28.10.1975
Sameinað þing: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

1. mál, fjárlög 1976

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Aðalfyrirheit núv. stjórnarfl., þegar þeir tóku við völdum, voru að ráðstafanir hennar stuðluðu að jafnvægi í efnahagsmálum. Þróunin á stjórnartíma hennar er algerlega gagnstæð. Á sama tíma og dregið hefur mjög verulega úr verðhækkunum innfluttrar vöru og verðbólgu erlendis hefur verðbólgan hér á landi aukist um a. m. k. 1/4 fyrsta valdaár ríkisstj. Ástæðan er að sjálfsögðu sú að helstu efnahagsráðstafanir ríkisstj. hafa gengið þvert gegn fyrirheitum hennar. Þær hafa beinlínis verkað sem olía á verðbólgubálið, tvær gengislækkanir, söluskattshækkanir og aðrar ráðstafanir til að stórauka skattheimtu í ríkissjóð. Nú er svo komið, þegar árangur þessarar stefnu hefur birst í stóraukinni verðbólgu á sama tíma og hún er að hjaðna erlendis, að jafnvel úr röðum hæstv. ráðh. koma fram raddir um að kúvenda frá verðhækkunarstefnunni og grípa til niðurfærsluleiðar. Það er hins vegar ekki nóg að einstakir hæstv. ráðh. virðast nú loks vera farnir að gera sér ljóst að stjórnarstefnan er að leiða til skipbrots í efnahagsmálum. Þeim ber einnig að haga stefnu sinni í stjórnmálum skv. því sem þeir virðast nú loks vera farnir að skynja og skilja í öðru ljósi en áður. Það var heldur ámátlegt og mótsagnakennt að heyra í ríkisútvarpinu sagt frá því sama kvöldið nú í haust að hæstv. viðskrh. hefði sagt að líklega væri niðurfærsluleiðin best og um leið að landbúnaðarvörur hefðu hækkað um allt að 33% í einu stökki.

Það var ljóst við fjárlagaafgreiðsluna í fyrra, þegar rekstrarútgjöld hækkuðu miklu meir frá áður gildandi í fjárl. en verðlagsþróun nam og byggt var í stórauknum mæli á lántökum, að afgreiðsla fjárl. gekk þvert gegn yfirlýstu markmiði ríkisstj. um að stefna gegn útþenslu ríkisútgjalda, en stuðla að styrkari fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Með afgreiðslu fjárl. var hæstv. ríkisstj. enn að vega að yfirlýstri stefnu sinni um jafnvægi í efnahagsmálum.

Ég lýsti því við 2. og 3. umr. fjárl. í fyrra á hve hæpnum forsendum ég teldi að byggðar væru þær áætlanir sem lágu til grundvallar því fjárlagafrv. sem þá var verið að samþ. Í grg. þess fjárlagafrv. kom fram að gert væri ráð fyrir að yfirdráttarskuld ríkissjóðs við Seðlabankann yrði 1 milljarður kr. um áramótin og að miðað við áætluð útgjöld og tekjur væri gert ráð fyrir verulegri lækkun skuldarinnar. Það kom í ljós þegar um áramótin hve þessar forsendur voru algjörlega út í loftið, eins og svo margt annað í fjárlagafrv., því að skuldin reyndist um síðustu áramót nema riflega 4000 millj. kr., og svo hroðvirknislega var staðið að öðru leyti að þessu máli að gengið var út frá mismunandi forsendum við áætlun tekna annars vegar og útgjalda hins vegar. Hér var um að ræða 1200 millj. kr. skekkju þar sem tekjur voru oftaldar miðað við forsendur útgjaldahliðar.

Fjárl. sem áætlun um tekjur og gjöld ríkissjóðs á árinu 1975 áttu því ekki langa lífdaga í þeirri mynd sem þau voru samþ. Var það naumast undravert eins og að undirbúningi þeirra og afgreiðslu hafði verið staðið. Dómur hæstv. ríkisstj. sjálfrar um markleysi fyrri áætlana, sem voru forsendur fjárlagagerðarinnar, var felldur með gengislækkuninni 1. febr. s. l. Síðar var svo innflutningsgjald af bifreiðum hækkað svo og verð á áfengi og tóbaki. Með frv. til laga um ráðstafanir í efnahagsmálum, sem flutt var seinni hluta marsmánaðar, var fjárl. kollvarpað og kastað á ruslahauginn, þremur mánuðum eftir að þau höfðu verið samþ. Þannig fór um þennan frumburð hæstv. fjmrh.

Með efnahagsmálafrv. var m. a. gert ráð fyrir heimild til að lækka áætluð útgjöld ríkissjóðs um 3 500 millj. kr. Jafnframt átti að auka lántökur enn um 3 300 millj. kr., þar af erlend lán um 2 000 millj. Í framsöguræðu hæstv. forsrh. fyrir þessu frv. var gert ráð fyrir að hlutur ríkisútgjalda af þjóðarframleiðslunni í ár mundi með þeim ráðstöfunum, sem í frv. fælust, lækka úr 29% í 27%. Það kemur þó í ljós í grg. fjárlagafrv. nú, að þrátt fyrir allt er þar gert ráð fyrir að þetta hlutfall verði í reynd á árinu 1975 29% eftir sem áður.

Sá tilgangur efnahagsaðgerðanna að lækka hlutfall ríkisútgjalda í þjóðarbúskapnum bar því engan árangur, hefur mistekist með öllu. Við afgreiðslu þessara laga áminntu forsvarsmenn ríkisstj. sjálfa sig um ábyrga fjármálastjórn, enda ekki vanþörf á eftir það sem á undan var gengið á hinum stutta stjórnarferli þeirra. Og hæstv. forsrh. sagði þá, með leyfi hæstv. forseta:

„Í fyrsta lagi er ekki verjandi að stefna ríkissjóði í hallarekstur á árinu 1975 vegna hinnar tæpu stöðu þjóðarbúsins út á við. Gjaldeyrisstaðan leyfir um þessar mundir ekki slíka beitingu ríkisfjármála.“

Þrátt fyrir þessa áminningu hæstv. forsrh. í mars s. l. og þrátt fyrir að 2000 millj. kr. skattalækkunin væri tekin til baka síðar á árinu við enn nýja röskun fyrri áætlana með 12% vörugjaldi er ljóst nú að beiting ríkisfjármála á þessu ári er slík að hún leiðir til umtalsverðs halla á ríkissjóði.

Hæstv. forsrh. sagði í framhaldi af fyrrgreindum áminningum sínum að brýna nauðsyn bæri til að lækka skuld ríkissjóðs við Seðlabankann. Ljóst er að sú beiting ríkisfjármála, sem veldur hallarekstri á ríkissjóði þrátt fyrir enn nýja skattheimtu eftir setningu efnahagsmálalaganna, leiðir til enn aukinnar skuldasöfnunar. Á fyrstu 12 mánuðum stjórnartímabils hæstv. ríkisstj. hækkaði skuld ríkissjóðs og ríkisstofnana við Seðlabankann um 4 700 millj. kr. Einungis þrotlaus og vaxandi yfirdráttarlán úr Seðlabankanum hafa komið í veg fyrir fjárþrot ríkissjóðs, þrátt fyrir að skattheimta í ríkissjóð mun á þessu ári verða um 15 þús. millj. kr. hærri en hún varð í reynd á s. l. ári.

Eins og ég gat um áðan fólst í frv. um ráðstafanir í efnahagsmálum heimild til lækkunar á útgjöldum ríkissjóðs um 3500 millj. kr. Við afgreiðslu málsins fengust engar upplýsingar um hvernig að þessum niðurskurði ætti að standa, en tekið var fram í frv. að heimilt væri að láta hann taka til útgjaldaliða sem ákveðnir voru með öðrum lögum en fjárl. Með því var samþ. að gefa fjvn. og ríkisstj. frjálsar hendur um að ákveða hver lög skyldu gilda í landinu og hver ekki. Að sjálfsögðu var út frá því gengið að ríkisstj. hefði látið ganga úr skugga um að slík krónutölulækkun útgjalda væri framkvæmanleg, þó að Alþ. fengi engar upplýsingar um einstök atriði, enda bar hæstv. fjmrh. sig mannalega og í leiðara í Morgunblaðinu 6. febr. s. l. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Það hlýtur að verða einn meginþátturinn í væntanlegum efnahagsaðgerðum ríkisstj. að taka fjárl. ársins 1975 til meðferðar og skera útgjöld skv. þeim verulega niður.

Matthías Á. Mathiesen fjmrh. lýsti því yfir í sjónvarpsumr. fyrir nokkrum dögum að hann hefði þegar látið undirbúa í fjmrn. till. að slíkum niðurskurði, þannig að sá valkostur verði fyrir hendi þegar ríkisstj. fjallar um efnahagsvandamálin.“

Þrátt fyrir kröfur mínar við umr. um efnahagsmálafrv. um að þessar till. yrðu sýndar þingheimi, svo að þingmenn vissu hvað verið væri að samþ. með heimild til 3 500 millj. kr. niðurskurðar ríkisútgjalda, fengust engar upplýsingar. Það átti hins vegar eftir að koma í ljós að í framkvæmd náðist ekki fram þessi lækkun ríkisútgjalda og nánast engar till. komu fram um að lækkunin tæki til eiginlegra rekstrarútgjalda.

Í umr. um efnahagsmálafrv. létu talsmenn hæstv. ríkisstj. það þó koma skýrt fram að í heimildinni um 3 500 millj. kr. lækkun útgjaldatalna fælist engan veginn sú ákvörðun að aðallega eða einungis yrði um að ræða niðurskurð á framlögum til verklegra framkvæmda. Hæstv. landbrh. sagði við 1. umr. frv., með leyfi hæstv. forseta :

„Af þessum ástæðum taldi ríkisstj. sér rétt og skylt að fá heimild til þess að meðhöndla fjárl. á nýjan leik út frá því sem sýndi sig að reynslan yrði á árinu og þá yrði tekið jafnt tillit til rekstrarliða sem framkvæmdaliða. Í því sambandi mun ríkisstj. leggja á það áherslu, eins og hún hefur sérstaklega tekið fram áður, að hún mun hafa það stefnumið að halda áfram byggðastefnunni fullkomlega í huga.“

Hæstv. forsrh. sagði um þetta atriði m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Í frv. er, eins og kunnugt er, gert ráð fyrir því að opinber útgjaldaáform verði lækkuð um 3 500 millj. kr. Hv. þm. Magnús Kjartansson vildi svo vera láta að öll þessi lækkun ætti að koma fram á verklegum framkvæmdum. Þetta er engan veginn tilgangurinn. Þvert á móti er áhersla á það lögð að þessi sparnaður eigi sér stað ekki síður á rekstrarútgjöldum en öðrum útgjöldum hins opinbera.“

Og síðar sagði hæstv. forsrh., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vil líka enn á ný ítreka að sparnaður eða niðurskurður á ekki að eiga sér stað fyrst og fremst eða eingöngu á framkvæmdaliðum.“

Þrátt fyrir öll þessi loforð um að rekstrarútgjöld yrðu ekki síður skorin niður að krónutölu en framkvæmdaliðir varð raunin sú að sú 2 000 millj. kr. lækkun, sem meiri hl. fjvn. gerði að lokum till. um til ríkisstj., varðaði nær alfarið framkvæmdaliði og framlög til fjárfestingarsjóða. Um niðurskurð almenns rekstrarkostnaðar ríkissjóðs var alls ekki að ræða. Það er því ekki að undra að þegar einn fulltrúi Framsfl. í fjvn. hafði í viðtali við Tímann 12. júlí s. l. greint frá niðurskurði fjárveitinga til nauðsynlegustu framkvæmda víðs vegar um land segði hann, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„En hins vegar hygg ég að mörgum fjvn.mönnum þyki á skorta að till. liggi fyrir frá fjmrh. um lækkun rekstrarkostnaðar ríkissjóðs.“

Hér held ég að viðkomandi fjvn.-maður hafi ekki tekið of djúpt í árinni, einkum þegar hafðir eru í huga svardagar ráðh. Sjálfstfl. og Framsfl. um að rekstrarliðir yrðu ekki síður skornir niður en framkvæmdaliðir.

Þrátt fyrir að fulltrúum í fjvn. hafi þótt skorta á till. frá hæstv. fjmrh. um niðurskurð rekstrarútgjalda og að um einberan niðurskurð framkvæmda væri að ræða, þá stóð ekki á fulltrúum Framsfl. að samþ. slíkan niðurskurð sem fyrst og fremst bitnaði á nauðsynlegustu framkvæmdum, einkum úti á landsbyggðinni.

Þannig mistókst sú fyrirætlun að skera niður ríkisútgjöld um 3 500 millj. kr. og niðurskurðurinn takmarkaðist við 2 000 millj. kr. vegna þess að af hálfu fjmrh. komu engar till. um niðurskurð almennra rekstrarútgjalda og fulltrúar stjórnarfl., þm. landsbyggðarinnar, samþ. einum rómi að svo til hið eina, sem mætti lækka í útgjöldum ríkisins, væru framkvæmdaframlög sem mestu varða fyrir íbúa hinna ýmsu byggðarlaga úti á landi.

Þegar svo var komið að ríkisstj. hafði heykst á öllum fyrirætlunum um lækkun rekstrarútgjalda ríkissjóðs, en fyrirsjáanlegur var stórhalli á rekstri ríkissjóðs, greip ríkisstj. til þess ráðs að taka til baka þá skattalækkun sem hún hafði samið um við Alþýðusamband Íslands til að greiða fyrir samningum um kaup og kjör milli verkalýðssamtakanna og atvinnurekenda. Þetta var gert með sérstakri fjáröflun til áramóta, með álagningu 12% vörugjalds á tiltekna vöruflokka, og þar með enn kvikað frá tekjuöflunaráætlunum ríkissjóðs í fjárl. og í efnahagsmálafrv. frá því í mars.

Það hefur þannig margfaldlega verið sýnt í verki, að fjárlagagerðin í fyrra var byggð á sandi. Þrátt fyrir aðgerðir til tekjuöflunar með gengislækkun 1. febr., þrátt fyrir stórröskun fjárl. með efnahagsmálafrv. í mars og þrátt fyrir enn nýja skattahækkun með vörugjaldi í júlí verður niðurstaðan hallarekstur ríkissjóðs í ár. Hefur fjármálastjórninni þá vissulega ekki verið hagað í samræmi við áminningar hæstv. forsrh. í vor, þegar hann lagði áherslu á, eins og hann sagði orðrétt, að ekki væri „verjandi að stefna ríkissjóði í hallarekstur á árinu 1975 vegna hinnar hæpnu stöðu þjóðarbúskaparins út á við“. Gjaldeyrisstaðan leyfði ekki slíka beitingu ríkisfjármála. Þrátt fyrir að horfur í gjaldeyrismálum hafi ekki vænkast síðan þessi áminningarorð voru flutt á Alþ. er ekki annað að sjá en að hæstv. fjmrh. hafi einmitt leyft sér þá beitingu ríkisfjármála sem veldur hallarekstri ríkissjóðs á árinu.

Þótt lögum hafi margsinnis verið breytt og aðrar ráðstafanir verið gerðar til að tryggja hæstv. fjmrh. hækkun skattheimtu um 15 þús. millj. kr. á árinu eða 50 milljarða heildartekjur hefur honum samt tekist að eyða enn meiru, og þó hafa jákvæðustu þættir ríkisútgjaldanna, nauðsynlegustu samfélagslegar framkvæmdir, verið skornar niður á sama tíma.

Með tilliti til þess, hvernig tekist hefur til um ríkisfjármálin í tíð hæstv. núv. ríkisstj., er það sannarlega ekki að ástæðulausu að nú er í grg. fjárlagafrv. sérstaklega tekið fram, að ríkisstj. leggi á það megináherslu að Alþ. og ríkisstj. hafi fulla stjórn á þróun ríkisútgjalda, eins og það er orðað. Er vissulega tímabært fyrir hæstv. ríkisstj. að gera sér þessa þörf ljósa þegar hún hefur setið að völdum í 14 mánuði.

Við afgreiðslu fjárl. í fyrra, við afgreiðslu fyrstu fjárl. hæstv. núv. ríkisstj. hækkaði teknahlið ríkissjóðs eða skattheimta ríkissjóðs um 63.2% frá þágildandi fjárl. Á árinu 1971 var verðbólgan talin nema um 40%, svo að rækilega var í lagt um hækkanir, enda varð sú raunin að við þá fjárlagaafgreiðslu var gert ráð fyrir að látið yrði vaða á súðum í almennum rekstrarkostnaði. Liðurinn Önnur rekstrargjöld hækkaði um 86.2% og viðhaldskostnaður um 89%.

Þrátt fyrir að fyrstu fjárl. hæstv. núv. ríkisstj. hækkuðu meira en fjárl. höfðu nokkru sinni áður gert og meira en svaraði undangenginni verðlagsþróun minnkaði raungildi fjárveitinga til verklegra framkvæmda og áttu þó eftir að minnka enn meir en ljóst var þegar við afgreiðslu fjárl., bæði vegna óðaverðbólgu á framkvæmdatímanum og vegna sérstakrar lækkunar framlaga í framhaldi um samþykkt laga um aðgerðir í efnahagsmálum sem ég hef hér áður getið.

Fjárl. hækkuðu þannig í fyrra um ríflega 60% og út frá þeim útgjaldatölum er að sjálfsögðu gengið í fjárlagafrv. nú, og þar til viðbótar er gert ráð fyrir 21.5% hækkun heildarútgjalda. Enn á sér stað sama þróunin og í fyrra, rekstrarútgjöld hækka hlutfallslega meira en hækkun heildargjalda nemur, en framkvæmdaframlög rýrna enn að raungildi. Liðirnir Önnur rekstrargjöld hækka í heild í A- og B-hluta um 37%. Hjá einstökum stofnunum er þessi hækkun orðin mjög veruleg, t. d. hækka önnur rekstrargjöld hjá bæjarfógetum og sýslumönnum um 40% í fjárlagafrv. til viðbótar 57% hækkun í fyrra. Vaxtagreiðslur í A- og B-hluta hækka um 66%.

Fjárlagafrv. fyrir árið 1976 er u. þ. b. tvöfalt hærra en fjárl. ársins 1974, og á hæstv. fjmrh. heiðurinn af því að hafa fyrstur allra fjmrh. tekist að tvöfalda fjárlög á tveimur árum. Hæstv. ráðh. setur þannig met í hvert sinn sem hann ber fram fjárlagafrv. Í fyrra hækkuðu fjárl. um rúmlega 60%, sem var miklum mun meira en nokkru sinni hafði áður þekkst. Nú verður hæstv. fjmrh. hinn fyrsti sem tvöfaldar fjárl. á tveimur árum. Þetta nýja met hefði þó verið enn myndarlegra ef hann hefði fengið að ráða um samsetningu þessa frv., þ. e. a. s. ef hæstv. ríkisstj. hefði tekið meira mark á till. hans. Þeir, sem eitthvað hafa fylgst með því sem gerist hjá ríkisstj., vita mætavel að þegar hæstv. ráðh. hafði gengið frá fjárlagafrv. var það 5000 millj. kr. hærra en það er í dag.

Í stað þess að fylgja till. sínum eftir til endanlegrar afgreiðslu í ríkisstj., eins og fyrirrennarar hans hafa jafnan gert, þá brá hæstv. ráðh. sér til Flórída. Hann hafði einu sinni sagt í þingræðu þegar efnahagsvandræði þjökuðu þjóðina að vonandi mundi úr þeim rætast með hækkandi sól. Með þetta úrræði í huga hefur hæstv. ráðh. líklega þótt vænlegra að taka sólarhæðina á suðlægri breiddargráðum en hér norður við heimsskautsbaug. En á meðan fjallaði hæstv. ríkisstj. um till. hans og hefur líklega þótt með tilliti til fjárlagafrv. í fyrra ráðlegra að taka þeim till. ekki jafngagnrýnislaust. Niðurstaðan varð sú, að till. hæstv. ráðh. voru í heild skornar niður um 5000 millj. kr. og þegar hæstv. ráðh. kom að vestan þekkti hann ekki frv. Mér hefur stundum virst að hann sé ekki búinn að kynna sér það til hlítar enn.

Þrátt fyrir að till. hæstv. fjmrh. um fjárlagafrv. hafi þannig verið skornar allverulega niður tekst honum þó að setja það met að tvöfalda fjárlögin á tveimur árum. Allt tal um að fjárlagafrv. hækki minna en verðlag gefur tilefni til er að því leyti út í hött, að við afgreiðslu fjárlaga í fyrra hækkuðu niðurstöðutölur langt umfram verðlagshækkanir og þær útgjaldatölur eru að sjálfsögðu innifaldar í útgjaldatölum fjárlagafrv. nú.

Það ber einnig að hafa í huga, þegar fjallað er um útgjaldatölur fjárlagafrv. nú, að hinar veigamestu þeirra eru alls óraunhæfar. Einkum er um að ræða að í fjárlagafrv. er miðað við kaupgjald í sept. s. l. og óbreyttan launakostnað allt næsta ár, og að sjálfsögðu er ekki við því að búast að unnt sé að hafa aðrar tölur um launakostnað í frv. á þessu stigi málsins, en jafnaugljóst er að þar er í raun byggt á marklausum tölum, þar sem gengið er út frá því að þrátt fyrir gífurlega kjaraskerðingu og þá staðreynd að kjarasamningar verkalýðsfélaganna falla úr gildi um áramót, þá muni ekkert gerast í launa- og kjaramálum á næsta ári eða fiskverð hækka. Gengið er út frá því, að laun muni ekki hækka um eina krónu á næsta ári frá því í sept. s. l. Það sem hér er um svo veigamikinn þátt í fjárlagafrv. að ræða er ljóst að í rauninni er tilgangslaust að tala um tiltekna hækkun fjárlagafrv. í % miðað við núgildandi fjárlög. Sama er að segja um fjárveitingar til ýmissa annarra þátta í fjárlagafrv., þær eru óraunhæfar. Þrátt fyrir að hinir veigamestu þættir útgjalda í fjárlagafrv. eru óraunhæfir og munu í reynd nema miklu hærri upphæðum er staðreyndin sú, að þótt miðað sé við heildarútgjöld eins og þau eru áætluð á þessu stigi, þá eru heildarútgjöld ríkissjóðs á næsta ári áætluð að umfangi heldur hærri en þau verða á þessu ári.

Á bls. 164 í grg. fjárlagafrv. segir að heildarútgjaldahækkun frv. feli í sér „svipað magn ríkisútgjalda eða óbreytt ríkisútgjöld á föstu verðlagi milli áranna 1975 og 1976“. Áætlað er að þjóðarframleiðsla á næsta ári nemi 196 milljörðum kr., en samkv. fjárlagafrv. er gert ráð fyrir heildarútgjöld ríkisins nemi 57.4 milljörðum og er þó ýmislegt þar vantalið. Samkv. þessari áætlun um heildarútgjöld ríkissjóðs, 57.4 milljarða, nema ríkisútgjöldin því 29.2% af þjóðarframleiðslunni. Þetta er heldur hærra hlutfall en gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. í fyrra, en þar voru ríkisútgjöld áætluð 29.7% þjóðarframleiðslunnar, en munu í reynd nema 29%. Það er því gert ráð fyrir nokkru meiri ríkisútgjöldum sem hlutfalli af þjóðarframleiðslu en stefnt var að í fjárlagafrv. í fyrra og meiri en reyndin verður í ár. Það er því ljóst að fjárlagafrv. fyrir árið 1976 markast ekki af hlutfallslega minnkuðum heildarútgjöldum ríkissjóðs miðað við verðlag eða þjóðarframleiðslu, heldur af breytingum á umfangi einstakra þátta innbyrðis í ríkisrekstrinum.

Ég hef áður minnst á sívaxandi hlut almennra rekstrarútgjalda. Liðurinn Önnur rekstrargjöld hækkaði í fyrra um 86.2% og nú í A- og B-hluta um 37%. Vextir hækka um 1600 millj. kr. eða um 66% og munu á næsta ári nema 4 000 millj. kr. í A- og B-hluta og hafa hækkað um 2400 millj. kr. frá fjárlögum ársins 1974. Erlendar lántökur ríkisins eru komnar á það stig að gert er ráð fyrir að þær nemi 12 sinnum hærri upphæð en í fjárlagafrv. 1974. Þegar hugað er að því, hvaða þættir eru dregnir saman til þess að jafna upp útþensluna á rekstrarliðunum, kemur í ljós að sama þróun á sér stað nú og í fyrra varðandi fjárveitingar til verklegra framkvæmda. Sá þáttur ríkisútgjalda heldur áfram að minnka. Framkvæmdir í vegamálum þyrftu til dæmis að hækka um 40% frá áætlun fjárlagafrv. til þess að halda raungildi fjárveitinga í fjárlögum 1975. Jafnframt er gert ráð fyrir að um 44% framkvæmdanna verði unnar fyrir lánsfé. Framkvæmdafé til almennra hafnargerða þyrfti að hækka um 45% til að halda raungildi frá fjárlagatölu 1975, fjárveiting til framkvæmda við landshafnir um 48% og fjárveiting til framkvæmda við skólabyggingar um 47%.

Til að mæta útgjaldaauka, sem hlotist hefur af verðbólgustefnu ríkisstj., tveim gengislækkunum, vaxtahækkunum og söluskattshækkunum o. fl., er nú að þessu sinni gripið til þess að skerða lögboðin framlög ríkissjóðs almennt um 5% og framlag til almannatrygginga um 2 000 millj. kr. Ekkert hefur verið látið uppi um framkvæmd þessarar ákvörðunar og ekki ástæða til að gera því skóna hvernig að muni verða staðið. Víst er þó að hér þurfa þeir, sem láta sér annt um viðgang almannatrygginga, að vera vel á verði. Áður en til greina kemur að skerða í nokkru hlut þeirra, sem þarfnast framlags úr almannatryggingum, væri ástæða til að bera saman hlut atvinnurekenda til trygginganna annars staðar á Norðurlöndum. Hér greiða atvinnurekendur 14% af útgjöldum lífeyristrygginga, en ekkert til sjúkratrygginga. Af 19 þús. millj. kr. útgjöldum lífeyristrygginga og sjúkratrygginga samanlagt greiða atvinnurekendur aðeins 1309 millj. kr. Þannig greiða atvinnurekendur á Íslandi um 7% af samanlögðum útgjöldum lífeyristrygginga og sjúkratrygginga. Af þeim gögnum, sem ég hef undir höndum, má ráða að árið 1972 hafi sambærilegar greiðslur atvinnurekenda í Noregi numið 47% útgjaldanna, í Danmörku 3%, í Svíþjóð 34% og í Finnlandi 53%, en á Íslandi, eins og ég áður sagði, 7%. Eigi að draga úr útgjöldum ríkissjóðs til þessara mála kæmi að sjálfsögðu mjög til álita að auka greiðslur atvinnurekenda þar sem þær virðast lágar miðað við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum. Jafnframt þessari ákvörðun um lækkun framlaga til almannatrygginga er sótt að kjörum þeirra, sem minnst mega sín, ú;. annarri átt með fjárlagafrv., þar sem ætlunin er að skerða niðurgreiðslur landbúnaðarvara um 1/4 eða um 1425 millj. kr.

Nú er svo látið líta út að á móti þessari lækkun komi niðurfelling vörugjalds, þrátt fyrir að við lögfestingu vörugjaldsins í júlí s. l. væri því algjörlega slegið föstu af hálfu ríkisstj. að hér væri aðeins um tímabundna fjáröflun að ræða til að jafna fyrirsjáanlegan halla á rekstri ríkissjóðs á þessu ári. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælti þessu gjaldi og taldi að með því væri ríkisvaldið að kippa til baka þeirri lækkun beinna skatta sem samið var um til að greiða fyrir kjarasamningum. Í samþykkt miðstjórnar Alþýðusambands Íslands var því haldið fram að með álagningu vörugjaldsins væri um að ræða skattheimtu sem næmi 4000 millj. kr. á ári. Þessu var sérstaklega svarað í leiðara Morgunblaðsins. Því var haldið fram að mótmæli miðstjórnarinnar væru á misskilningi byggð og ekki talin ástæða til að kvarta yfir gjaldinu þar sem sneitt væri hjá mikilvægustu neysluvörum almennings. Í lok leiðara Morgunblaðsins, sem birtist 19. júlí s. l., sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Í þriðja lagi er gildistími vörugjaldsins aðeins rúmir 5 mánuðir, en það fellur niður um áramót, svo að rangt er að reikna áhrif þess á ársgrundvelli, eins og gert er í samþykkt miðstjórnar.“

Í fjárlagafrv. er hins vegar reynt að réttlæta með afnámi vörugjaldsins þá stórfelldu hækkun landbúnaðarvara sem lækkun niðurgreiðslna um 1/4 hefur í för með sér. Hér er staðið að málum af fullum óheilindum og skattalækkunin endanlega hirt til baka á þann veg að í stað þess að beinu skattarnir lækka að einhverju leyti hjá þeim, sem tekjurnar hafa, hækka brýnustu neysluvörur um allt að 1/4, og bitnar það að sjálfsögðu harðast á þeim sem hafa úr minnstu að spila.

Nú er ætlast til þess að auk þess að almenningur greiði tvö viðbótarsöluskattsstig í ríkissjóð, en þau runnu áður í Viðlagasjóð og áttu að falla niður, þá kaupir hann sig undan vörugjaldinu með sérstakri hækkun söluverðs á landbúnaðarvörum. Er þó á þessari skattheimtu sá reginmunur, að hinum brýnni neysluvörum var hlíft við vörugjaldi, en lækkun niðurgreiðslna bitnar á brýnustu nauðsynjavörum eingöngu og bitnar með sérstökum þunga á lífeyrisþegum og barnafjölskyldum. Mér telst svo til, að boðuð lækkun niðurgreiðslna muni hjá 5 manna fjölskyldu valda um 35 þús. kr. útgjaldaauka á ári miðað við þá neyslu sem nú er um að ræða. Má það heita býsna athyglisverð og hröð þróun hjá Framsfl. í íhaldsþjónustunni þegar hann eftir 14 mánaða víst stendur að því að níðast sérstaklega á þessu fólki og stuðlar samtímis að samdrætti á sölu helstu framleiðsluvarabænda. Þess má geta um leið, að samtímis þessum ráðstöfunum er gert ráð fyrir að niðurgreiðslur til útlendinga, útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir hækki um 174 millj. á næsta ári og nemi tæpum 900 millj. kr.

Ég minntist á það áðan á hve veikum grunni útgjaldatölur fjárlagafrv. væru byggðar að því er varðar launaliði og áhrif þeirra á aðra liði í frv. Ýmsir aðrir útgjaldaliðir í frv. eru ákvarðaðir á þann veg einnig að ekki er unnt að taka niðurstöðutölur frv. alvarlega. T. d. er sýnt að stórlega vantar á að fjárveiting til Lánasjóðs námsmanna dugi til þess svo mikið sem að halda hlutfallslega sama gildi og á núgildandi fjárlögum. Þessi tala hlýtur að breytast verulega. Að þessu sinni er ekki til neins að bera því við að beðið sé eftir endurskoðun laga um Lánasjóðinn. Þar virðist standa mest á ríkisstjórnarflokkunum sjálfum. En hvað sem endurskoðun þeirra laga líður getur það naumast verið ætlun hæstv. ríkisstj. að skerða framlög til sjóðsins miðað við það sem verið hefur til þessa og gera ráð fyrir lægri hlutfallstölu lánveitinga miðað við umframfjárþörf en verið hefur. Þá er ljóst, að liður, sem nemur 6 000 millj. kr., daggjöld sjúkrahúsa, er algjörlega á sandi byggður þar sem miðað er við daggjöld frá því í júlí í ár. Þau daggjöld svara ekki til raunverulegs kostnaðar að undanförnu og Tryggingastofnun ríkisins hefur orðið að greiða sjúkrastofnunum fyrir fram til þess að þær lendi ekki í algjörum þrotum. Fráleitt er með öllu að unnt sé að reikna með þessari upphæð daggjalda allt næsta ár. Hér er því enn ein ástæðan fyrir því að ekki er unnt að taka heildarupphæð fjárlagafrv. alvarlega, enda munu daggjöld nú fyrir skömmu hafa verið hækkuð um 15% og vantar þá a. m. k. 1000 millj. kr. inn í útgjaldahlið fjárlagafrv. einungis vegna þessa útgjaldaliðs. Hækkun daggjalda, sem gildir frá 1. okt. s. l. og er þó með sérstöku álagi til næstu áramóta vegna hallarekstrar sjúkrahúsa undanfarna mánuði, mun enn auka hallann á rekstri ríkissjóðs á þessu ári, líklega um 400–500 millj. kr.

Eitt af fyrirheitum hæstv. ríkisstj. var að efla verkmenntun í landinu. Við fjárlagaafgreiðsluna í fyrra var síður en svo að þess sæi nokkur merki, að við það fyrirheit yrði staðið, framlög til iðnskóla lækkuðu að raungildi, og sama sagan er nú að gerast. Framlög til byggingar iðnskóla lækkar beinlínis að krónutölu úr 34 millj. kr. í 32.3 millj., á sama tíma og byggingarkostnaður hefur hækkað um 45%. Framlagið nú þyrfti að vera ríflega tvöfalt hærra en það er til þess að halda sama raungildi og í fjárlögum árið 1974. Á sama tíma og á að verja 32.3 millj. kr. til byggingar iðnskóla alls staðar á landinu er ákveðið í fjárlagafrv. að hefja byggingu á nýju skrifstofuhúsnæði í Reykjavík og verja til þess 40 millj. kr., í byggingu sem á að kosta að lokum 160 millj. Iðnaðinum er sá sómi sýndur, þegar verið er að lækka tolla af erlendum samkeppnisvörum, að framlag til Iðnlánasjóðs og Iðnrekstrarsjóðs, sem voru látin standa óbreytt að krónutölu við afgreiðslu núgildandi fjárlaga, lækka nú úr 50 millj. í 47.5 millj. kr. til hvors sjóðs um sig. Þannig hefur framlag til þessa sjóðs lækkað að krónutölu um 5% frá árinu 1974, en á sama tíma hækka framlög til Stofnlánadeildar landbúnaðarins um 142%.

Sé fjárlagafrv. fyrir árið 1976 borið saman við gildandi fjárlög, er heildarmyndin sú að breyting frá núgildandi fjárlögum felst ekki í minnkuðum heildarútgjöldum ríkissjóðs miðað við verðlag og þjóðarframleiðslu, heldur í breytingum á vægi einstakra þátta innbyrðis. Aðaleinkenni fjárlagafrv. er að ríkisútgjöld í heild verða fyllilega sama hlutfall af þjóðarframleiðslu og áður, en verulegar breytingar verða milli einstakra þátta, þar sem jákvæðustu þættirnir, samfélagslegar framkvæmdir, eru skornar niður til að mæta útþenslunni á rekstrarliðunum, — útþenslu sem stafar ekki síst af stefnu hæstv. ríkisstj., gengislækkunum, söluskattshækkunum og vaxtahækkunum, en allar þessar ráðstafanir hafa fyrst og fremst eflt þá verðbólgu sem nú er aðalmeinsemdin í íslensku efnahagslífi.