17.02.1976
Sameinað þing: 52. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1947 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

114. mál, sjónvarp á sveitabæi

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. 1. flm. þessarar till., að það er satt að segja til skammar að ekki skuli hafa náðst samstaða um að gera það tiltölulega litla átak sem nauðsynlegt er til þess að koma sjónvarpi á hvern sveitabæ í okkar landi. Ég get ekki að því geri;, að mér hefur stundum þótt að þeir, sem fengið hafa sjónvarp, hafi glatað skilningi á því hvað það er sjálfsögð og eðlileg jafnréttiskrafa fyrir alla landsmenn, að hafa aðgang að þessu menningartæki, þessu tæki sem tengir áreiðanlega þjóðina á ýmsan máta betur saman en fjölmargt annað, ekki síst þar sem ófærð er mikinn hluta ársins. Um þetta hafa verið fluttar margar till. hér á hv. Alþ. og þær hafa ekki fengið afgreiðslu. Við höfum báðir, hv. 1. flm. þessarar till. og ég, verið fyrstu flm. að slíkum till. árum saman.

Okkur er l.jóst, eins og koma fram hjá honum, að þetta hefur, m.a. strandað á því, að menn hafa ekki af einhverjum ástæðum séð sér fært að leggja fram annaðhvort á fjárlögum eða með öðrum tekjum Ríkisútvarpsins það fjármagn sem nauðsynlegt hefur verið til þess að ljúka þessu tiltölulega litla átaki, þ.e. að koma sjónvarpi á um 150 sveitabæi.

Það var með þetta í huga sem við þrír þm. í Ed. lögðum þar fram frv. til l. um breyt. á útvarpslögum og er það frv. komið þar til n. Við bendum þar á þá leið að leggja 10% viðaukagjald á afnotagjald af hljóðvarpstækjum og sömuleiðis af sjónvarpstækjum til þess að afla tekna í þessu skyni. Við gerum jafnframt ráð fyrir að eitthvert mótframlag geti komið þar á móti, þannig að þessu átaki megi ljúka á tiltölulega skömmum tíma.

Í grg. með þessari þáltill. kemur fram að áætlun var gerð fyrir nokkrum árum og talið að það mundi kosta um 150 millj. kr. að ljúka þessu verki. Nýrri áætlun liggur að vísu fyrir. Hún kom fram í skýrslu sem hæstv. menntmrh. lagði fram á síðasta þingi. Samkv. þeirri áætlun var talið að kostnaður við nýjar stöðvar fyrir færri en 8 notendur yrði um 220 millj. kr., en aftur á móti við nokkrar stöðvar, sem gætu þjónað fleiri en 8 notendum, tæpar 50 millj. Auk þess var talið nauðsynlegt að gera vissar endurbætur á bráðabirgðastöðvum og öðru sem ekki hefur verið fyllilega gengið frá, þannig að heildarkostnaður við það, sem má telja nauðsynlegast og óhjákvæmilegt vegna þess verkefnis, að koma sjónvarpi til þessara sveitabæja, yrði að því er mér sýnist um 330 millj. kr. Sú áætlun er hins vegar ársgömul og hefur að sjálfsögðu hækkað nokkuð. Hér er því um nokkur fjárútlát að ræða, af stærðargráðunni nokkur hundruð millj. Þó er vitanlega ljóst að þetta má vinna í áföngum, og t.d. væri það mikill áfangi að koma þeim stöðvum upp sem þjóna fleiri en 8 notendum og talið er samkv. þessari áætlun að mundu kosta um 50 millj., en samkv. áætlun frá s.l. hausti í kringum 80 millj. Allt er þetta góðra gjalda vert, og ég get raunar tekið undir það, sem hv. flm. sagði áðan, allt nema þá hugmynd flm. að leita til Byggðasjóðs um framlag í þessu skyni. Ég tek undir það, að þetta er byggðamál, eins og ég hef hvað eftir annað lagt áherslu á. Ég gerði það í upphafi minna orða. En ég efast í fyrsta lagi um að Byggðasjóði sé þetta heimilt nema með breytingum á lögum. Þó má vera að finna megi þar einhvern möguleika til slíks, ég efast þó um það. Byggðasjóði hefur fyrst og fremst verið varið til þess að efla atvinnulíf um landið og það hefur stjórn Framkvæmdastofnunar talið hans meginhlutverk.

Í öðru lagi er allt of mikið um það, að vísað sé á Byggðasjóð án þess að því er mér virðist skoðað sé hve margt liggur þar fyrir. Stjórn Framkvæmdastofnunar er nú, ef ég má orða það svo, að reyna að burðast við að skipta því fjármagni, sem þar er fyrir, á allt of margar hendur. Ég hafði orð á því í morgun, að það eru ekki efni þar til þess að leggja fjármagn í svo stórkostlega mikilvægar framkvæmdir eins og dreifingu heits vatns til hinna ýmsu staða þar sem borað hefur verið og sjálfsagt — um það getum við eflaust öll verið sammála — að hraða dreifingu vatns sem þegar er fengið. En þar er ekki fjármagn til slíks jafnvel. Þar er fjármagn af mjög skornum skammti til uppbyggingar iðnaðar um landsbyggðina sem hlýtur að vera eitt meginverkefni í atvinnumálum þessarar þjóðar, ekki síst ef leggja þarf, svo sem allt bendir til, vaxandi áherslu á iðnvæðingu á næstu árum. Ég ætla ekki að telja upp þau mörgu verkefni sem fá þarna allt of lítið fjármagn, því miður. Þau eru mjög mörg og umsóknirnar skipta hundruðum sem liggja fyrir Byggðasjóði. Því verð ég að segja, að því miður er það að fara úr öskunni í eldinn að ætla Byggðasjóði að kosta þessa framkvæmd án þess þó að útvega honum meira fjármagn. Ef við sameinuðumst um að auka framlag til Byggðasjóðs úr 2% af útgjaldahlið fjárlagafrv, í 3%, þá gæti ég tekið undir atriði eins og þetta. En það er alveg ljóst að það yrði að gera.

Ég vil einnig benda á, að það hafa verið hér hugmyndir um það — og meira að segja komist til ríkisstj. í frv.-formi — að fela Byggðasjóði að sinna öðru ekki síður mikilvægu verkefni, að hraða íbúðarbyggingum og veita viðbótarlán til íbúðarbygginga um landið. Þetta er verkefni sem þá, fyrir tveim árum, var talið nema nokkur hundruð millj. Þannig getum við talið upp fjölmörg verkefni sem sannarlega væri verðugt fyrir Byggðasjóð að sinna. En það verður ekki gert án þess að auka fjármagn þangað, a.m.k. ekki ef Byggðasjóður á að sinna því sem hefur verið talið hans frumverkefni, að stuðla að eflingu atvinnuuppbyggingar um landið .

Ég komst því að þeirri niðurstöðu, að eina leiðin til að ná þessu fram væri að finna sérstakt gjald í þessu skyni, sérstakan gjaldstofn, og því lögðum við fram það frv. sem ég hef áður nefnt og ég vona að geti orðið til þess að koma þessum málum a.m.k. af stað. Ég geri mér grein fyrir því, að það þarf meira fjármagn en þar er gert ráð fyrir. En mér sýnist ekki óeðlilegt að ætla að fjárveiting fáist á fjárlögum á móti slíku viðaukagjaldi á afnotagjald ei það fæst samþ.

Ég vil svo að lokum segja það, að ég vona að sameiginlegt átak okkar 1. flm. þessarar till. geti orðið til að hraða framkvæmd þessa máls.