17.02.1976
Sameinað þing: 52. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1959 í B-deild Alþingistíðinda. (1635)

114. mál, sjónvarp á sveitabæi

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst svara hv. 2. þm. Vestf., síðustu orðum hans. Ég geri það með því að endurtaka það sem ég sagði áðan, að þjóðin er þannig stödd fjárhagslega að við höfum þurft að gefa út skuldabréf, spariskírteini, til þess að standa undir nauðsynlegum framkvæmdum. Spariskírteini þessi og skuldabréf hafa fallið í gjalddaga og ríkissjóður ekki verið fær um að standa í skilum. Við höfum tekið erlend lán, við höfum tekið erlend lán til þess að greiða þessi erlendu lán og við höfum tekið erlend lán til þess að standa undir nýjum framkvæmdum innanlands. Á sama tíma leyfir hv. þm. sér að koma með nýjar og kostnaðarsamar till. Þjóðin getur sjálf dæmt um hvort það er ábyrgur flutningur eða ekki. Ég ætla ekki að eyða orðum í að dæma um það.

Ég talaði aldrei um að það væri óþörf till. sem hér væri flutt. Ég talaði um það í upphafi máls míns, og vitnaði í till. sjálfa, að ég teldi það sjálfsagt verkefni ríkisstj. og þeirra manna sem fara með þessi mál, þ.e.a.s. útbreiðslu á sjónvarpi og hljóðvarpi um landið allt, að vinna að þessum málum með þeim hraða sem fé leyfir hverju sinni. Þar af leiðandi er þessi till. óþörf í sjálfu sér. Ég taldi hana ótímabæra og það er dálítið annað en óþörf. Ég tel þetta rangfærslu sem er ekki samboðin hv. þm.

Það upplýstist frá einum stjórnarmanni Byggðasjóðs að hann gæti ekki, þ.e.a.s. sjóðurinn, tekið á sig viðbótarverkefni, og þetta er hv. flm. vel kunnugt um. Ég tel mig alls ekki hafa verið þarna neitt annað en málefnalegan. Og ég vil ítreka það, að ég mun standa að till. til að auka þægindi og skapa þá þeim sveitabæjum og helst sem allra flestum eins mikil þægindi og reykvíkingar búa við hverju sinni. En það verður að fara eftir getu þjóðarinnar hverju sinni hvernig að fjárframkvæmdum er staðið.

Hv. þm. Ingiberg J. Hannesson flutti hér hjartnæma ræðu um það, hvað þörfin fyrir litasjónvarp eða fyrir sjónvarp, fyrirgefið, sé mikil fyrir einstæðinga sem eiga heima langt upp til dala, — ekki endilega litasjónvarp, en það getur komið að því að krafan verði um það seinna meir, og ég vona að þegar að því komi, þá verði búið að fullnægja kröfunni um sjónvarp. Það er út af fyrir sig enginn ósammála um það. Það kom ekki fram í minni ræðu að ég væri ósammála um þörfina fyrir sjónvarpstæki inn á hvert einasta heimili í landinu. Spursmálið er enn þá fjármögnunin. Við viljum gera allt, en við verðum að hafa efni á því. En hv. þm. sagðist leiða fjármögnunina alveg hjá sér! Það er það sem verið er að gera þegar svona till. eru fluttar. Það er það sem ég tel alvarlegt. Það er spursmálið um hvenær við höfum efni á framkvæmdum, en ekki hvort við viljum framkvæma.

Ég vil þá að lokum svara hv. 3. þm. Norðurl. v., Páll Péturssyni. Ég var ekki að gæta hagsmuna minna umbjóðenda. Ég tala hér stundum um reykvíkinga þegar er verið að leggja á þá álögur sem ég tel óréttlætanlegar. Ég er bara að tala um álögur á þjóðina alla. Við erum öll á sama báti. Við erum öll í vanda stödd fjárhagslega og ekki síst í dag, þar sem allt atvinnulíf er lamað vegna þess að atvinnuveitendur hafa ekki bolmagn til að standa undir mannsæmandi launum fyrir fólkið. Ég kalla það ekki mannsæmandi laun. Það kom fram í sjónvarpsþætti í fyrrakvöld í samtali við verkamann, sem virtist vinna í Hampiðjunni, að hann hefði 54 þús. kr. á mánuði. Ég held að við séum þannig stödd efnahagslega að við eigum ekki hér á Alþ. að vera að koma með kostnaðarsamar till. sem við vitum að eru sýndarmennska vegna þess að við höfum ekki efni á að framkvæma þær. — Hann talaði líka um að meginatriðið væri framkvæmdarhraði. Það er það sem ég er alveg sammála honum um. Þarna er komið að sama málinu allan tímann, það er fjármögnunin. En ég skildi ekki almennilega hugmynd hans um fjármögnun, að það ætti að taka prósentur af afnotagjöldunum. Ég veit ekki hvort ég átti að skilja að það ætti að bæta einhverju gjaldi ofan á afnotagjöldin eða hvort á að taka einhverja ákveðna prósentu af afnotagjöldunum eins og þau eru í dag. Ef Ríkisútvarpið — sjónvarpið — þolir þann tekjumissi, þá get ég fyrir mína parta vel samþ. það. En ég efast um að fjárhagur útvarps eða hljóðvarps, eins og það er víst kallað núna, og sjónvarps sé þannig að það sé hægt að taka frá því eitthvað af þeim afnotagjöldum sem það hefur í dag og telur sig þurfa.