17.02.1976
Sameinað þing: 51. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1940 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

104. mál, starfsemi IBM hér á landi

Fyrirspyrjandi (Vilborg Harðardóttir):

Herra forseti. Eins og kemur fram í máli hæstv. ráðh. eru ýmsar mismunandi upplýsingar hér á kreiki, virðist vera — og sýnir það ekki einmitt hversu lítið er vitað í rann um þessi mál? En ég vil gera þá aths. í sambandi við eftirlit gjaldeyrisyfirvalda með markaðsverðmætinu, að ég efast stórlega um að þau geti vitað hvert markaðsverðið er í raun. Hér er um að ræða bókhald innan sama fyrirtækis, innan sama auðhrings, og það er ákaflega auðvelt að hagræða slíku bókhaldi, eins og hefur sést hjá öðrum samsvarandi hringum. Og í sambandi við leigu eða kaup vil ég ítreka það, eiginlega skora á hæstv. ráðh. að láta fara fram hagkvæmniskoðun á þessum hlutum. Þetta skiptir ekki litlum fjármunum fyrir íslendinga.

Að síðustu vil ég þakka hæstv. ráðh. fyrir að hann lofaði að þetta verði athugað, og ég vil benda honum og öðrum hv. þm. á að hér á þingi hefur einmitt verið lagt fram lagafrv. um að sett verði tölvulög og tel ég ekki vanþörf á því.