12.02.1976
Efri deild: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1888 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

148. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég skal vera mjög fáorður, en hlýt að vekja athygli á smávegis missögn í nál. og ræðu síðasta hv. ræðumanns, Jóns Árm. Héðinssonar.

Ég undraðist það nokkuð á nefndarfundi, eftir að hv. þm. Jón Árm. Héðinsson hafði lýst yfir að hann mundi mæla með samþykkt frv., að hann skyldi ætla sér að skila sérnál. Það liggur nú hér frammi í alllöngu máli, og hann las það hér áðan. Í nál. kemur fram ástæðan fyrir því að hann kaus þessa aðferð við afgreiðslu málsins. Hann semur þessa löngu ritgerð til þess að koma að ósannindum um upphaf Olíusjóðsins. Ég hygg að þm. sé ljóst að Lúðvík Jósepsson stóð ekki að lagasetningu um Olíusjóðinn. Það, sem hv. þm. á við, er það, þegar teknar eru 220 millj. kr. á sínum tíma úr Verðjöfnunarsjóði til þess að greiða út til bráðabirgða úr vandræðum flotans vegna olíuhækkunarinnar. Ég orðaði þetta áður svo, að sjóðakerfið hefði sprottið upp úr bráðabirgðaskyndiráðstöfunum til hjálpar útgerðinni. Þetta er að vísu ein af þessum skyndiráðstöfunum, en hitt er ósatt, að Lúðvík Jósepsson hafi staðið að gerð laganna um Olíusjóðinn.

Nú vill svo til að velflestir þessir sjóðir, svo til nær öll þessi sjóðaflækja, að Olíusjóðnum undanskildum, er til komin þegar Alþfl. átti sjútvrh. Ég er ekki þess umkominn að deila á fyrrv. sjútvrh. Alþfl. fyrir þær ráðstafanir sem þá voru gerðar til bjargar úr aðkallandi vandræðum. Þessi vandræði bar upp á hverju sinni. Þeim var mætt með bráðabirgðaráðstöfunum sem síðan var látið vallgróa yfir í löggjöf sem reynst hefur illa þegar til lengdar lét.

Ég vildi aðeins leiðrétta þessa missögn hv. þm. Jóns Árm. Héðinssonar.