16.02.1976
Neðri deild: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1901 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

113. mál, álbræðsla við Straumsvík

Jóhann Hafstein:

Virðulegi forseti. Við höfum hér til meðferðar 113. mál í Nd. Það er frv. til l. um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Suisse Aluminium um álbræðslu við Straumsvík.

Iðnn. hefur skilað áliti sínu, bæði meiri og minni hl., Ingólfur Jónsson frsm. meiri hl. og formaður iðnn. Nd. hefur haldið mjög góða og ítarlega ræðu um málið, sem ég er honum þakklátur fyrir. Frsm. minni hl., sem ég sakna nú hér í bili, Vilborg Harðardóttir, hefur einnig haldið sína framsöguræðu. Ætla ég ekki á þessu stigi málsins að blanda mér í deilur um málið svo að nokkru nemi. Hins vegar hefur Vilborg Harðardóttir skilað minnihlutanál. og þar fer hún lítt skiljanlegum ummælum um málið sem ég hygg að hún muni síðar sjá eftir. Segir hún m. a.:

„Áður voru íslendingar hvað skattgjaldið snertir háðir geðþótta hringsins, þ. e. hvernig honum þóknaðist að hagræða afkomu deildarinnar á Íslandi.“

Þetta er mér algjörlega óskiljanlegt og ég fæ ekki skilið hvernig frsm. minni hl. getur komist þannig að orði. Það má hins vegar virða þessum hv. þm. til vorkunnar ef til vill, að hann er hér á Alþ. sem varamaður og var mér vitanlega ekki neitt viðriðinn gerð álsamningsins á sínum tíma eða umr. um hann hér á Alþ.

Í 27. gr. laganna um álsamninginn segir svo m. a. og stríðir það algjörlega á móti því sem segir í nál. minni hl. - 27. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Endurskoðun reikninga fyrir hvaða ár sem er ber Alusuisse fyrir ríkisstj. eigi síðar en 1. maí næsta ár á eftir, og kjósi ríkisstj. að láta athuga slíka reikninga og ársreikninga ber að ljúka þeirri athugun fyrir 1. sept. það ár.“

Í 27. gr. segir enn fremur:

„Útreikning nettóhagnaðar ÍSALs vegna 6. kafla samnings þessa ber að grundvalla á viðurkenndum bókhaldsreglum sem eiga við um iðnaðarfyrirtæki af sams konar stærð og tegund og ÍSAL og samkvæmt hlutlægum mælikvarða á viðskiptaháttum milli óskyldra aðila, að því er varðar öll viðskipti ÍSALs.“

Hér er mjög greinilega og ótvírætt tekið til orða og því langt fjarri að það sé hægt að hagræða algjörlega án okkar vitundar bókhaldi fyrirtækisins ÍSALs, miðað við það, sem segir í 27. gr.

Í fyrstu var raforkuverðið 26.4 aurar á kwst. En á það er að líta, að rafmagnið skyldi greitt í dollurum og upphaflega verðið mundi því nú vera 52 aurar vegna hækkunar á gengi dollars, þ. e. a. s. helmingi hærra. Gengi dollars mun hafa verið kr. 87.88 þegar samningurinn var gerður. Raforkuverðið hækkar síðan samkv. nýja samningnum á mjög stuttu tímabili, tveim árum upp í 77 aura á kwst. Raforkuverðið var frá öndverðu hærra en framleiðslukostnaðarverð þess, sem var um 20 aurar.

Eftir að vinstri stjórnin tók við völdum árið 1971 átti Þjóðviljinn viðtal við iðnrh. 22. sept. 1971. M. a. spyr blaðið: „Hvert yrði raforkuverðið frá Tungnaárvirkjun?“ En bæði lögin um Sigölduvirkjun og virkjun Hrauneyjarfossa í Tungnaá hafði ég fengið samþykkt á Alþ. á sínum tíma, í iðnaðarráðherratíð minni. Svar iðnrh. við þessari spurningu sem ég las áðan, er þetta:

„Það er 32–35 aurar á kwst., þ. e. framleiðslukostnaðarverð.“ Hér er lagt til grundvallar sama sjónarmið sem gert var í öndverðu, þ. e. að miða við framleiðslukostnaðarverð. Síðar í sama viðtali segir þáv. iðnrh.: „Í þessu sambandi má nefna það, að þegar erlendir aðilar leita hófanna um starfrækslu orkufrekra fyrirtækja hér á landi nú þessa dagana, er þeim sagt að orkuverðið geti aldrei orðið lægra en 35 aurar á kwst. og þeir virðast telja það mjög eðlilegt.“

Nú skal ég víkja að atriði sem að vísu oft er búið að minna á, en jafnoft búið að gleyma. Samkv. grg. um stofnkostnað og fjármál Búrfellsvirkjunar frá Landsvirkjun, formanni og framkvæmdastjóra, er áætlað meðalkostnaðarverð á rafmagni í aurum á kwst. frá Búrfellsvirkjun svo sem greinir í eftirfarandi töflu, sem er fylgiskjal með nál. á Alþ. 1969–70, 45. mál, þskj. 365, frá meiri hl. fjhn., bls. 9. Þá er áætlað meðalkostnaðarverð í aurum á selda kwst. frá Búrfellsvirkjun annars vegar með sölu til álbræðslu og hins vegar án sölu til álbræðslu. Það er auðvitað gert ráð fyrir því, að verði ekki samið við álbræðslu, þá verði Búrfellsvirkjunin framkvæmd í tveim til þrem áföngum í staðinn fyrir einn. Þá lítur dæmið þannig út, að árið 1970 var raforkuverðið með sölu til ÍSALs 47.4 aurar, en án sölu til ÍSALs 224 aurar, 1971 41.3 með sölu til ÍSALs, en 143.5 án sölu til ÍSALs, árið 1972 31.9 aurar með sölu til ÍSALs, en 105.5 aurar án sölu til ÍSALs, 1973 24.7 aurar á móti 84.5 aurum, 1974 22.7 aurar á móti 77.8 aurum, 1915 20.9 aurar með sölu til ÍSALs, en 64.2 aurar án sölu til ÍSALs eða án álbræðslu og 1976 20.2 aurar með sölu til ÍSALs, en 53.9 aurar án sölu til ÍSALs, 1977, 20.1 eyrir með sölu til ÍSALs, en þá er full nýting talin á raforkuverinu, en þetta ár, 1977, mundi það hafa verið 52.5 aurar án sölu til ÍSALs. 1978 er það 20.1 eyrir á móti 45.3, 1979 20.1 eyrir á móti 39.7 og 1980 20.1 eyrir með sölu til ÍSALs á móti 34.9 aurum án sölu til ÍSALs.

Þessi tafla sýnir mjög glöggt hversu mikill munur það er að geta strax hagnýtt alla orkuna með sölu til stóriðju.

Á þessu sést líka, að með sölu til ÍSALs fæst full nýting árið 1977, en hefði Búrfellsvirkjun eingöngu verið gerð fyrir almenna markaðinn hefði hins vegar þurft að bíða langt fram yfir 1980 þar til ávinningur hins hagkvæma orkuverðs hefði komið almenningskerfinu til fullra nota.

Það kemur einnig í ljós, að tekjurnar af raforkusölusamningnum nægja til þess að endurgreiða lán til virkjunarinnar er nema 3/4 af stofnkostnaðinum á 25 árum með 7% vöxtum, enda þótt álbræðslan noti aðeins um 2/3 af framleiddri orku.

Það, sem sagt er hér er miðað við gengi dollars á þessum árum, 1969–1970, og einnig í eftirfarandi málsgr. úr sömu grg., bls. 11., en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Sé miðað við núverandi verðlag á áli, má reikna með því að skatttekjur af álbræðslunni muni næstu 25 árin nema nær 4000 millj. kr. eða um 50 millj. dollara, en tekjur af raforkusölunni um 6500 millj. kr. eða 74 millj. dollara. Samtals eru þessar gjaldeyristekjur nær 11 þús. millj. kr. eða hátt í þrisvar sinnum meiri en allur stofnkostnaður Búrfellsvirkjunar. Þrisvar sinnum meiri en allur stofnkostnaður Búrfellsvirkjunar. Munu gjaldeyristekjurnar af þessu tvennu fyrstu 15 árin nægja til þess að endurgreiða öll lán vegna virkjunarinnar með 7% vöxtum.“

Nú vil ég minna á stuttar klausur úr grg. með álfrv. á sínum tíma. Þær eru þess virði að gleymast ekki og þá ekki síður fyrir þá sem aldrei hafa lesið þær. Á bls. 100 segir eftirfarandi:

„Bein áhrif álbræðslunnar á þjóðartekjur eru mjög svipuð hreinum gjaldeyristekjum af henni. Á hinn bóginn er rétt að hafa í huga, að álbræðslan er ný undirstöðuatvinnugrein, sem skapar viðbótargjaldeyristekjur sem aftur verða undirstaða frekari aukningar þjóðartekna. Reynslan hefur sýnt að aukning þjóðartekna hér á landi er mjög háð því, hver aukning á sér stað í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Gjaldeyrisöflunin er á vissan hátt undirstaða annarrar tekjuöflunar, svo sem í formi framleiðslu á innlendum neysluvörum og hvers konar þjónustu. Reynslan hefur bent til þess, að í grófum dráttum þurfi hrein gjaldeyrisöflun að nema um 1/4 af þjóðartekjunum. Þetta þýðir m. ö. o. að aukning hreinna gjaldeyristekna skapi svigrúm til allt að fjórfaldrar aukningar þjóðartekna. Þetta hefur komið skýrt í ljós í því að undanfarin 20 ár hafa öll tímabil ört vaxandi þjóðartekna verið í beinu samhengi við mikla aukningu gjaldeyristekna.“

Á bls. 99 í sömu grg. um álsamninginn segir svo:

„Hinn mikli hagnaður, sem í því felst að gera samning við álbræðslu nú, liggur einfaldlega í því að geta miklu fyrr en ella nýtt til tekjuöflunar fyrir þjóðarbúið stórfellda raforkuframleiðslu sem ella væri ekki markaður fyrir. Þetta mun svo aftur hafa í för með sér örari uppbyggingu orkuframleiðslunnar í framtíðinni ásamt þeim efnahagslegu tækifærum sem í því felst.

Loks er svo rétt að benda á það, að hér hefur aðeins verið rætt um afkomu Landsvirkjunar fram til ársins 1985, en eftir þann tíma mun rafmagnssamningurinn við álbræðsluna halda áfram að skila Landsvirkjun miklum umframtekjum árlega. Um 22 árum eftir að virkjunin tekur til starfa verða öll lán hennar fullgreidd, svo og allar tekjur frá álbræðslunni að frádregnum tiltölulega litlum árlegum rekstrarkostnaði munu þá vera hreinn greiðsluafgangur fyrir raforkukerfið.“

Þetta er miðað við, eins og ég sagði áðan, aðstæðurnar sem þá voru, 1969–1970. Enn liggja fyrir eftirfarandi staðreyndir. Á bls. 109 í grg. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Sé hins vegar litið á það, hver áhrif eru á framleiðslukostnað hverrar raforkueiningar, kemur í ljós að á árunum 1969–1975“ — þeim tíma sem liðinn er — „mundi viðbótarorkan kosta 62% meira ef álbræðsla væri ekki byggð, 22% meira á árunum 1976–1980, en 12% á árunum 1981–1985. Yfir allt tímabilið 1969–1985 mundi raforkukostnaður verða 28% hærri ef Búrfellsvirkjun væri eingöngu byggð fyrir almenningsnotkun og enginn sölusamningur verður við álbræðslu.“

Þá er enn á það að líta, að „í rafmagnssamningnum við álbræðsluna er samið um sölu raforku til langs tíma með þeim skilmálum að greiðsla komi fyrir orkuna hvort sem álbræðslan þarf á henni að halda eða ekki eða hvort sem álbræðslan notar hana eða ekki. Með löngum og föstum samningi er stefnt að því að tryggja tvennt sem íslendingum er mjög nauðsynlegt. Í fyrsta lagi dregur hinn langi og fasti samningur úr áhættu þeirri sem íslendingar taka á sig með því að leggja í svo stóra og fjárfreka framkvæmd sem Búrfellsvirkjun er og afla að miklu leyti fjár til hennar með lánum. Í öðru lagi er samningurinn þess eðlis, að hann greiðir stórlega fyrir lántökum til virkjunarinnar, en segja má að hið erlenda fyrirtæki, sem ábyrgist rafmagnssamninginn, taki að verulegu leyti á sig áhættuna af erlendu lánunum. Það er því raunverulega ekki verið að nota lánstraust íslenska ríkisins.“

Það er mjög mikilvægt að hér er ekki verið að nota lánstraust íslenska ríkisins, heldur slegið út á samninginn sem er ábyrgstur af erlendum aðila.

Í nál. minni hl., Vilborgar Harðardóttur, segir svo m. a. með leyfi hæstv. forseta:

„Þess vegna er öll raforkusala til Straumsvíkur og þar með einnig til fjórða áfanga“ — þ. e. a. s. þeirrar hugsanlegu stækkunar annars kerskála — „samanburðarhæf við forgangsorkusölu til málmblendiverksmiðjunnar. Samkv. gildandi samningi um málmblendiverksmiðju er forgangsorka seld á hér um bil 10 mill:“ Það er ekkert smáræði! Og raforkusölusamningurinn við ÍSAL og viðbótarsamningurinn, sem nú er verið að leggja til að samþ. verði, á að vera sambærilegur við þessa forgangsorku sem er 10 mill. Hvað er nú að athuga við slíkar villandi upplýsingar? Ég spyr. Í fskj. 1. með frv. til laga um járnblendiverksmiðjuna er skýrsla frá viðræðunefnd um orkufrekan iðnað. Hún er með þessari fyrstu yfirskrift: „Skýrsla til ríkisstj. um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, dags. 23. nóv. 1974.“ Þar segir á bls. 21 um raforkusölu eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Orkuverð fer hækkandi á samningstímanum. Fyrstu tvö árin verður það 9.5 bandarísk mill á hverja kwst. forgangsorku, 0.5 mill fyrir afgangsorku og 5 mill að meðaltali.“

Það segir sem sagt í sjálfu skjalinu um málmblendiverksmiðjuna, að meðalorkan sé 5 mill. Það kemur siðar fram í þessum kafla um raforkusöluna að forgangsorkan og afgangsorkan virðast vera nákvæmlega jafnar, því að heildarorkusala í meðalári er talin 488 gwst., en forgangsorkusalan helmingi minni, 244 gwst. Þar af leiðir að meðalorkuverðið verður fyrst í stað um 5 mill, en hækkar nokkuð þegar frá dregur. Þetta er nákvæmlega það sama og orkuverðið frá ÍSAL er núna með því gengi sem er á dollarnum. Hann er helmingi hærri en þegar samið var um 21/2 mill, en 3 mill þó fyrstu 6 árin. Þó að þetta orkuverð hækki lítillega, eins og ég sagði, nokkru síðar, þá er algjörlega fráleitt og villandi að tala um 10 mill orkuverð því að meðalverðið er ekki nema 5 mill. Ummæli þm. í nál. minni hl. eru algjörlega röng og villandi, þess vegna tekur engu tali þegar hún segir í lok nál. eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta: „Staðfestingu á þessu orkuverði“ — og á hún þá við álverksmiðjuna — „sem viðreisnarstjórnin samdi um og almennt er viðurkennt að sé hneykslanlega lágt, getur Alþ. ekki samþ. að dómi Alþb.“

Vegna þeirra straumhvarfa, sem orðið hafa í efnahagsmálum almennt, hefur nú verið gerður nýr samningur um raforkuverð við álbræðsluna sem m. a. fer yfir 5 mill. Þar að auki eru hagstæðir samningar um framleiðslugjald, en með þeim er útkljáð deila sem stóð um það mál. Skipting framleiðslugjaldsins hér innanlands er allt annað mál, og skal ég þess vegna ekki eyða tíma í það hér.

Talsmenn Alþb. hafa stöðugt haldið því fram, að álbræðslan í Straumsvik lyti ekki íslenskum lögum. Talsmaður minni hl. telur ákvæði þar um óviðunandi og þurfi Alþ. að koma í veg fyrir að þau standi óbreytt. Hér er einfaldast að vitna til ákvæða laganna sjálfra, þar sem segir um lög þau, er fara skal eftir, í 45. gr., en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Samning þennan“ — þ. e. a. s. aðalsamninginn og það á bara við um hann — „samning þennan ber að skýra, túlka og framkvæma samkv. ákvæðum hans, aðalsamningsins og hinna fskj., eftir því sem unnt er, og að öðru leyti fer um skýringu, túlkun og framkvæmd, gildi og áhrif samnings þessa að íslenskum lögum.“

Tvímælalausara getur þetta ekki verið. Ég sé að hv. frsm. minni hl. talar nú um íslenskt dómsvald, en Alþb.-menn fram að þessu hafa ævinlega verið að tala um að ekki væri farið að íslenskum lögum, og það er leiðrétting hjá henni. Hitt er rétt, að gerðardómur á að fjalla um deilur um aðalsamninginn ef til þess kemur. Hann er skipaður þrem aðilum, einum skipuðum af íslensku ríkisstj., einum af Alusuisse og einum af alþjóðlegum gerðardómstóli Sameinuðu þjóðanna. En þessum gerðardómi eru lögð þau fyrirmæli að fara að íslenskum lögum. Um önnur atriði, sem ÍSAL kynni að lenda í, t. d. vegna skaðabóta sem yrðu vegna farartækja eða verkfæra í Straumsvík eða brot á umferðarreglum eða eitthvað því um líkt fer nákvæmlega að íslenskum lögum og dæmt af íslenskum dómstólum, en alls engum gerðardómi. Það er aðeins ágreiningur um aðalsamninginn sem gerðardómur á að dæma um, en að íslenskum lögum. Allt hefur þetta verið misskilið, rangtúlkað og sagt um það af sumum ósatt, en það er reyndar jafnoft búið að leiðrétta þessar villur allar saman.

Nú hefur ÍSAL tvö síðustu árin þurft að draga úr framleiðslu sinni vegna þess að markaður fyrir ál hefur minnkað, en þó hefur ÍSAL dregið miklu minna úr framleiðslu sinni en langflestar aðrar álbræðslur Alusuisse. Árið 1975 varð ÍSAL að greiða fyrir 22.5 gwst. 67500 dollara þótt hún gæti ekki hagnýtt þær vegna samdráttar, og 1976 eða þetta ár er áætlað að ÍSAL þurfi að greiða fyrir 50 gwst., án þess að geta notað þær, sem kosta 221 þús. dollara. Þetta er samtals 81.5 gwst. sem kosta 288500 dollara eða 49 millj. ísl. kr. ÍSAL þarf þannig, eins og nú standa sakir, að greiða 50 millj. ísl. kr. fyrir raforku sem fyrirtækið ekki hefur not fyrir. Af þessu sést hversu mikla hagsmuni ÍSAL hefur af því að ekki eða sem allra minnst dragi úr framleiðslu þess hérlendis, enda þó álmarkaðurinn sé mjög takmarkaður.

Þessi viðaukasamningur, sem hér liggur fyrir og hér er til umr. og lagt er til að lögfestur verði, er til mikilla bóta og ber vott um, gott samkomuleg beggja aðilanna, Alusuisse og íslensku ríkisstj , þó að lengi hafi verið unnið að því að koma þessum endurbótum á eftir þau miklu straumhvörf sem orðið hafa í efnahagslífi bæði okkar og hins vestræna heims og þó að lengra væri leitað. Það má kannske segja, að það hafi verið yfirsjón af okkur, sem gerðum þennan samning við ÍSAL, sem var fyrstur sinnar gerðar, að hafa ekki einhver ákveðin tímamörk, hvenær skuli endurskoða raforkuverðið. En þegar slík straumhvörf verða í orkuframleiðslu eins og nú hafa orðið um allan heim, þá virðist ósköp auðvelt að ná samkomulagi sem bæði hækkar raforkuverðið og framleiðsluverðið, þ. e. a. s. skattinn. Og þannig mun einnig verða í framtíðinni.