16.02.1976
Neðri deild: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1900 í B-deild Alþingistíðinda. (1590)

43. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 47 var lagt fyrir Ed. og var mælt fyrir því 10. nóv. s. l. Það hefur gengið þar í gegnum þrjár umr. og verið samþ. þar óbreytt.

Frv. var samið af svokallaðri réttarfarsnefnd, en dómsmrn. óskaði þess haustið 1973 að hún tæki til athugunar till. sem fram hefur komið frá borgardómaraembættinu í Reykjavík um að lögfest yrði heimild til að beita hljóðritun á dómþingum í einkamálum. Slík heimild hefur um árabil verið í lögum um meðferð opinberra mála, reyndar fremur lítið notuð. Hins vegar er það svo, að nokkur síðustu ár mun slíkum hljóðritunum hafa verið beitt við borgardómaraembættið hér í Reykjavík í tilraunaskyni, en án þess að til þess hafi verið heimild í lögum. Er gert ráð fyrir því í þessu frv. að dómsmrh. verði veitt heimild til að ákveða að upp verði tekin slík hljóðritun við héraðsdómaraembætti. Meiningin með slíkri breytingu er að greiða fyrir meðferð dómsmála, þannig að þau geti tekið skemmri tíma en nú á sér stað, og ég vænti þess að allir hv. dm. séu sammála um að nauðsyn sé að gera hverja þá ráðstöfun sem tiltæk er til þess að svo megi verða.

Ég leyfi mér, herra forseti, að öðru leyti að vísa til athugasemda með frv. og óska þess að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.