17.02.1976
Sameinað þing: 51. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1942 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

56. mál, útgjöld til menntamála

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það hefur dregist lengi að svara þessari fsp. og ég vil. að svo miklu leyti sem mér er um að kenna, biðja hv. þm. velvirðingar á því. Í því sambandi vil ég varpa fram þeirri spurningu hér, hvort það er ekki orðið eitthvað bogið við þessa fsp.- tíma, hvernig þeir hafa farið fram að undanförnu. Ekki svo að skilja, að ég sé að beina því að forsela eða hv. þm., að þingsköp séu brotin á nokkurn hátt. En ég spyr: Væri ekki eðlilegra að nýta þessa tíma fyrst og fremst til fsp. og svara, en ekki til þess að skeggræða. „Skáldið klökknar af innvortis ánægju yfir öllum þessum hörmum sem svo gott er að yrkja um,“ segir Tómas. Það vitum við vel, að það er fullt af vandamálum sem er ákaflega þægilegt — og áhugavert að ræða, en það er bara spurningin, hvort það á að nota fsp.-tímana í það. Ég dreg það í efa. Ég held að hitt væri heppilegra og mundi nýtast okkur betur. Menn kynnu þá e.t.v. að þurfa að setja upp einhvern nýjan vettvang fyrir umr. af almennu tagi eins og fsp.-tímar hafa svo mjög farið í.

Ég vil leyfa mér að svara fsp. hv. þm. í heild án beinnar sundurgreiningar eftir töluliðum og þá á þessa leið:

Eins og kunnugt er fara útgjöld til menntamála, þ.e. bæði fræðslumála, rannsóknastarfa og annarra almennra menningarmála yfirleitt vaxandi í flestum löndum, þótt nokkru kunni að muna frá ári til árs um þróunina í þessu efni eftir fjárhagsástæðum á hverjum tíma.

Árið 1971 námu útgjöld til fræðslumála í eftirgreindum 12 löndum, sem hlutfallslega verja einna mestu fé til fræðslumála, svo sem hér segir, og þá eru það útgjöld hins opinbera til fræðslumála þetta ár sem prósentur af vergri þjóðarframleiðslu: Svíþjóð 7.9, Holland 7.9, Danmörk 7.6, Noregur 6.4, Finnland 6.3, Bretland 5.5, Belgía 5.4. Upplýsingar frá þessum fimm löndum eru að vísu frá 1969. Ísland 5.1, Frakkland 4.7% og þær upplýsingar eru sagðar frá 1970. Vestur-Þýskaland 4.5% og einfalt meðaltal á milli landa 6.1%. Svo eru aftur Kanada með 8.5% og Bandaríkin með 6.7%.

Meðaltal fyrir þau 10 Evrópulönd, sem talin eru hér að framan, er 6.1% á árinu 1971 að því er fræðslumál varðar, en talan fyrir Ísland var á því ári 5.1%. Síðan hefur talan að því er Ísland varðar hækkað um 5.4% fyrir árið 1972 í 5.2% á árinu 1973 og í 5.7% á árinu 1974.

Þetta verður að nægja sem fyrst og fremst svar við 2. tölul. Nánari upplýsingar hef ég ekki getað fengið um þetta. Ég vil benda á það og leggja áherslu á það, að það er ekki víst að samanburður milli landa sé alls kostar réttur, þar sem ekki er víst að hin einstöku lönd flokki þessi mál á nákvæmlega sama veg. Þetta er álit þeirra manna sem um þessi mál fjalla hér hjá okkur.

Út af því, sem hv. fyrirspyrjandi minntist á ummæli í Tímanum, þá man ég ekki nákvæmlega hvernig þetta var þar fram sett, og kannast ég ekki við að það hafi þar verið talið okkur sérstaklega til gildis að þessi gjöld væru hér lægri en í tilteknum löndum. Ég man að ég minntist á þetta í útvarpsræðu í vetur og þá að sjálfsögðu til þess að vekja athygli á því, að enda þótt oft væri talað um háar fúlgur á fjárl. til menntamála, þá væri síður en svo að þar væri um nokkra ofrausn að ræða því að við værum ekki nema í meðallagi í samanburði við önnur lönd. Í þeim tilgangi minntist ég á þetta, og ég geri ráð fyrir að það hafi verið sett fram í svipuðu formi í Tímanum þó að ég muni ekki gjörla.

Opinber framlög til fræðslumála, rannsóknarstarfsemi og annarra menningarmála á Íslandi árin 1972–1974 hafa verið sem hér segir: 1972 eru fræðslumál 5.4%, rannsóknir 0.5%, önnur menningarmál 0.7%, samtals 6.6% af vergri þjóðarframleiðslu. Árið 1973 eru þessar sömu tölur 5.2, 0.5, 0.8, og 6.5%, og 1974 eru þær þessar: Fræðslumál 5.7%, rannsóknir 0.5%, önnur menningarmál 0.8%, samtals 7%, hafa þá hækkað um 0.4% frá 1972. Árið 1975 er ekki hægt að gera upp með vissu fyrr en ríkisreikningur liggur fyrir og svo reikningar helstu sveitarfélaga.

Benda má á að Efnahagsstofnunin og menntmrn. gáfu út skýrslu um menntamálaútgjöld hins opinbera og skólahald árin 1946–1971, eins og hv. fyrirspyrjanda mun kunnugt um. Þar er að finna sundurliðað yfirlit um útgjöld til fræðslumála, rannsóknarmála, menningarmála tiltekin ár: 1946, 1951, 1956, 1961, 1966 og 1971. Og það er í ráði og undirbúningi að semja skýrslu um þetta efni fyrir þau ár sem síðan ern liðin.

Ég vil taka það fram, að yfirleitt telur menntmrh. æskilegt að teknar verði saman tölfræðilegar upplýsingar um menntamál á Íslandi í meira mæli en gert hefur verið. En slíkt kallar vitanlega á nokkuð aukna fjármuni og aukna vinnu.

Ég vænti að hv. fyrirspyrjandi telji spurningum sínum svarað að mestu leyti með því sem hér hefur verið sagt. Ég vil geta þess að rn. hefur haft samband við Þjóðhagsstofnunina um þær upplýsingar sem hér hafa verið fluttar. Nýrri tölur varðandi 2. tölulið fsp. gat stofnunin ekki látið í té þegar við báðum hana um upplýsingar í sambandi við þessa fsp.