16.02.1976
Neðri deild: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

113. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Hv. 2. þm. Austf. hefur talað alllangt mál og telur að illa hafi verið staðið að endurskoðun samninganna. Hann komst að þeirri niðurstöðu að rafmagnsverðið hafi raunverulega ekkert hækkað. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmenn hafi tekið eftir þessu og hver fyrir sig leiti nú í huga sér hvað maðurinn hafi raunverulega verið að fara. Hvar var hann? Var hann staddur í ræðustóli í hv. Alþingi íslendinga þegar hann sagði þessi orð? Og við hvað studdist hann?

Ég kem að því seinna, leitast við að finna það út hvernig hv. þm. hefur komist að þessari niðurstöðu.

Hv. 3. þm. Reykv., frsm. minni hl., talaði fyrir nál. sínu s. l. fimmtudag, og niðurstaða hv. þm var nokkuð á svipaða lund og hv. 2. þm. Austurl. Það var fátt um góða drætti, eins og þar stendur, í þessu nýja samningsuppkasti að áliti hv. frsm. Hv. þm. byrjaði á því að finna að því að frv. hefði ekki verið rætt ítarlega í iðnn. þessarar hv. d. Það voru þrír fundir og sex nm. af 7 vildu samþykkja frv. eftir þá athugun sem það hafði fengið í n., en einn, hv. 3. þm. Reykv., var vandlátari og vildi nánari athugun, en komst þó að þeirri niðurstöðu, enda þótt athugun hafi ekki verið lokið að hans áliti, að það væri best að vera á móti frv., það væri ekki til neins hagræðis fyrir íslensku þjóðina að fá þessa breytingu á samningunum. Þess vegna var hv. frsm. minni hl. á móti frv. og fékk nú í dag stuðning hv. 2. þm. Austurl. Það var e. t. v. eðlilegt að hv. þm. vildi vera góður stuðningsmaður, úr því að hann tók það að sér, væri ekki að verja það að þessar till., sem hér liggja fyrir, væru til bóta. En á þeim þremur fundum, sem voru haldnir í n., komu ýmsir ágætir menn til viðtals og svöruðu spurningum sem bornar voru fram.

Hv. frsm. minni hl., 3. þm. Reykv., taldi í framsöguræðu sinni að mörgum spurningum væri ósvarað. Hv. þm. kom með spurningalista. Spurningarnar voru milli 20 og 30 sem þm. lagði fram í n. Öllum þessum spurningum var svarað, það liggja fyrir skrifleg svör við þeim öllum. Þess vegna undrast ég að hv. þm. skuli segja að spurningunum sé ósvarað. Ég tel ekki ástæðu til að fara að lesa spurningarnar upp og svörin við þeim. Ég vona að hv. 3. þm. Reykv. geri það í annarri ræðu sinni, eftir að hafa gert sér grein fyrir að það var ekki rétt, sem sagt var í fyrstu ræðunni.

Hv. þm. minntist á Hafnarfjörð í þessu sambandi og hv. 2. þm. Austurl. gerði það reyndar líka: Á nú að fara eitthvað illa með Hafnarfjörð? Hvernig stóð á því að ekki var fulltrúi frá Hafnarfjarðarkaupstað þegar samið var við Alusuisse? Ég verð að segja hv. þm. að það kemur ekki samningunum við Alusuisse við hvernig skattgjaldinu er skipt á milli innlendra aðila. Það er nú verið að ræða við bæjarstjórn Hafnarfjarðar um þessi mál, og það er alveg áreiðanlegt að það dettur engum í hug að gera hlut Hafnarfjarðarkaupstaðar verri eftir að þessar brtt. verða samþ., ef það verður, heldur en áður var. Þess vegna er undir forustu hæstv. iðnrh. verið að leita eftir samkomulagi við Hafnarfjörð um skiptingu skattgjaldsins á þeim grundvelli að Hafnarfjarðarkaupstaður beri svipað úr býtum á eftir eins og áður. Og auðvitað verður flutt frv. hér á Alþ. til breytinga á þeim lögum sem ákvarða skattgjaldið. En það kemur samningum við Alusuisse ekkert við hvernig hér innanlands er farið með skattgjaldið. Þess vegna á það ekki heima í umr. um þetta og engin ástæða til að ætla annað en það náist fullt samkomulag við Hafnarfjarðarkaupstað, þar sem til samninganna er gengið með því hugarfari að finna það eðlilega og rétta út þegar skipting er ákveðin að nýju.

Hv. frsm. minni hl. minntist á Náttúruverndarráð. Mér skildist að ekkert samband hefði verið haft við það. En það voru formaður Náttúruverndarráðs og framkvæmdastjóri sem komu á fund iðnn. þegar þessi mál voru rædd, og það var enginn ágreiningur á milli nm. eða formanns Náttúruverndarráðs og framkvstj. um afstöðuna í þessum málum. Voru allir, sem á fundinum voru, sammála um að gera ætti fyllstu kröfur til þess að útiloka mengun í verksmiðjunni. Hér talaði hv. 2. þm. Austurl. um að hingað til hefðu ekkert verið nema loforð á loforð ofan frá hendi verksmiðjustjórnarinnar og enn ætti að byggja á loforðum.

Ég vek athygli á bréfi sem fyrir liggur og prentað er með nál. meiri hl., undirskrifað af formanni og framkvstj. ÍSALs, þar sem saga þessara mála er rakin, og þeir, sem lesa þetta bréf, gera sér grein fyrir því, hvers vegna hefur dregist að setja upp hreinsitækin. Það dróst einnig á meðan flokksmaður hv. 2. þm. Austurl. fór með þessi mál sem iðnrh. og ætla ég ekki að álasa honum fyrir það, vegna þess að hann var sömu skoðunar og ég held allir þm. á þeim tíma, að það bæri að athuga til hlítar hvort hægt væri að nota innlend hreinsitæki, sem verið var að reyna og vinna að. En það var ekki fyrr en haustið 1974 sem sýndist vera útilokað að nota þessi tæki. Drátturinn til ársloka 1974 ætti að vera eðlilegur að mati hv. 3. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Austurl.

En hvað hefur gerst síðan? Síðan í árslok 1974, að innlendu tækin reyndust óhæf í þessu skyni, hefur verið unnið að rannsóknum og tilraunum í álverinu með ný hreinsitæki, svokölluð þurrhreinsitæki, sem eru það fullkomnasta sem nú er fáanlegt í þessu skyni. Þau hreinsa loftið inni í verksmiðjunni, sem önnur og eldri tæki hefðu ekki getað gert. Ég bið hv. 2. þm. Austurl. og hv. 3. þm. Reykv. að gera svo vel að lesa bréfið sem er prentað með nál. meiri hl. með ómenguðu hugarfari og heilbrigðri dómgreind. Þá sjá þessir hv. þm. að það hefur verið vel að staðið á árinu 1975 og því sem liðið er af þessu ári í þessu máli.

Það er verið að setja upp hreinsitæki í verksmiðjunni og unnið að því að fullkomnustu hreinsitæki komi þar. Hvað viðbótina snertir, þá er loforð um það, að um leið og stækkunin fer fram skuli í upphafi gert ráð fyrir fullkomnustu hreinsitækjum. Það liggur alveg ljóst fyrir að heilbrmrn. hefur í hendi sér að leyfa ekki framleiðslu í nýju verksmiðjunni, stækkuninni, nema settum reglum og skilyrðum verði fullnægt. Þess vegna er þessi ótti sem betur fer ástæðulaus, — sá ótti sem hv. 2. þm. Austurl. og hv. 3. þm. Reykv. virðast bera í brjósti vegna mengunarhættu og aðgerðarleysis í sambandi við uppsetningu hreinsitækja verksmiðjunni. (Gripið fram í: Veit þm., hve háir reikningar hafa borist vegna skemmda af mengun?) Það liggja fyrir einhver bréf um að það sé hætta á mengun, en ekki um það, hvað hefur skemmst, vegna þess að það er víst ekki svo mikið.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði um rekstur álversins og það væri einhver grímudansleikur í kringum það, að mér skildist á hv. þm. En þó var það svo, að á árinu 1973 óskaði þáv. iðnrh., Magnús Kjartansson, eftir endurskoðun á rekstri fyrirtækisins. Ekki ætla ég að finna að því. Ég tel alveg sjálfsagt að sannfæra sig um það, hvernig reksturinn er og rekstrarútkoman, þar sem greiðslur til íslenska ríkisins fara eftir því að nokkru leyti hvernig rekstrarútkoman er. Það er endurskoðunarfyrirtæki á alþjóðlegan mælikvarða, hlutlaust, sem vann að þessari endurskoðun. Þá kom það fram, sem hv. 3. þm. Reykv. reyndar sagði, að það hefði ekkert fundist athugavert við reikninga fyrirtækisins á árinu 1973. Ég hef aldrei heyrt jafnmikið lof um fyrirtækið úr munni hv. Alþb.-manna eins og þetta. Það var ekkert að athuga við reikningana eftir að alþjóðlegt endurskoðunarfyrirtæki í London hafði yfirfarið þá. Þeir eru heppnir sem geta fengið svona kvittanir fyrir góða frammistöðu.

Reikningar ársins 1974 fóru í endurskoðun hjá sama fyrirtæki. Þá var uppi grunur um að súrálsverðið hefði verið reiknað ÍSAL á of háu verði, og það hefði vitanlega getað haft úrslitaáhrif á það, hvernig rekstrarútkoman yrði, ef hráefnið væri keypt á of háu verði. Þetta var rannsakað, og hv. 3. þm. Reykv. sagði að það væri alveg sjálfsagt að þessi endurskoðunarskýrsla væri birt og þm. fengju að sjá hana. Ég tel alveg víst að þetta sé ekkert leyniplagg og þeir, sem vilja kynna sér það, geti það. En það var minna athugavert að áliti endurskoðunarfyrirtækisins heldur en búist hafði verið við. Þó tel ég líklegt að það hafi hjálpað til að þrýsta niður hinni svonefndu skattinneign sem endanlega var samið um. En það er ekki stór upphæð sem var um að ræða, því að þegar súrálsverðið, sem reiknað var álverinu í Straumsvík, var borið saman við heimsmarkaðsverð, þá var það ósköp svipað.

Þá var það hin svokallaða skattinneign og skattgreiðslur sem hafa verið gerðar hér að umtalsefni. Hv. 3. þm. Reykv. komst að þeirri niðurstöðu að skattinneignin væri hærri en sú upphæð sem fyrirtækið hefði greitt í skatt á þessum 6 árum, hv. 2. þm. Austurl. staðfesti þetta, og þarf þá nokkuð meira við. Það eru tveir hv. þm. Alþb. sem hafa komist að sömu niðurstöðu: Skattinneignin er hærri en skattgjaldið sem álverið hefur greitt til íslendinga á þessum 6 árum. — En hvernig komast þeir að þessu, þessir hv. þm., að fá þessa útkomu? Jú, þannig að þeir reikna skattinneignina á því gengi sem nú er á dollar, en skattgreiðslurnar reikna þeir á því gengi sem var hverju sinni þegar skatturinn var greiddur. Fyrstu árin var gengi dollars eitthvað um 80 kr., en nú er gengi dollarans 170 kr. Ætli það sé nokkur hér sem segi að þetta sé góður og heiðarlegur málflutningur? (LJós: Sagði ég ekki frá þessu svona?) Nei, nei, nei, nei. Útkoman úr dæminu varð öfug vegna þess að svona var reiknað. (LJós: Þá hefur þm. ekki skilið mitt mál.) Ég held að það hafi enginn skilið þetta öðruvísi en ég geri, en fróðlegt væri að vita hvort lesendur Þjóðviljans gera sig ánægða með þetta — eða er því treyst að meiri hluti lesendanna átti sig ekki á því hvernig þetta er fundið út?

Það er rétt að geta þess, að framleiðslugjaldið nam 1 milljarði 60.1 milljón kr. þegar miðað er við gengi dollars eins og það var 1. okt. s. l. og skattinneignin á sama tíma með sama gengi 704 millj. Þarna munar 256.1 millj. kr. sem skattgreiðslan er hærri en hin svokallaða skattinneign. Það má segja að framleiðslugjaldið sé ekki nema lítill hluti af þeim greiðslum sem álverksmiðjan greiðir til íslendinga. Til 1. okt. s. l. var framleiðslugjaldið ekki nema 12.5 tollarar á tonn. Þess vegna voru framleiðslugjaldsgreiðslurnar ekki ýkjaháar fyrstu 6 árin. En 1. okt. s. l. hækkaði gjaldið í 20 dollara og verður þá framleiðslugjaldið allmiklu hærra en það var. Það hækkaði í 20 dollara, hvort sem gamli samningurinn verður í gildi áfram eða nýju till. taka gildi. Með nýju till. er lágmarksgjaldið 20 dollarar, en hækkar svo eftir álverði eins og sjá má í frv.

Það er vitað mál að gjaldeyristekjur af álverinu hafa verið mjög miklar á þeim 6 árum sem liðin eru. Sé reiknað aðeins til 1. okt. s. l. eru gjaldeyristekjurnar 12 495.7 millj. kr. miðað við gengi dollars eins og það var á þessum tíma. En þá er rétt að draga skattinneignina frá, sem verður samkv. mínum útreikningi nokkru hærri en sú upphæð sem hv. 2. þm. Austurl. nefndi. Samkv. mínum útreikningi er skattinneignin 704 millj. með gengi dollars á þessum tíma, en greiðslur álversins til íslendinga að frádreginni skattinneign til 1. okt. s. l. eru 11 791.7 millj. kr. eða nærri 2000 millj. kr. á ári á 6 árum, sé miðað við það gengi dollars sem ég nefndi. Til þess að fá réttan samanburð í tölum verður að reikna gengi erlendrar myntar út og miða það við sama tíma. Annars fæst ekki samanburður sem hægt er að átta sig á. Þegar þetta er nú athugað, þá held ég að flestir geti verið sammála um að íslenska þjóðin hefur hagnast mikið á álverinu. Álverið notar um það bil 2/3 af þeirri orku sem fæst frá virkjuninni við Búrfell, en borgar 3/4 af kostnaðinum og stendur undir öllum þeim lánum, sem tekin voru erlendis til að byggja þetta orkuver, á 25 árum. Nú er talið nokkurn veginn öruggt að vatnsvirkjanir endist í 70–80 ár. Það verður ekki heldur rengt, að ef ekki hefði verið byggt þetta álver í einum áfanga, þá hefði orkan til almenningsnota í landinu orðið um 70% dýrari en hún varð. Ég hef hér þá töflu, sem hv. 6. þm. Reykv. las upp áðan yfir kostnaðinn á hverri kwst. frá Búrfellsvirkjun án þess að selja til ÍSALs og með því að selja til ÍSALs. Ég tel að sú skýrsla sanni kannske best að þær fullyrðingar, sem hér hafa verið í frammi hafðar um að rafmagnið hafi verið selt undir kostnaðarverði, séu staðleysa ein.

Hæstv. forseti. Ég er ekki nærri búinn með mína ræðu. En ég vil biðja hæstv. forseta afsökunar á því, hafi hann ætlað að halda fundinum eitthvað lengur áfram, að ég hef lofað mér á fund annars staðar af því að ég reiknaði með að fundi yrði slitið kl. 4. Ég vildi þess vegna mælast til að mega gera hlé á ræðu minni nú svo að ég geti farið. (Forseti: Hv. 1. þm. Suðurl. á það í sjálfsvaldi að gera hlé á ræðu sinni nú og vera fyrstur á mælendaskrá þegar þetta mál verður tekið fyrir á öðrum fundi. En hér er á mælendaskrá annar hv. þm., sem kveðst vera með stutta aths., og hafi hv. 1. þm. Suðurl. ekki neitt við það að athuga, þá mundi ég hleypa honum að núna.)