17.02.1976
Sameinað þing: 51. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1922 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

136. mál, símaþjónusta

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja fsp. til hæstv. samgrh. Er fyrirspurnin í fjórum líðum og hljóðar fyrsti liðurinn þannig, með leyfi forseta:

„1. Hvernig verður símaþjónustu í strjálbýlinu háttað við áframhaldandi dreifingu sjálfvirka kerfisins?“

Um símaþjónustuna í strjálbýlinu spunnust talsverðar umr. s.l. þriðjudag, en þó var lítt komið inn á þann þátt málsins sem ég hef sérstaklega haft í huga. Menn deildu þá eins og svo oft áður um það, hve langt bæri að ganga í því að jafna kostnað við langlínusamtöl. Sumum sýndist að sanngjarnt væri að sama gjald væri greitt hvort sem menn hringdu frá Reykjavík til Seyðisfjarðar eða til Hveragerðis, og sumir ganga jafnvel svo langt að telja eðlilegt að gjaldið yrði eitt og hið sama hvort sem hringt væri milli húsa eða þvert yfir landið. Vera má að við íslendingar verðum einhvern tíma svo efnaðir að þessi sjónarmið nái fram að ganga. En þótt ég sé þm. strjálbýliskjördæmis og leitist að sjálfsögðu við að gæta hagsmuna þess kemur mér ekki til hugar að i nánustu framtíð verði unnt að koma slíkum jöfnuði við né að það væri þjóðhagslega æskilegt, jafnmörg verkefni og úrlausnar bíða og jafnerfiður og fjárhagurinn er.

Auðvitað segir sig sjálft, að það mundi kosta gífurlega fjármuni að efla svo símakerfið að menn gætu með því að greiða eitt skref, sem svo er nefnt, hringt hvert á land sem er og talað ótakmarkaðan tíma. Álag á Landssímann mundi margfaldast og allt fara úr böndum.

Sannast sagna finnst mér heldur hvimleiðar deilur sem einstakir hv. þm. alltaf öðru hverju halda hér uppi, þar sem einstrengingslegustu sjónarmið rekast á. Annars vegar er því haldið fram, að allt sé i dýrðinni í Reykjavík og reykvíkingar geti risið undir þessum byrðum eða hinum, og svo á hinn bóginn, að reykvíkingar séu einhver kúgaður minni hl. á þingi og umboðsmenn strjálbýlis leitist við að troða af þeim skóinn. Mér finnst satt að segja þeir þm., sem þannig tala sí og æ, síst bæta hag þeirra sem þeir eiga að vera umbjóðendur fyrir, heldur miklu fremur skaða hann. Við erum, sem betur fer, ein og óaðskiljanleg þjóð og eigum að taka heilbrigt tillit hver til annars, hvar sem menn eru búsettir. Og ég get sagt það eins og það er, að það hefur aldrei komið fyrir að ég hafi getað komið fram neinu hagsmunamáli fyrir mitt kjördæmi með því að reyna í leiðinni að klekkja á reykvíkingum, enda hef ég til þess enga löngun. Satt best að segja gengur stundum betur að fá þm. Reykjavíkur til stuðnings við margháttuð hagsmunamál úti um land en suma sem horfa aðeins á næsta nágrenni sitt. En nóg um þetta.

Eins og menn vita hefur sjálfvirk símaþjónusta hafið innreið sína í sveitum landsins, en því miður virðist enn ekki hafa verið ákveðið hvernig þeirri þjónustu verði hagað, fyrst og fremst að því er gjaldtöku varðar. Þannig hefur það t.d. gerst í Skagafirði að einn hreppur, Staðarhreppur, hefur verið klofinn í sundur og menn geta ekki lengur hringt milli bæja án þess að um langlínusímtöl sé að ræða. Hið sama hefur gerst í Hrútafirði. Það fólk, sem fyrir þessu hefur orðið, unir því að vonum illa og þess vegna tek ég málið hér upp. Ég vil vekja athygli á því, að bæði íbúar Staðarhrepps í Skagafirði og Staðarhrepps i Vestur-Húnavatnssýslu hafa sent póst- og símamálastjórn áskorun um að breyta þessu, en ég skal ekki víkja frekar að því vegna stutts tíma.

Hvað sem ágreiningi um gjaldtöku vegna langlínusamtala kann að líða vona ég að menn geti verið um það sammála, að óviðunandi sé að hreppar séu klofnir í sundur með þessum hætti og fólk geti ekki talað á milli næstu bæja, alveg eins og það getur talað á milli húsa í Reykjavík fyrir eitt skref svonefnt. Við þetta fyrirkomulag verður með engu móti unað og þess vegna er nauðsynlegt að skipuleggja þessi mál frá upphafi þannig að sanngjarnt og eðlilegt sé.

Ég vil leyfa mér að gera það að till. minni, að í meginatriðum verði símaþjónustunni þannig háttað að menn geti talað innan hvers héraðs um sig án þess að um langlínusamtöl sé að ræða, alveg á sama hátt og menn geta í Stór-Reykjavík hringt hvert sem er fyrir eitt skref. Sumir hafa bent á að eðlilegt væri að menn gætu, án þess að um langlínusamtöl væri að ræða, talað innan hvers núverandi símasvæðis, en ég geri ekki kröfu um að svo langt verði gengið i fyrsta áfanga. Mér finnst eðlilegt að menn greiði eitthvað hærra fyrir að hringja á milli héraða en þeir þurfa að greiða innanbæjar eða innan eigin héraðs, þótt síðar verði sjálfsagt um meiri jöfnun símgjalda að ræða eftir því sem okkur vex fiskur um hrygg.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta atriði. Ég tel að hér sé um svo augljóst réttlætismál að ræða, að því er hreppana varðar innbyrðis a.m.k., að útilokað sé annað en að úr verði bætt og það hið bráðasta. Vænti ég þess, að hæstv. samgrh. sé mér sammála í þessu efni og þess vegna verði sú stefna mörkuð í símamálum sem ég hér hef bent á eða eitthvað i þá áttina.

„2. Hvenær verður neyðarþjónustu síma komið á í Skagafirði?“

Eftir að fyrirspurn þessi kom fram hefur ötullega verið unnið að því að koma upp neyðarþjónustu fyrir síma í Skagafirði og er hún þegar komin til framkvæmda, þannig að símstöðin er nú opin allan sólarhringinn. Ég leyfi mér að þakka hæstv. samgrh. sérstaklega fyrir forustu í því efni, enda var þar um brýna nauðsyn að r æða.

„3. Hvenær má gera ráð fyrir stækkun sjálfvirku stöðvanna á Siglufirði og Sauðárkróki?“

Bæði á Siglufirði og Sauðárkróki eru sjálfvirku stöðvarnar fyrir allnokkru fullnýttar og langur biðlisti eftir símum. Mér er fullljóst að við erfiðleika er að kljást í efnahags- og fjármálum og viðar er þörf á þessu sviði en á þeim tveimur stöðum sem ég nefndi. Engu að síður væri æskilegt að unnt reyndist að gefa upplýsingar um það, hvenær úrbóta megi vænta, því að vissulega bíður fólkið eftir að fá úr því skorið.

„4. Hvenær má vænta úrbóta hlustunarskilyrða útvarps í Skagafirði?“

Í Skagafirði eru hlustunarskilyrði útvarps oft afleit. Skilyrðin til að hlusta á langbylgju er mjög slæm, en sett hefur verið upp svonefnd FM-þjónusta, sem er á fjölsíma annaðhvort á milli Akureyrar og Varmahlíðar eða Reykjavíkur og Varmahlíðar. En á þessari þjónustu er því miður tvíþættur ágalli. Bæði er um að ræða truflanir á línusendingunni sjálfri og eins er þess að geta, að ekki er um að ræða fullt hljómsvið. Að vonum una skagfirðingar þessu illa og þess vegna er að því spurt, hvenær úrbóta megi vænta.