17.02.1976
Sameinað þing: 52. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (1640)

114. mál, sjónvarp á sveitabæi

Stefán Jónason:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð um mál þetta. — Ég vil vekja athygli á því, að við stríðslok síðustu tókst Ríkisútvarpinu á einum 4 árum að koma sér upp myndarlegum sjóði með því að marka ákveðinn hluta af afnotagjöldum — sjóði sem nægt hefði til þess að byggja og kosta að öllu smíði útvarpshúss sem nú er talið, miðað við núverandi verðlag, að mundi kosta tvo milljarða. Með svo skjótum hætti tókst Ríkisútvarpinu með heimild frá Alþ. til þess að hækka eðlilega afnotagjöld sín í 100 kr. á ári úr 60 kr. og marka 44 kr. af heildargjaldinu til sjóðsöflunar, — með svo skjótum hætti tókst Ríkisútvarpinu að koma sér upp slíkum sjóði. En svo var búið að teikna húsið. Og það var á þeim dögum þegar Landsbankinn stimplaði sem innistæðulausar ávísanir frá ríkissjóði árin 1948 og 1949, þá var náttúrlega þessi sjóður Ríkisútvarpsins tekinn til annars konar framkvæmda og honum skilað mjög seint aftur og svo illa að hann var orðinn harla verðlítill.

Ég er eins og síðasti ræðumaður þeirrar skoðunar að það eigi að láta Ríkisútvarpið sjálft um að bæta dreifikerfi sitt. Ég er efalaus um að það yrði metnaðarmál þeirrar stofnunar að koma sjónvarpsdagskránni á hvert sveitabýli ef Ríkisútvarpinu væri aðeins heimilað að afla á eðlilegan hátt þeirra tekna sem til þess arna þarf. Ég starfaði við Ríkisútvarpið í tíð þriggja útvarpsstjóra sem allir höfðu þetta sem metnaðarmál: að bæta dreifikerfi Ríkisútvarpsins. Og alveg er ég efalaus um það, að hefðu þeir fengið að ráða og þau útvarpsráð, góð eða slæm eftir ástæðum, sem sátu þennan tíma, þá hefði ég ekki þurft að þola það frá sjö ára aldri til fimmtugs að ekki heyrðist útvarp sæmilega á öllu Austurlandi og nær gervöllu Norðausturlandi, eins og nú er.

Ég heyrði fyrst í útvarpi árið 1930. Þá heyrðist illa í útvarpi á Austurlandi. Það heyrist ekki miklu betur í útvarpi á Austurlandi núna heldur en heyrðist þá — ekki miklu betur. (Gripið fram í: Það heyrðist illa í Reykjavík á þeim tíma.) Það fer náttúrlega eftir heyrn hvers og eins talsvert, en þó hygg ég að músíkprógram hafi komist þá þegar svona sæmilega til skila í húsakynni reykvíkinga. Útvarpið heyrist ekkí enn þá á Austurlandi þannig að menn geti hlustað á konserta sér að gagni. Eftir kl. 8 á kvöldin heyrist á stórum stöðum varla mælt mál svo að skiljanlegt sé. Ég lít enn þá svo til. að meðan þetta tiltölulega einfalda tæknilega vandamál er óleyst, þá þurfum við, með fullri virðingu og umhyggju fyrir einstökum sveitabæjum þar sem ekki sést sjónvarp, a.m.k. jafnframt að hugleiða lausn á þessu vandamáli sem lýtur að útvarpinu sjálfu.

Nú vill svo til að samkv. upplýsingum sem ég hef frá tæknifróðum mönnum, m.a. á vegum Ríkisútvarpsins, lægi beint við að leysa samtímis þessi vandamál, þ.e.a.s. dreifingu hljóðvarps með últrabylgjum og sjónvarps, og færi þá saman að hægt yrði að koma lýtalausu útvarpsefni til hinna ýmsu staða og sjónvarpsefninu.

Ég veit ekki, af því að ég hef verið hér skamma hríð í sölum Alþ., hversu ungir menn hafa heimild til að vera, hversu ungir menn mega vera í mati sínu á sögulegum félagslegum aðstæðum á landi hér. Ég sé nú að hv. þm. Ingiberg J. Hannesson er farinn héðan. Ég ætlaði aðeins að vekja athygli á því atriði, að fyrir 20 árum var náttúrlega líkt ástatt í sveitum landsins og nú er. Þar sátu einyrkjar, karl og kerling með börn sín, og þá var fólksfæðin svipuð og nú er á einstökum bæjum. Þá hygg ég aftur á móti að löggjafinn hafi þrátt fyrir allt verið fáanlegur til að leggja meira af mörkum fyrir þetta fólk heldur en nú er, og umfram alla muni, þá hygg ég jafnvel að á þeim tíma þegar áhrifa sósíalista gætti kannske ekki öllu meira en núna, en meðan áhrifa félagshyggjumanna í hópi framsóknarmanna gætti meira en nú á Alþ., þá hygg ég að engum hafi komið til hugar að leysa svona mál á kostnað reykvíkinga sérstaklega. Þetta er áleitinn misskilningur hjá sumu fólki, — við nefnum engin nöfn til þess að valda ekki misskilningi, —þegar minnst er á ráðstafanir til þess að bæta stöðu fólksins í dreifbýlinu, koma henni eitthvað í áttina við það sem hún er í þéttbýlinu að ýmsu leyti, þá hrökkva menn upp, slá því bara alveg föstu að þetta verði gert á kostnað reykvíkinga. Í ákaflega mörgum tilfellum er hægt að bæta félagslega stöðu fólksins úti á landi án þess að skerða félagslega stöðu fólks annars staðar, meira að segja án þess að það kosti þéttbýlisfólkið nokkurn skapaðan hlut annan en jákvæð viðhorf og góðvilja.

Ég sé að hv. þm. Albert Guðmundsson hefur tekið þetta til sín. Ég meinti þetta ekki sem gagnrýni á hann. Af kynnum mínum við hann þykist ég geta gengið út frá því sem vísu að hann verði manna fyrstur til þess að ljá líð góðum málum sem stuðla að bættri aðstöðu í dreifbýlinu, að því tilskildu sem það kosti ekkert fyrir umbjóðendur hans.