17.02.1976
Sameinað þing: 51. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

136. mál, símaþjónusta

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 296 er fsp. frá hv. 4. þm. Norðurl. v. sem ég mun nú svara.

Út af fyrsta atriðinu vil ég segja það, að það verður leitast við að koma sjálfvirkri símaþjónustu út í strjálbýlið eftir því sem fjárhagur stofnunarinnar leyfir. Ég vil til viðbótar þessu segja það, að ég lét það koma fram í því, sem ég sagði hér í umr. um daginn um hliðstætt mál, að ég teldi að ekki mætti ganga það langt í að jafna kostnað að menn gleymdu þeim sem eftir væru að fá bót á sínu símakerfi, og ég tel það jafnbrýnt og ekki síður en að jafna kostnaðinn, þó að það þurfi að gera. Ég mun því hafa það hugfast að reyna að vinna að framkvæmd á sviði þessara mála eins og nokkur kostur er fjárhagsins vegna, en því miður verður að fara þar hægar en ég hefði kosið.

Í öðru lagi út af því, sem hv. þm. spurði um stöðvarnar í Hrútafirði og Skagafirði, þar sem innansveitar er um að ræða tengingu við sitt hvora stöðina, vil ég geta þess, að fyrir jól í vetur ræddi hv. 3. þm. Norðurl. v. þetta mál við mig út af hrútfirðingum og ég ræddi við póst- og símamálastjóra um að gera þar bætur á, en frá tæknilegu sjónarmiði voru talin ýmis vandkvæði á að breyta þessu á milli stöðva eins og þarna væri um að ræða. Hins vegar er nú verið að vinna að því að finna skynsamlega leið til þess að leysa þetta. Og þá vil ég endurtaka það, sem ég tók einnig fram um daginn, að ég taldi að það bæri þó fyrst að reyna að jafna inni í svæðunum sjálfum, það væri fyrsta atriðið, og í annarri röð kæmi svo að jafna á milli svæða og þá náttúrlega fyrst og fremst þar sem um er að ræða, eins og í þessum tilfellum, að það er innansveitar sem þar er verið að fást við.

Út af því, sem spurt er um í 2. lið þessarar fsp., um neyðarþjónustuna, þá er hún komin nú bæði á Sauðárkróki og Húsavík. Verið er að koma henni í framkvæmd á Patreksfirði og Kirkjubæjarklaustri, og ef hún er ekki komin á Patreksfirði verður það alveg næstu daga, og ég vona að einnig verði stutt í það með Kirkjubæjarklaustur. Þetta varð að minni hyggju lengur á leiðinni en ég hafði til ætlast. En nú er þetta þó komið og verður haldið áfram að taka fyrir viss svæði með þessum hætti. Minnir mig að Blönduós sé ein af þeim stöðvum sem eigi að taka næst, það átti að taka aðrar fjórar með tilliti til þess sem póst- og símamálastjórnin taldi heppilegast og eðlilegast að gera í þessu sambandi.

Út af sjálfvirku stöðvunum og stækkun þeirra á Sauðárkróki og Siglufirði er það að segja, að fjárhagsins vegna hefur ekki verið gengið frá pöntun á efni enn þá í þessar stöðvar. Eru um 20 stöðvar sem þarf að stækka hliðstætt og þessar. Það er nú verið að gera áætlun um fjárhag símans og greiðslugetu á yfirstandandi ári og verða í sambandi við það teknar ákvarðanir um þær stöðvar sem bægt verður að stækka, en því miður er mjög lítið fé til þeirra hluta á þeim fjárlögum sem nú gilda. En það er ábyggilegt, að öllum er ljóst að þessu þarf að halda áfram og að því verður unnið.

Út af 4. lið fsp., um hlustunarskilyrði útvarps í Skagafirði, þá er því til að svara að þetta er ekki mál símans. Ríkisútvarpið er stofnun sem heyrir undir menntmrh., og enda þótt Landssíminn hafi tekið að sér framkvæmdir fyrir Ríkisútvarpið er aðeins um eins konar verktakastarfsemi að ræða, en ákvarðanir um hvað gera eigi og hvenær eru á valdi verkkaupans og hljóta m.a. að velta á því hvenær Ríkisútvarpið telur sér fjárhagslega kleift að ráðast í þær endurbætur. Það er ekkert á valdi Landssímans nema að framkvæma það, sem beðið er um, og innheimta þegar búið er að vinna verkið, sem hefur gengið, eins og innheimta gerist almennt, með ýmsum hætti, en hefur þó skilað sér.

Þá held ég að ég hafi svarað þessum spurningum.