17.02.1976
Sameinað þing: 52. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1967 í B-deild Alþingistíðinda. (1641)

114. mál, sjónvarp á sveitabæi

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þyrfti að fá leyfi til að hafa þetta heldur meira en stutta aths., þar sem þm. bætast hér í salinn hvað eftir annað og gera aths. án þess að hafa hlustað á málflutning sem á undan er genginn.

Ég vil taka það strax fram, að það er misskilningur hjá hv. 5. þm. Norðurl. e., Stefáni Jónssyni, að ég hafi talað um að þetta verkefni, sem hér er nú til umr., ætti að vera á kostnað reykvíkinga sérstaklega. Það er rétt hjá honum, ég tók til mín þegar hann hvessti á mig augun og lét þau orð falla áðan. Ég var að vara við, — ég sé ekki að tími minn leyfi að ég endurtaki það, — ég var að vara við þeirri miklu skuldasöfnun sem hefur átt sér stað í þjóðfélaginu. Ég tók fram, hvernig hún hefur orðið til. Og þegar þm., hvort sem þeir eru reykvíkingar eða aðrir, koma með kostnaðarsamar till. á tímum sem við lífum nú fjárhagslega sem þjóð, þá eru það sýndartill. Þetta get ég útskýrt aftur ef forseti gefur mér tíma til að gera það, en ég reikna ekki með því. Ég sé ekki ástæðu til að svara hv. 9. landsk. neitt frekar en ég gerði um daginn. Ég vildi gjarnan sjá hana búsetta í sínu kjördæmi, en það er annað mál. En ég hef ekki hugsað mér að flytja út á land.

Hvað Keflavíkursjónvarpið snertir, þá sé ég ekki heldur ástæðu til að draga það inn í þessa mynd sem við erum hér að mála af sjónvarpsþörf úti á landi. En ég held að ég fari með rétt mál, að í Reykjavík er ríkjandi talsvert verðeftirlit á öllum hlutum. Og ef steik kostar 3000 kr. einhvers staðar, þá held ég að ég fari að daðra við þá hugmynd að þeir, sem framleiða kjötið, geti komið sér upp sínum eigin sjónvarpsstöðvum. En hvort er rétt hjá hv. 9. landsk. þm. að draga þetta mál inn í myndina skal ég ekki segja um.

En hér talaði bankaráðsmaður eins af ríkisbönkunum með mikilli athygli (Gripið fram í.) Hver er það? segir einhver. Það er bankaráðsmaður Búnaðarbankans, það er hv. 3. þm. Norðurl. e. Hann talaði um það rétt eins og aldrei hafi verið til fátækt í Reykjavík, að sumir — hefur líklega átt við þm. Reykjavíkur þess tíma — hafi talið óþarfa að lýsa upp fátæktina á landi. Ég get upplýst þennan hv. þm. um það, að hér var talsverð fátækt fram eftir öllu og fram til 1939 að stríðið byrjaði og sú verðbólga hófst sem kannske hefur farið úr böndum. Fátæktin hefur verið víðar en úti á landi. Hún er ekkert sérfyrirbæri fyrir fólk úti á landi. Hún er líka þekkt í Reykjavík, hún er þekkt enn í dag, það get ég fullvissað viðkomandi um.

En hann sagði annað, — ég verð að hlaupa yfir flest af því sem hann sagði, því að það er ekki þess virði að svara því mörgum orðum, — en hann sagði annað sem sló mig og ég held að hann hafi ekki átt að segja. Hann sagði: Við erum hættir að hugsa fram í tímann – og þess vegna værum við á móti þeirri þróun, sem hér væri til umr., að reisa sjónvarpsstöðvar og fara út í kostnaðarsamar framkvæmdir. Ég skal endurtaka þetta. Hann sagði að við værum hættir að hugsa fram í tímann. Þessi orð skrifaði ég orðrétt eftir hv. þm. En ég held að við ættum að fara að hugsa fram í tímann, því að eins og ástatt er og ég taldi upp áðan, með þeirri skuldasöfnun og hvernig við stöndum í skilum sem þjóð með síauknum erlendum lánum, þá ættum við að fara varlega í framkvæmdir eins og þær sem hér er um að ræða, þrátt fyrir það að ég viðurkenni að þær eru nauðsynlegar strax og við höfum efni á. Auðvitað á fólkið úti á landi að búa við eins góð skilyrði og hægt er og sem fyrst eins nálægt þeim skilyrðum sem eru hér í Reykjavík. En náttúrlega er samtakamáttur fjöldans alltaf meiri heldur en fámennisins. Það er aldrei hægt að jafna það alveg. Það er ekki hægt, alveg sama hvaða góðvilja við höfum til þeirra sem búa inni í innstu dölum, við getum aldrei gefið þeim alla þá þjónustu sem fæst í höfuðborgum hvers lands fyrir sig. Það þýðir ekkert að hugsa svona. En hv. 3. þm. Norðurl. e. endaði mál sitt með því að æpa inn í hljóðnemann: Bara að leggja á. — Og það er það sem ég hef verið að vara við.