17.02.1976
Sameinað þing: 52. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1961 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

114. mál, sjónvarp á sveitabæi

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég er einn af þeim sem telja ekki vansalaust hve lítið hefur þokast að koma sjónvarpinu út um landið. Það eru orðin, held ég, 2–3 ár síðan t.d. átti að setja upp senda á vissum stöðum á landinu og það hefur ekki enn þá verið gert. Fólkið var búið að kaupa tæki í þeirri trú að við þetta yrði staðið, en fjármagn hefur ekki verið talið vera fyrir hendi til að vinna þetta verk. Ég held að á ýmsum stöðum sé sjónvarpið þannig, að það sé svo léleg mynd, aðstaðan sé svo slæm, að ég er ekki viss um að þeir, sem eru hér á Reykjavíkursvæðinu, mundu sætta sig við að borga t.d. full afnotagjöld af slíkri þjónustu. En þetta verður fólkið úti í strjálbýlinu víða að gera. Ég veit ekki betur en þeir, sem eru búnir að kaupa tæki, t.d. úti um land, hafi staðið að því eins og aðrir með tollum og afnotagjöldum af sínum sjónvarpstækjum að koma sjónvarpinu á þá staði sem það er sæmilegt nú og þeir eigi siðferðilega heimtingu á að fá líka sjónvarp til sin. Ég held að það verði þá bara að hækka gjöldin á öllum til að ljúka þessu verkefni, það sé réttlátasta og eðlilegasta leiðin. Ég vænti þess, að það verði farið að vinna að því og gera sér grein fyrir hvað það er mikið fjármagn sem til þess þarf að ljúka þessu verkefni. Og það þarf auðvitað að gera áætlun um það, hvað hægt er að ljúka því á löngum tíma, og afla fjár til þess.

Við höfum heyrt raddir um það, gerðum það a.m.k. í gamla daga þegar var verið að koma rafmagninu út um dreifbýlið, þá heyrði maður það, að einhver sagði hér í Reykjavík að það þyrfti ekki að lýsa upp fátæktina. En ég vona að þeir tímar séu liðnir og hv. alþm. hugsi yfirleitt þannig, að í þessum málum eins og í ýmsum öðrum eigi að minnka aðstöðumuninn og sjá til þess að menn geti orðið þessara og annarra þæginda aðnjótandi hvar sem er á landinu.

Það er alveg rétt að það eru erfiðleikar í þjóðfélaginu þessa stundina. En við megum ekki mikla þá svo fyrir okkur að við hættum að þora að hugsa eitthvað fram í tímann og taka ákvarðanir um að halda áfram þróuninni. Ég held að við megum ekki mikla svo hlutina fyrir okkur.

Ég tel að þessi till. eigi fullan rétt á sér. Hins vegar hefði ég viljað hafa hana á annan veg. Ég held að sjónvarpið og útvarpið eða þau gjöld, sem þegnarnir borga til að reka þau, eigi líka að borga þann kostnað sem af því leiðir að koma dagskránni sómasamlega til þjóðarinnar. Það er sjálfsagt rétt hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., að það má spara ýmislegt í rekstri bæði útvarps og sjónvarps, og þá væri athugandi að fara ofan í saumana á því, hvort það væri ekki hægt að spara einhverjar milljónir á rekstrinum, gera þetta sem sagt á þann veg og svo leggja á fyrir því sem vantar. Þannig eigum við að standa að þessu máli.