17.02.1976
Sameinað þing: 51. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

136. mál, símaþjónusta

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Þegar ég áðan vék örfáum orðum að því, að ég teldi óæskilegt að verið væri að ala á úlfúð á milli reykvíkinga annars vegar og dreifbýlisbúa hins vegar og að þeir, sem það gerðu, sköðuðu venjulega málstað þeirra sem þeir ætluðu að vinna fyrir, þá nefndi ég ekki hv. 5. þm. Vestf. á nafn. Hitt kann að vera, að það hafi verið fyllsta ástæða til þess að einmitt hann bæri blak af þessum málflutningi. Ég tel hann ekki vera til sóma og ekki heldur til gagns fyrir dreifbýlið — og endurtek það.

Ég vona að þessi hv. þm. skilji það fyrr en síðar, að það er ekki til góðs að reyna að æsa reykvíkinga upp á móti landsbyggðinni með, — ja, mér liggur við að segja, ef ég verð ekki víttur úr forsetastól, með kjafthætti. Það er ekki til góðs að vera sífellt að klifa á því, að reykvíkingar eigi að gera þetta og eigi að gera hitt. Þegar ég hef þurft að sækja hagsmunamál míns kjördæmis undir reykvíkinga hafa þeir undantekningarlaust tekið því vel. Við skulum gæta þess, að allir þm. Reykv. samþykktu að 2% af heildarupphæð fjárlaga rynni í Byggðasjóð. Við skulum ekki halda þannig á málum, að fólkið hér snúist gegn þessari stefnu sem það stóð með okkur að því að marka.

Ég talaði ekki um hörku þm., ég er ekkert á móti því að menn séu harðir, ég talaði um einstrengingshátt. En úr því að ég nefndi hörku, þá hygg ég að rétt væri fyrir bæði þennan þm. og suma aðra að hugleiða það, að hörkunni mega gjarnan fylgja svolítil hyggindi. Og að lokum að því er varðar hv. síðasta ræðumann, ég öfunda 5. þm. Vestf. ekkert af því að hann skyldi taka undir með honum.