17.02.1976
Sameinað þing: 51. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

136. mál, símaþjónusta

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. samgrh. fyrir svör þau sem hann hefur gefið.

Ég var að vísu ekki alveg fyllilega ánægður með svörin varðandi símaþjónustuna í Staðarhreppi í Hrútafirði annars vegar og Staðarhreppi í Skagafirði hins vegar. Ég held að það sé svo augljóst mál, að það sé ekki hægt að hafa langlínusamtöl á milli bæja innan hreppa, að því máli verði að kippa í liðinn. Ef ekki er hægt að hafa tengingar beint í gegnum stöðvar, og ég er enginn kunnáttumaður á því sviði, eða tæknimaður að neinu leyti, þá hlýtur þó að vera hægt að hafa gjaldtökuna með þeim hætti að menn borgi ekki langlínusamtöl á milli næstu bæja innan sama hrepps. Ég vona, að þessu máli verði kippt í lið, og treysti því raunar og veit að það hlýtur að verða, vegna þess að þetta er svo fullkomið ranglætismál að það getur enginn maður stutt það, hvorki sá sem í dreifbýli né hinn sem í þéttbýli býr. Það veit ég að allir eru sammála um, jafnt reykvíkingar og sveitamenn, að þeir vilji, jafnvel þótt einhver kostnaður sé því samfara, kippa slíku óréttlæti í liðinn.

Að því er varðar svar við síðustu fyrirspurninni, um útvarpssendingarnar, þá er það að vísu laukrétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að síminn sér aðeins um framkvæmd þessara mála. Ég taldi engu að síður rétt að hafa þá fyrirspurn með hinum þremur til þess að ýta á það mál, vegna þess að það er auðvitað óviðunandi að nú á öld sjónvarps skuli ekki einu sinni vera hægt sæmilega að ná í útvarp í einu byggðarlagi. Ég veit raunar að hæstv. samgrh. mun koma því á framfæri við kollega sinn í ríkisstj., að þarna sé úrbóta þörf.