12.02.1976
Efri deild: 54. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1894 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

151. mál, gjald af gas- og brennsluolíum

Frsm. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 329, skilum við í stjórnarandstöðunni séráliti, og er það niðurstaða í okkar nál. að rétt væri að frv. verði fellt.

Samkv. frv. er lagt til að lagt verði á nýtt innflutningsgjald af brennsluolíu, 1330 kr. á hvert tonn. Áætlað er að gjald þetta gefi ríkissjóði um 580 millj. kr. á ári. Nú vitum við að vísu að staða ríkissjóðs er þröng á árinu, en eins og frsm. meiri hl. drap á í lok ræðu sinnar, þá er til meðferðar annað frv. hér á hv. Alþ. um olíukostnað húsa og tilhneiging í því frv. er að auka tekjur í sambandi við olíu og millifærslu til Orkusjóðs og það um verulegar upphæðir, jafnvel báti í 100% til hans. En það verður rætt á öðrum vettvangi og ætla ég ekki að blanda því beint saman. En m. a. vegna þess, hve samtengt þetta er og um 78 þús. manns nota olíu enn til húshitunar, er rétt að gefa gaum að þessum málum saman, jafnvel þótt þetta mál tengist sérstaklega við breytinguna á því sjóðakerfi sem við vorum að ræða hér rétt áðan.

Söluskattur var felldur niður af olíum til húsakyndingar fyrir nokkrum árum, eins og kunnugt er, og heimild er til að færa þetta út. En ég býst við að rök hæstv. fjmrh. séu fyrir því að taka upp magngjald í staðinn, að ríkissjóður muni ekki standast niðurfellingu söluskattsstofnsins, sem á að gefa hátt í 600 millj., nema fá magntoll í staðinn. Í leiðinni vil ég spyrja hæstv. fjmrh. og reyndar einnig hæstv. forsrh., því að hann sagði í beinni línu að við mundum hittast á þessum vettvangi og ræða stöðu togaraflotans, og er nú einmitt gefið tilefni til þess, hvað mikil millifærsla á sér stað að mati hæstv. ríkisstj. nú við þessar breyttu aðstæður á yfirstandandi ári.

Það er kunnugt og það veit hæstv. ríkisstj. miklu betur en við, að um þriðjungur togaraflotans er nú rekinn með tugmilljóna halla á ári án afskrifta, og stærsti liðurinn í þessari hallamyndun á rekstri er olíukostnaðurinn. Einnig hefur hæstv. ríkisstj. gefið loforð um að jafna á milli þessa óhagstæða rekstrar með milligjöf úr ríkissjóði. Við allar þessar breytingar hlýtur þessi áætlun að hafa verið endurskoðuð, og það er fróðlegt að vita að hvaða tölu er stefnt í því efni nú. Þetta er mjög há tala, það liggur ljóst fyrir, en hversu hátt má áætla við þessar breytingar að þessi hjálp til togaraflotans verði nú úr ríkissjóði, það vildi ég gjarnan fá að vita. Það var eðlilegt að formaður fjh.- og viðskn. gæti ekki svarað því fyrirvaralaust. En þessi mál eru öll tengd, og þó að nokkur fljótaskrift þurfi að vera á afgreiðslu þessa máls, þá er varla hægt að hespa það svona af, án þess að nokkur meiri skýring fylgi. Við í stjórnarandstöðu höfum tekið þá afstöðu, að það væri réttmætt að fella þetta frv. fyrir bragðið.