. .Á Alþ. urðu um þetta langar umr. þá. Lögðust þm. Alþfl. eindregið á móti þessu gjaldi og bentu á hættuna sem í því fólst. En með furðulega góðu fylgi sjálfstæðismanna þá hér á hv. Alþ. komst þetta rangláta gjald á, sem hefur leitt af sér hin mestu vandræði og óánægju allra aðila. Nú er svo komið að enginn vill helst kannast við þetta fáránlega gjald eða þátttöku sína í að koma því á.

Þótt gjaldtaka til Tryggingasjóðs sé ekki afnumin er hér stigið verulegt skref til bóta og byggt á till. áðurnefndrar sjóðanefndar. Réttmætt getur talist að hafa nokkra tryggingasamhjálp, en reynslan sýnir því miður að ekki má gera um of í þessu efni, því að misnotkun kemur annars fljótt fram.

Gjaldtakan í Olíusjóðinn og Tryggingasjóðinn hefur leitt af sér mikið ranglæti og ósanngjarna millifærslu og haft miður góð áhrif á viðleitni manna til aðhalds og rekstrarhagkvæmni. Út í þá sálma skal ég þó ekki fara hér nú.

Frv. þetta er flutt í framhaldi af víðtækri endurskoðun á sjóðakerfi sjávarútvegsins, eins og fram hefur komið, sem n. skipuð af ráðh. samkv. kröfum aðila í sjávarútvegi hefur annast. Frv. er byggt á till. þessarar n. og er tvímælalaust spor í rétta átt. Alþfl. er eðlilega fylgjandi afnámi hins rangláta millifærslukerfis, en hefði kosið að ganga nokkru lengra í vissum atriðum en ráð er fyrir gert í frv. Hins vegar ber á það að líta, að frv. byggist á samkomulagi hagsmunaaðila í sjávarútvegi, sjómanna og útvegsmanna, og er þáttur í lausn kjaramála- og fiskverðsákvörðunar. Lögð hefur verið á það mikil áhersla hér á hinu háa Alþ. nú að frv. fengi skjóta afgreiðslu efnislega óbreytt, og því mun ég greiða frv. atkv.

Þótt ástæða væri til að fjalla um þessi mál allmiklu meira er vegna tímans ekki svigrúm til þess nema sérstakt tilefni gefist. Læt ég því nægja að gera þessa stuttu grein fyrir afstöðu minni til málsins og hvers vegna ég kaus að fjalla lítils háttar um það í nál. En eðli þessara sjóða, eins og menn hafa gert sér grein fyrir, hefur verið nokkuð misjafnt og talið rétt að halda sumum við áfram, en fella niður þá sjóði, þótt þeir væru taldir nauðsynlegir á sínum tíma, sem orsakað hafa mikla togstreitu bæði í hópi útgerðaraðila og sjómanna.