12.02.1976
Efri deild: 54. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1893 í B-deild Alþingistíðinda. (1579)

151. mál, gjald af gas- og brennsluolíum

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson) :

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur tekið mál þetta til athugunar, m. a. á sameiginlegum fundi fjhn. beggja d. nú í morgun og síðan aftur á fundi nú fyrir stuttu. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ., en minni hl. n., Jón Árm. Héðinsson, skilar séráliti. Fjarverandi afgreiðslu málsins var Ragnar Arnalds, en Stefán Jónsson sótti fundi n. í fjarveru hans. Einnig hefur fallið niður að geta þess, að fjarverandi afgreiðslu málsins var Jón G. Sólnes.

Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa langa framsögu fyrir þessu máli. Forsaga þess er sú, að í júlí 1971 var ákveðið að fella niður söluskatt af olíu til húsahitunar og til fiskiskipa og svo var gert, en upphæð sem svaraði söluskatti af olíu til fiskiskipa var greiddur úr Verðjöfnunarsjóði sem er til þess stofnaður að jafna verð á olíu vegna hinnar miklu sveiflu sem verður oft á því verðlagi. Síðan gekk það svo til, að það var eigi hægt að greiða þessa upphæð úr þessum sjóði, og varð því úr, hvernig sem það hefur atvikast, að þessi upphæð kom inn í verðlag olíunnar og var jafnað þar út, þannig að olíufélögin hafa alla tíð skilað ríkissjóði sem nemur söluskatti af olíu til fiskiskipa, en þessum söluskatti hins vegar verið jafnað á olíu bæði til húshitunar og til fiskiskipa og annarra nota.

Um s. l. áramót gerði fulltrúi í verðlagsnefnd aths. við þetta fyrirkomulag og var þá ákveðið að þetta gæti ekki gengið lengur á þennan hátt. Í framhaldi af því átti í reynd olíuverð að hækka nú fyrri hluta ársins vegna verðhækkana, en þar sem þetta gjald var numið burt úr olíuverðinu, þá jafnaðist það út. Hins vegar hefur þessi upphæð, söluskatturinn, verið greidd úr Olíusjóði fiskiskipa frá áramótum. En þar sem sá sjóður er nú felldur niður er eigi hægt að halda því fyrirkomulagi áfram.

Með þessu frv. er í reynd verið að viðurkenna staðreynd sem hefur við gengist og staðreynd sem eigi verður vikist undan, og með þessu frv. er verið að koma þessu máli í eðlilegra horf með því að leggja þetta gjald á alla olíu í stað þess að dreifa söluskattinum á þann hátt sem ég áður gat um.

Hins vegar verður að segjast eins og er, að það er í sjálfu sér með öllu óeðlilegt að olía til húshitunar skuli vera tekjustofn fyrir ríkissjóð. Það liggur hér fyrir d. frv. til l. um jöfnun á hitunarkostnaði. Ég tel eðlilegt að taka þessi mál öll til athugunar varðandi meðferð á því frv., en í sjálfu sér hefði verið eðlilegra að afgreiða þessi mál samhliða. En þar sem mun vera nauðsynlegt að afgreiða nú héðan frá d. öll þau frv. sem koma inn á breytingar þær sem nú á að gera á sjóðakerfi sjávarútvegsins, þá er nauðsynlegt að þetta frv. verði afgreitt samhliða.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja þetta mál frekar, en endurtek að meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt.