17.02.1976
Sameinað þing: 51. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1933 í B-deild Alþingistíðinda. (1611)

136. mál, símaþjónusta

Páll Pétursson:

Herra forseli. Það er náttúrulega gott að taka sér stund í það aftur að rabba um símann, úr því að við höfum ekki nóg til að tala um, við þurfum ekki að eyða honum í að tala um landhelgismál eða um vinnudeilur, hvað þá efnahagsmálin á breiðum grundvelli.

Ég vil hins vegar láta það í ljós, að ég er engan veginn sammála fyrirspyrjanda um að það sé þjóðhagslega óæskilegt að jafna símgjöldin. Mér finnst að það sé þjóðhagslega æskilegt markmið. Hitt er annað mál, að við verðum náttúrlega að taka tillit til kringumstæðna, hvað mikið fjármagn við höfum tiltækt á hverjum tíma til þess að stefna að þessu markmiði. En að því markmiði tel ég að við verðum að stefna. Og ég er þeirrar skoðunar, að það sé þjóðhagslega óæskilegt og það sé mjög óeðlilegt að dreifbýlið sé látið greiða niður símann í Reykjavík, og þarf ekki að koma til nein hreppapólitík eða togstreita milli dreifbýlis og þéttbýlis. Þetta er kannske ekki reykvíkingum að kenna, þetta er vegna þess að Reykjavíkursíminn er í vísitölunni, símakostnaður fjölskyldu í Reykjavík, hann er í vísitölunni, en ekki símakostnaður fjölskyldu sem býr úti á landi. Þess vegna gætir þeirrar tilhneigingar að halda niðri símakostnaðinum hér í Reykjavík.

Einstakir ræðumenn hafa drepið hér á mörg athyglisverð atriði. Stefán Jónsson og Ingólfur Jónsson, hv. þm., deildu um, hvort að nýskipan símamála hefði tekist svo vel sem vonir stóðu til. Vissulega hafa annmarkar fylgt henni og vaktin hefur verið lögð niður á mörgum símstöðvum og afgreiðslutími handvirkrar afgreiðslu hefur verið styttur jafnframt því að sjálfvirki síminn hefur tekið til starfa á einhverjum hluta af því kerfi. Ég vil hins vegar ekki blanda mér í það, hvort hv. 4. þm. Norðurl. v. tekst að þjóna hér tveim herrum, þ.e.a.s. kjósendum í Norðurlandskjördæmi vestra og reykvíkingum, en allt um það, þá er þetta landsföðurlegur tónn sem hann hafði hér í ræðustólnum áðan og ég kann að vissu leyti vel við hann.