17.02.1976
Sameinað þing: 52. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1961 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

114. mál, sjónvarp á sveitabæi

Páll Pétursson:

Herra forseti. Út af orðum hv. 12. þm. Reykv. um till., sem væru sýndarmennska, vil ég láta það í ljós, að ég tel að við höfum efni á að framkvæma þetta verk og ég tel að okkur beri skylda til að gera það. Ég mun ekki rökstyðja það nánar á þessum vettvangi hér, því að það eru aðrir sem hafa drepið á það, að við erum ein þjóð í þessu landi okkar og við eigum að reyna að hafa aðstöðu þegnanna sem jafnasta á allan hátt. Ég hygg að svo kunni að fara að sjónvarpsgjöld þyrftu eitthvað að hækka. En ég held líka að í rekstri sjónvarpsins mætti spara þannig að einhverjum prósentum næmi og þyrfti ekki að ganga eins langt og segir í frv. þeirra í Ed. um að leggja 10% viðaukagjald á afnotagjald af hljóðvarpstækjum, eins og það er ákveðið hverju sinni vegna annarra fjárþarfa Ríkisútvarpsins, og skuli því fjármagni varið til framkvæmda á sviði hljóðvarps. Einnig skuli leggja 10% viðaukagjald á afnotagjald af sjónvarpstækjum, eins og það er ákveðið hverju sinni vegna annarra fjárþarfa Ríkisútvarpsins, og skuli því fjármagni ráðstafað til framkvæmda á sviði sjónvarps. Ég held að það þurfi ekki að hafa þessa tölu svona háa. En ég held að það þurfi að merkja til uppbyggingar dreifikerfisins ákveðna upphæð.

Ég styð þessa till. til þál. um aðstoð Byggðasjóðs. En ég vil leyfa mér að bera fram við hana skriflega brtt. sem er á þessa leið:

„Í stað orðanna „Í þessu skyni skal leita til Byggðasjóðs um óafturkræft framlag“ komi: Í þessu skyni skal leita til byggðasjóðs um lánsfé þar til fjár hefur verið aflað með öðrum hætti.“

Mér finnst endilega að það sé skynsamlegt að fara þessa leið, vegna þess að mér finnst útvarpið eiga að vinna verkið og greiða verkið, en hins vegar þurfi að aðstoða það við að framkvæma verkið, t.d. með því að Byggðasjóður hlaupi undir bagga. Ég held að einmitt á þennan hátt verði fljótast og best unnið að framkvæmdum.