18.02.1976
Neðri deild: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1979 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

113. mál, álbræðsla við Straumsvík

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það hafa nú orðið alllangar umr. um þetta mál og er út af fyrir sig ekkert að undra á því. Hér er auðvitað um mikið mál að ræða. En þó verð ég að játa það, að ég bjóst ekki við að umr. yrðu alveg svona víðfeðmar, svona miklar eins og þær hafa orðið. Ég hef ekki tekið þátt í þessum umr. Ég taldi að þessu máli mundi nokkurn veginn ljúka með þeirri vinnu sem lögð var í það í iðnn., þar sem ég á sæti, og bjóst ekki við því að umr. yrðu alveg svona víðfeðmar eins og þær hafa orðið. En vegna þess einmitt hvernig umr. hafa lagst, þá finnst mér rétt að segja hér nokkur orð eða gera smáathugasemdir í sambandi við þetta mál.

Eins og fram kemur í nál. stend ég að áliti meiri hl. ásamt hv. þm. Þórarni Þórarinssyni. Við höfum stutt álitið í þeirri trú og þeirri vissu að þetta sé til hagsbóta þegar á heildina er lítið. Ég tel að þessi breyt., sem hér er rætt um, feli þó í sér vissar endurbætur á álsamningnum frá 1968, og mér finnst það vera nokkuð mikið atriði, að það er gerð tilraun til þess nú loksins að bæta nokkuð úr þeim ágöllum sem voru á þessum samningum við Alusuisse fyrir 10 árum. Þess vegna finnst mér eðlilegt að vera meðmæltur þessu frv.

En af því að álsamningana almennt hefur borið hér mjög á góma, vil ég taka það alveg skýrt fram að það er fjarri því að við þessar breyt. verði álsamningarnir — upphaflegu álsamningarnir — fullkomnir. Mín skoðun er alveg óbreytt um það, að álsamningarnir hafi verið stórgallaðir þegar þeir voru gerðir.

Eins og hér hefur verið rifjað upp nú af einum hv. þm., þá átti ég sæti á Alþ. fyrir 10 árum og var í þeirri n., sem fjallaði sérstaklega um þetta mál og var kölluð álbræðslunefnd, og ég var fulltrúi míns flokks í þeirri n. með hv. þm. Þórarni Þórarinssyni. Við eigum báðir enn sæti í iðnn. Við höfðum aðstöðu til þess að fylgjast vel með þessu máli, og þá sendum við frá okkur mjög ítarlegt nál., sem fór í þá átt að við vorum andvígir þessum samningum þá. Ég hef ekki breytt um skoðun á þessu máli síðan, og ég hygg að hið sama gildi um félaga minn, Þórarin Þórarinsson, hann hafi ekki heldur skipt í sjálfu sér neitt um skoðun á þessu máli. En ég vil benda á það hins vegar, að við stöndum nú frammi fyrir gerðum hlut. Það var á sínum tíma samið við Alusuisse. Álbræðslan er staðreynd í dag, við verðum auðvitað að standa frammi fyrir því og við hljótum að gera okkur ljóst að hún verður ekki lögð niður á næstunni, hvað sem verða kann þegar samningstíma er lokið. Og ég teldi það ákaflega undarlegt og í rauninni fáránlegt ef við höfnuðum endurbótum á viðskiptum okkar við Alusuisse. Hins vegar teldi ég æskilegt að það væru gerðar miklu fleiri endurbætur á þessum gömlu samningum, því að enn þá stendur það, sem við sögðum hér fyrir 10 árum, að það væri margt mjög óviðfelldið í þessum samningum, og sú skoðun mín hefur ekki breyst neitt með árunum. En það er eins og oftar, að það er hægara að koma á einhverju ástandi heldur en að breyta því, en ég fagna þeim breytingum sem eru til bóta.

Ég kemst ekki hjá því vegna þess, hvernig þessar umr. hafa lagst, að minna svolítið á afstöðu okkar framsóknarmanna almennt til álsamningsins 1966, hver afstaða okkar var þá. Hún var sú, að við vildum hafna álsamningunum, og það var af ótalmörgum ástæðum og margvíslegum ástæðum sem við töldum að þessir samningar væru óhagstæðir, óviðfelldnir og slíkir að það ætti ekki að ganga að þeim. Í fyrsta lagi er það svo, að framsóknarmenn eru og hafa verið andvígir stóriðjurekstri útlendinga, nema þá í alveg sérstökum undantekningartilfellum og með mjög ströngum skilyrðum. Þá töldum við líka orkusamninginn óhagstæðan. Við vorum á móti þeirri skattlagningaraðferð sem beitt var og valin var í þessu tilfelli. einkum þó hvernig að því var staðið, hvernig aðferðirnar voru við að finna út framleiðslugjaldið. Við gátum ekki heldur fellt okkur við að taka ágreiningsmál út af samningunum undan íslenskri lögsögu, sem raunar er gert. Við vorum þannig á móti gerðardómsákvæðunum og okkur þótti þau vera óviðfelldin, ekki viðeigandi. Við vorum á móti því, að Íslenska álfélagið nyti víðtækra tollfríðinda, bæði hvað snerti efni og tæki til byggingar álversins, og einnig að erlendir starfsmenn nytu tollfríðinda í sambandi við innflutning á heimilismunum. Og við töldum óeðlilegt og óvarlegt að undanþiggja álbræðsluna þeirri kvöð að byggja gaseyðingartæki á verksmiðjuna. Þetta eru nokkur atriði sem ég vil minna á í sambandi við þessa upphaflegu samninga, að því fer víðs fjarri að við framsóknarmenn höfum breytt í nokkru skoðun á því að þessir álsamningar, eins og þeir voru gerðir 1966, hafi verið óheppilegir. Hins vegar tel ég að sú breyting, sem hér liggur fyrir í frv.-formi, sé til bóta, þó að því fari fjarri að þarna sé um að ræða einhverja fullkomna endurskoðun á þessum samningum. En ég held þó að þetta frv. miði í rétta átt, þó að stutt gangi. Ég held að það bæti að nokkru úr ágöllum upphaflegu samninganna. Ég a.m.k. tel liggja ljóst fyrir, að nú sé samið um hagstæðara orkuverð, og ég er sannfærður um að þau ákvæði, sem nú eiga að gilda um framleiðslugjaldið, eru miklu hagfelldari en áður var. Það er búið að lagfæra þessi ákvæði þannig, að við getum vel við það unað, og þau eru í rauninni komin í það form núna sem ég hygg að við framsóknarmenn höfum á þeirri tíð bent á að vera skyldi.

Hér hefur verið mikið deilt um orkuverðið og ég skal ekki taka mikinn þátt í þeim deilum, en ég býst við að það kunni að vera að einhverju leyti rétt, sem hv. 2. þm. Austurl. hefur látið hér uppi, að orkuverðið sé lágt miðað við kostnaðarverð nú. Ég býst við að það megi leiða að því rök. Vissulega fær álbræðslan enn orkuna á mjög svo lágu verði. Það er út af fyrir sig alveg rétt. Og því miður er haldið við forréttindaaðstöðu, sem þetta fyrirtæki hefur, sem þessi erlendi stóriðnaður hefur. Þessari forréttindaaðstöðu er haldið áfram, ef miðað er við þau kjör sem iðnaðurinn almennt í landinu hefur. En sem sagt, þó að ég fylgi þessu frv., sem hér liggur fyrir, er ég alls ekki að lýsa fylgi mínu við slík forréttindi stóriðjunnar yfirleitt, hvort sem hún er alútlend eða hálfinnlend, eins og járnblendiverksmiðjan á að verða eða er. Ég held að það sé mjög óheppilegt að veita stóriðnaði sérréttindi fram yfir almennan iðnað. Ég tel það í rauninni hættulega stefnu og ég mun standa gegn henni að svo miklu leyti sem mér er unnt.

Ég benti á það í ræðu minni á síðasta þingi. þegar ég talaði hér í járnblendimálinu, að ef íslenskur framleiðsluiðnaður almennt nyti sömu kjara um orkuverð og tollfríðindi og stóriðnaðurinn í Straumsvík og svo þessi fyrirhugaða járnblendiverksmiðja, þá mundi íslenskur iðnaður blómgast og verða samkeppnisfær á erlendum mörkuðum. Ég hef lengi haft sannfæringu fyrir því, að það er ekki hægt að byggja upp útflutningsiðnað hér á landi öðruvísi en að veita innlendum iðnaði slík kjör eða sem næst því. Að mínum dómi ætti iðnaðurinn auðvitað að gera harða kröfu á ríkisvaldið í þessa átt. Það eru því gleðitíðindi, sem hv. 2. þm. Austurl. benti á í sinni ræðu, að forustumenn iðnaðarins eru að átta sig á því að þetta ætti að vera öflug krafa iðnaðarins. Bæði Davíð Scheving Thorsteinsson, formaður Félags ísl. iðnrekenda, Og Erlendur Einarsson, forstjóri SÍS, hafa hreyft þessari kröfu nú alveg á síðustu vikum. Og ég álít, að ríkisvaldið eigi að hlusta á þessar kröfur iðnaðarins.

En svo ég snúi mér aftur að efni þessa frv., þá eru í því þrjú höfuðatriði. Það er samið um breytingu á orkuverði, það er samið um breytingu á framleiðslugjaldi og það felur í sér heimild fyrir Álfélagið að stækka álbræðsluna um 20.7 þús. tonn og loforð um aukna orkusölu upp á 20 mw. Ég ætla aðeins hér að minnast á þessa stækkun. Ég ætla ekki að minnast meira á framleiðslugjaldið og orkuverðið, en mig langar hér að minnast örlítið á þessa stækkun.

Þegar kom til þess fyrir mig að taka afstöðu til stækkunarheimildarinnar, þá var það fyrst og fremst eitt atriði sem ég vildi fá úr skorið og það var um mengunarvarnirnar, því að það er ekkert launungarmál að það var sýnd linkind í upphaflega samningnum frá 1966 hvað þetta snerti, þá var sýnd hrein linkind í þessu máli. En að vissu leyti var þetta kannske afsakanlegt á þeirri tíð vegna þess að þá vissu menn miklu minna um iðnaðarmengun en menn vita nú. Og óneitanlega hefur það tekið óhæfilega langan tíma að koma upp gaseyðingartækjum í álverinu. Þó finnst mér rétt að geta þess, að bað var gerð virðingarverð tilraun í þessu máli á árunum 1972–1974, en sú tilraun mistókst. Ég held að öllum hv. þm. hljóti að hafa verið kunnugt um þessa viðleitni Álfélagsins og það sé ekki nein ástæða til að vanmeta hana.

Ég fylgdi því mjög fast eftir í iðnn. að mengunarvarnirnar yrðu sérstaklega ræddar þar og kannaðar, enda komu strax fram óskir um það frá Náttúruverndarráði, og fulltrúar Náttúruverndarráðs og fulltrúi frá Heilbrigðiseftirlitinu mættu á fundi iðnn. og þar voru þessi mál mjög rækilega rædd. Því miður var þetta frv. þannig úr garði gert að þar var mjög litlar upplýsingar að finna, í grg. sjálfs frv., um fyrirhugaðar mengunarvarnir álbræðslunnar, og ég held að það liggi alveg á borðinn, að ég hefði ekki fylgt þessu frv. ef ekki hefði komið fram fullnægjandi grg. um mengunarvarnir. En eins og fram kemur á fskj., sem fylgir nál. okkar meirihlutamanna, barst skýrsla frá Íslenska álfélaginu og þar kemur fram að verið er að vinna að því að koma upp þurrhreinsibúnaði svokölluðum til gaseyðingar. Það er fullkomnasta tæki sem völ er á í þessu skyni og er áætlað að þessi tæki verði tekin í notkun eftir tvö ár eða 1978. Um það fjallar áætlun fyrirtækisins. Eftir að þetta bréf kom fram sá ég ekki ástæðu til að véfengja það sem þeir höfðu um þetta að segja. Ég sá enga ástæðu til þess. Það verður þá að sýna sig hvað íslenska álfélagið gerir í því að efna þetta. Ég treysti því á þessari stundu að svo verði. Það kemur einnig fram í þessu bréfi, að sú fyrirhugaða nýbygging eða viðbót, sem á að byggja við álverið, verður búin slíkum hreinsitækjum frá upphafi. Það voru þessar upplýsingar sem höfðu úrslitaáhrif á afstöðu mína til þessa máls.

Mér þótti rétt, herra forseti, eins og þessar umr. hafa fallið, að gera grein fyrir afstöðu minni, þó að hún komi út af fyrir sig skýrt fram í því að ég skrifaði undir meirihluta álitið. En þetta mál hefur verið rifjað upp á svo almennum grundvelli, að ég sá mér ekki annað fært en að lýsa minni almennu afstöðu til álsamninganna í upphafi og til stóriðju yfirleitt, erlendrar stóriðju, sem ég er persónulega andvígur og tel að ætti að grandskoða í hverju tilfelli mjög gaumgæfilega áður en ráðist er í,

og raunar ætti helst aldrei að ráðast í slíkan iðnað, heldur ættum við að snúa okkur að því að beggja hér upp íslenskan smáiðnað, margs konar smáiðnað, og veita þá iðnaðinum í því sambandi þau góðu kjör, bæði um orku, tollfríðindi og kannske fleira, sem erlendri stóriðju eru veitt. Ég tel að það sé mjög óeðlilegt að veita erlendri stóriðju yfirleitt slík forréttindi, og þess vegna er ég andvígur því almennt talað að ráðist sé í slík fyrirtæki.