18.02.1976
Neðri deild: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1983 í B-deild Alþingistíðinda. (1654)

113. mál, álbræðsla við Straumsvík

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Síðan ég talaði síðast í þessu máli hafa orðið þó nokkrar umr. um málið og ýmislegt komið hér fram sem ég vildi gjarnan víkja að. Það er sérstaklega það sem hefur komið fram í máli hv. 1. þm. Suðurl., Ingólfs Jónssonar, frsm. meiri hl. iðnn., þær athugasemdir sem hann hefur gert við mitt mál og reyndar annarra líka, sem gefur mér nokkurt tilefni til að víkja að ýmsum aðalatriðum málsins.

Í mínu máli lagði ég á það aðaláherslu, að mér sýndist að sú endurskoðun, sem fram hefði farið á álsamningnum við ÍSAL, hefði ekki borið tilætlaðan árangur, einkum á þann hátt að þeir samningar, sem nú væri beðið um staðfestingu á varðandi raforkuverð, fælu í rauninni ekki í sér neina teljandi hækkun á raforkuverði frá því sem áður hefur verið. Að þessu atriði vék hv. 1. þm. Suðurl., Ingólfur Jónsson, nokkuð, en varðist þó með öllu að víkja að mínum röksemdum varðandi þetta mál. Í málflutningi sínum sagði hv. 1. þm. Suðurl. að ýmsir hefðu hér uppi rangan málflutning varðandi mat á raforkuverðinu á þeim grundvelli að menn töluðu um að álverið fengi rúmlega 50% af allri raforku Landsvirkjunar, en greiddi hins vegar ekki nema í kringum 10% af verði þeirrar orku sem seld væri af Landsvirkjun, og hann vildi telja að hér væri verið að jafna saman nokkuð misjöfnum hlutum. Á þetta atriði minntist ég ekki einu orði í minni ræðu, — ekki einu orði. Ég veit, að það er vel hægt, og kannast vel við það af málflutningi hv. 1. þm. Suðurl., Ingólfs Jónssonar, að það er hægt að halda uppi langri spilamennsku, heilmikilli lönguvitleysu, með því að ræða málið á þennan hátt og villa um a.m.k. fyrir velflestum. En ég kaus að ræða málið á öðrum grundvelli, á þeim grundvelli sem ég vissi að væri heldur óhægt fyrir þá, sem reyna að verja þetta verð, að víkja sér undan að taka afstöðu til vegna þess að þar liggja fyrir ummæli Landsvirkjunar sjálfrar og fyrri upplýsingar sem hafa verið gefnar á Alþingi.

Í máli mínu benti ég á að það lægju fyrir ákveðnar upplýsingar um það, hvað væri talið vera framleiðslukostnaðarverð á raforku nú frá okkar hagstæðustu virkjunum, og það lægi m.a. fyrir umsögn frá verkfræðideild Landsvirkjunar um það, hvað hún teldi vera framleiðslukostnaðarverð á tilteknum grundvelli reiknað út á þeirri raforku sem nú væri hægt að framleiða á Íslandi. Ég vitnaði í þessum efnum til þess sem Landsvirkjun sagði í grg. sem fylgdi frv. sem, lá fyrir Alþ. fyrir stuttu varðandi raforkusölu til járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði. Í umsögn Landsvirkjunar stóð þar, og það var þetta sem ég las hér upp, úr þeirri grg., og skal gera aftur. Í grg. þeirra segir orðrétt á þessa leið:

„Þá hefur verkfræðideild reiknað út-svokallað kostnaðarverð á raforku frá Sigöldu og Hrauneyjafossi. Sé reiknað með 40 ára annuitet og 9.1% reiknivöxtum og jafnframt gert ráð fyrir því, að rekstrarkostnaður sé 0.5% og vextir á byggingartíma 12% af stofukostnaði, kemur út verðið 9.4 mill kwst. á forgangsorkunni.“

Og síðan segir áfram í þessari sömu grg., að á sama hátt megi reikna með því að afgangsorkan ætti að reiknast á 0.5 mill eða nánar tekið eftir þeirra útreikningum 4.95 mill.

Hér var um það að ræða að gerð var grein fyrir okkar hagstæðustu virkjunum sem nú liggja fyrir: Sigölduvirkjun, sem valin hafði verið og búið var að standa að framkvæmd á að hálfu leyti og rúmlega það, en síðan tekin næsthagstæðasta virkjunin sem þá lágu athuganir fyrir um, en það var Hrauneyjafossvirkjun, þær lagðar saman, reiknað út hvað væri framleiðslukostnaðarverð á orkunni frá þessum orkuverum, það miðað við 40 ára rekstur og vaxta- og kostnaðargreiðslur sem allir vita að eru langt undir því sem er nú orðið í dag. Það leikur því enginn vafi á því, að það verður að telja framleiðslukostnaðarverð á raforku í dag eitthvað yfir 10 mill eða eitthvað yfir kr. 1.70 á kwst., sennilega, eins og ég sagði, ekki undir því að vera 11–12 mill eða kr. 1.80 og allt upp í 2 kr. á kwst. Þetta kemur líka alveg saman við það sem orkumálastjóri hefur gefið út frá sér varðandi framleiðslukostnaðarverð frá öðrum hagstæðum virkjunum. Þetta eru þær staðreyndir sem ég legg á borðið. Þetta eru þær staðreyndir sem við verðum auðvitað að taka afstöðu til. Spurningin er þá: Erum við að selja þá viðbótarorku sem nú á að fara að selja álverinu, þegar álverið vill stækka verksmiðju sina sem nemur 10 700 tonna framleiðslu á ári, vill fá 20 mw. af raforku til viðbótar við 140 sem verksmiðjan hefur samning um, — erum við þá að selja þessa raforku á kostnaðarverði eins og það er í dag? Það er alveg augljóst skv. upplýsingum sem liggja fyrir í grg. þessa frv., að það er ekki verið að selja viðbótarorkuna á þessu framleiðslukostnaðarverði. Það hrekkur ekki til. Þar vitnaði ég einnig aðeins í það sem stendur í grg. þessa frv. um hvað áætla megi að fáist fyrir þessa viðbótarorkusölu á fyrstu tveimur árum rekstrarins. Það er tilgreint í grg. frv. og það er augljóslega lægra en þetta framleiðslukostnaðarverð sem ég hef minnst á. Ég segi: Þetta er svo einfalt dæmi að það er engin leið að snúa sér út úr því með einhverjum vafningum.

Hv. 1. þm. Suðurl., Ingólfur Jónsson, gerði að vísu tilraun til þess að fara nokkrum orðum um það, að hluta af þessum 20 mw. mætti afhenda sem afgangsorku, — enda er þá búið að verðleggja þessa afgangsorku á lítið sem ekki neitt eða 0.5 mill, þó að framleiðslukostnaðarverðið sé einhvers staðar á milli 10 og 12, — og þetta sé svo mikið hagræði, að geta selt þetta mikið af þessum 20 mw., allt upp í 12 mw., sem afgangsorku. Og hann tók þá til að lesa upp gamla klausu um hvað felist raunverulega í afgangsorkusölu og las þá m.a. um að afgangsorkan væri seld þannig að ef það væri lélegt vatnsár hjá orkuverinu og auðvitað framleiðslan miklu minni, þá væri hægt að taka fyrir þessa orkuafhendingu og menn væru því ekki skyldaðir til þess að afhenda þessa orku. Þetta er hið almenna „prinsip“ varðandi afgangsorku. En í þessum orkusölusamningi, sem hér er um að ræða, eru ákveðin skilyrði sem taka þetta allt saman af. Hér eru ákveðin skilyrði, mjög ströng, um að það verði að afhenda þetta orkumagn, nema því aðeins að það sé um beina bilun að ræða eða við getum alls ekki framleitt orkuna. Hér eru, eins og bent hefur verið á, skilyrði um það, að við verðum að afhenda þetta heildarorkumagn á tilteknum tíma og það verðum við að gera skv. samningnum og getum ekki farið algjörlega að okkar eigin geðþótta. Við erum því tvímælalaust að láta af okkar orkumagni 20 mw. til álversins með býsna ströngum afhendingarskilyrðum, og það þýðir að við getum ekki notfært okkur sjálfir þessi 20 mw. sem við höfum þó fulla þörf fyrir, sbr. það að við erum í sífellu að ráðast í viðbótarorkuframkvæmdir víða á landinu, og enn standa fyrir dyrum dýrar framkvæmdir í þessum efnum af því að okkur vantar orku sjálf.

En svo er sá háttur hafður á, eins og ég benti á, að þetta, sem við eigum að fá fyrir 20 mw. sem við ætlum að selja þeim til viðbótar við það magn sem þeir hafa samkv. eldri samningum, þetta orkumagn er blandað saman við eldra orkumagnið eða eldri samning, orka skv. gamla samningnum og orka skv. þeim nýja, allt afgreitt í einu lagi, kemur eitt blöndunarverð út úr öllu saman, og blöndunarverðið er auðvitað dálítið hærra en var í gamla samningnum, og það gefur mönnum auðvitað tilefni til að tala um að hér sé um hækkun að ræða. Ég hef ekki viljað algjörlega fortaka það, ég hef ekki haft aðstöðu til að athuga það alveg nákvæmlega, að hér gæti ekki verið, þegar allt kæmi til alls, um einhverja minni háttar hækkun að ræða. En hún virðist vera mjög óveruleg, ef hún er nokkur. Sannleikurinn er því sá, að við höfðum í höndunum orkusölusamning við álverið sem allir landsmenn voru á að væri orðinn okkur mjög óhagstæður, og Landsvirkjun ógnaði okkur með því nú enn einu sinni, hún hefur gert það margsinnis áður, að það yrði að hækka hið almenna raforkuverð í landinu til þess að Landsvirkjun hefði nægar tekjur, af því að fjárhagur hennar væri farinn að hallast af viðskiptunum við álverið. Þá er farið í það að gera þennan viðbótarsamning og breyta orkuverðinu að meðaltali til frá því sem áður var, þannig að Landsvirkjun fær inn dálítið auknar tekjur nú í byrjun. En þetta breytir ekki því, sem ég hef bent á, að við höfum ekki í þessari samningsendurskoðun náð því marki okkar að neinu teljandi marki að fá fram hagstæðara raforkuverð fyrir þá raforku sem við seljum álverinu, og sú orka, sem þeir eiga að fá nú til viðbótar, þar sem er raunverulega um nýjan samning að ræða, sú viðbótarorka er greinilega seld á undirverði miðað við það sem nú kostar að framleiða orku. Þetta kalla ég lélega endurskoðunarvinnu, jafnvel þó að það hafi komið út úr dæminu, eins og hér hefur verið bent á, að form þeirrar n., sem stóð í þessum samningum, nefndarinnar um orkufrekan iðnað, sem jafnframt er formaður landsvirkjunarstjórnar og ennfremur seðlabankastjóri, hann hafi séð að hann hafi fengið þarna nokkurn viðbótarpening sem honum lá á að fá til viðbótar við það sem eldri samningur hafði ákveðið, sem hann hafði nú reyndar gert sjálfur á sínum tíma. Það breytir því ekki, að með þessum samningi erum við raunverulega að endurnýja gamla óhagstæða orkusölusamninginn og ákveða, að afhenda með nýjum samningi viðbótarorku á óhagstæðu verði.

Ég sem sagt hafði gert þessar aths. og það, sem hv. 1. þm. Suðurl. hefur haft að segja hér um orkuverðið, hnekkir ekki þessu, sem ég hef sagt, í einu eða neinu. Hann hefur bara tekið einn stóran hring í kringum málið, eins og hann er býsna laginn að gera, en það breytir auðvitað engu um það, það hljóta allir að sjá, hvað er kjarni þessa máls. Hann er þessi sem ég hef lýst. Við höfum ekki í þessum viðbótarsamningi komið neinu fram til umbóta sem teljandi er,

Ég tók eftir því að hv. þm. Ingvar Gíslason sagði þrátt fyrir margar og stórar aths. sem hann hafði að gera almennt við samningana við ÍSAL eða álverið, þá sagði hann að hann féllist þó á þennan viðbótarsamning af því að honum sýndist að hér væri þó heldur um umbætur að ræða frá því sem verið hefði. Og það er eins og ég segi, það má kannske finna það út að hér sé um einhverja minni háttar bót að ræða. En ég álít að það séu ekki nægilega sterk rök fyrir því að ljúka þessari endurskoðun, sem við ætluðum að láta fara fram, með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir, vegna þess að álverið eða eigendur þess þurftu á því að halda að fá viðbótarsamning, fá stækkunarleyfi, þeir þurftu á því að halda að fá nýjan orkusölusamning um viðbótarorku, og þá höfðum við allt valdið í okkar höndum og áttum auðvitað að segja við þessa aðila: Þið fáið ekkert leyfi til stækkunar, þið fáið ekki nýjan samning um orkukaup nema með ákveðnum skilyrðum. — En mér sýnist að þessi staða okkar hafi ekki verið nýtt á neinn hátt eða að svo litlu leyti að það taki því varla að tala um það.

Það er orkusalan sem er að mínum dómi aðalatriði málsins, en það eru fleiri atriði sem koma inn í þessa endurskoðun og ég hafði vikið að. Skattgjald álversins er býsna stórt mál líka. Það hafði komið í ljós, eins og minnst hefur verið allrækilega á í þessum umr., að fyrri reglur, sem um var samið um skattgreiðslur fyrirtækisins, voru alveg óviðunandi frá okkar hálfu. Það var á sínum tíma deilt mikið um það, þegar álsamningurinn var gerður, að skattgjaldssamningurinn gerði raunverulega ráð fyrir miklum fríðindum fyrir þetta fyrirtæki, fyrir þetta erlenda stórfyrirtæki, umfram það sem íslensk fyrirtæki yrðu að búa við varðandi skattgreiðslur. En engum okkar hafði komið til hugar þegar deilurnar um þessi skattgjaldsákvæði voru, að hægt væri að lesa út úr þeim flóknu samningum, sem þá voru lagðir fyrir, aðra eins fjarstæðu og reynslan hefur sýnt að út úr þeim var hægt að lesa. Það er staðreynd sem hefur komið fram í þessum umræðum og hv. þm. Ingólfur Jónsson hefur auðvitað ekki getað neitað, því að hér er um tölur að ræða sem eru nákvæmlega réttar og eru gefnar upp af þeim aðilum sem með málið hafa að gera, að það hefur komið í ljós að skattgreiðslur fyrirtækisins frá því að það tók til starfa og fram að 1. nóv. s.l. eða í 6 ár, þá greiddi fyrirtækið í svonefnt framleiðslugjald eða alla sína beinu skatta samtals 617 millj. kr. Auðvitað eru þessar 617 millj. kr. miðaðar við það eins og þær voru taldar í krónum á hverju ári. Það er auðvitað hægt að fara að umreikna þetta, eins og þeir hafi greitt á núv. gengi, og finna út úr því að greiðslan hafi farið eitthvað yfir 1000 millj. Það er rétt. En þeir höfðu bara greitt 617 millj. kr. og er ekki ýkjamikið eftir 6 ára rekstur hjá slíku fyrirtæki sem þessu. En svo kemur barra í ljós þegar þessi 6 ár eru liðin, að þá á fyrirtækið inni á skattinneignarreikningi, ekki 617 millj. eins og það borgaði, heldur 748 millj. Þetta eiga þeir inn á skattinneignarreikningi.

Mönnum finnst þetta næstum ótrúlegt, að þeir skuli eiga meira inni en þeir hafa greitt allán tímann og þó skuli þetta eiga að heita skattgreiðsla. Ég benti á það í fyrri ræðu minni að þetta stafaði sumpart af því að þessi skattinneign, sem hefur verið að myndast árlega, er reiknuð á núverandi gengi og þannig hefur inneignin hækkað í krónum talið. En þegar nú var farið í þessa endurskoðun og hafði komið upp mikill ágreiningur af hálfu íslenskra stjórnvalda um það, hvað væri lesið út úr þessum skattgjaldsreglum, menn voru óánægðir með að álfélagið gæti átt inni alla þessa upphæð í sambandi við sinar skattgreiðslur, þá lýkur þessari endurskoðun þannig, að það er fallist á að öll þessi inneignarupphæð sé rétt og raunveruleg og við eigum að endurborga þeim þessa upphæð á ákveðnu árabili með tilteknum vöxtum. Ég taldi að þarna hefði verið staðið mjög laklega að endurskoðuninni. En hv. þm. Ingólfur Jónsson segir: Það var ekki hægt annað. (Gripið fram í.) Nei, þetta stóð í gamla samningnum, samningi sem hann er búinn að lofa og prísa allan tímann, en hann varð þó að segja nú í sinni ræðu að sá samningur hefði verið gallaður varðandi skattgreiðslur. Já, hann var heldur betur gallaður. Hann var gallaður svona, að raunverulega hefur þetta stórfyrirtæki, sem bjó við þau fríðindi að þurfa ekki að borga tolla af óteljandi vörutegundum sem það þurfti á að halda til stofnkostnaðar og rekstrar, það hefur ekki borgað nema örlítið framleiðslugjald á þessu tímabili. Það, sem það hefur verið að borga og hefur heitið framleiðslugjald, það hefur að mestu leyti verið fært upp sem skuld okkar við þá, við höfum verið að taka af þeim lán. Svo koma þeir nú við endurskoðunina og segjast vilja fá samning um það hvernig við eigum að endurborga þetta.

Ég álít að það hefði verið eðlilegt af hálfu okkar íslendinga að krefjast þess, að þó að eldri samningurinn hafi verið svona illa gerður, þá ættu þeir þó að viðurkenna það, hver hafi verið hin raunverulega meining með þeim ákvæðum sem sett voru í skattgjaldssamninginn, og við hefðum átt að gera kröfu um að þeir féllu frá þessari kröfu sinni, þetta yrði strikað út og síðan yrði tekið upp nýtt skattgjaldsform. En okkar menn beygðu sig auðvitað undireins, allt út frá þessu almenna sjónarmiði, að þeir líta á erlenda stóriðju eins og æðri máttarvöld sem menn verði að beygja sig fyrir, og þeir telja alltaf að þessi erlendi stóriðjurekstur sé svo þýðingarmikill fyrir okkur að þeir verði að njóta sérréttinda og fríðinda á öllum sviðum og við þurfum að ganga undir þeim, svo að segja borga með þeim. Svo er atriði sem við þekkjum ekki í nokkru öðru tilfelli en þegar verið er að ræða um hina erlendu stóriðju. Þá gera menn sér leik að því, eins og hv. 1. þm. Suðurl., Ingólfur Jónsson, og fleiri, þá finna þeir það út þegar búið er að semja, gera nógu vitlausa samninga, jafnvel allt upp í 45 ára samninga um aðstöðu hér til rekstrar, þá fara þeir að reikna út hvað hugsanlegar tekjur af verksmiðjunni, sem reynast reyndar sumar svona í framkvæmd, mundu vera há summa ef maður reiknaði þetta 30–40 ár fram í tímann. Auðvitað kemur út úr slíkum reikningum svo há upphæð að það segja flestir: Nú, þetta er bara nokkuð góður „bisness“ að eiga við þessa menn. — En það mætti fá býsna háar tölur um það, hvað ýmsar innlendar atvinnugreinar gefa í okkar þjóðarbú, ef við reiknuðum þetta allt fram í tímann, að ég tali nú ekki um ef við gæfum okkur forsendur svipaðar þeim sem þeir sem tala fyrir munn þessara stóriðjuaðila, — ef við gæfum okkur jafnrangar forsendur og þeir gefa sér og síðar meir eiga eftir að sannast að vera alrangar og fá ekki staðist.

Hv. 1. þm. Suðurl., Ingólfur Jónsson, lét að því liggja að ég hefði verið að gefa hér rangar hugmyndir um það, hverjar hefðu raunverulega verið skattgjaldsgreiðslur þessa fyrirtækis, með því að nefna rétta inneignartölu þeirra og hvað fyrirtækið hefur greitt. Ég gat þess í ræðu minni að inneignartalan væri að sjálfsögðu miðuð við núverandi gengi, en greiðslutalan hefði auðvitað verið miðuð við gengi á hverjum tíma, svo að það fór ekkert á milli mála í minni ræðu. Ég gaf meira að segja skýringu á því, hvers vegna skuldin væri hærri nú en öll greiðslan. En þó að tekið sé tillit til þessa í sambandi við gengisútreikninga, þá er auðvitað alveg ljóst að skattgjaldsgreiðslur þessa fyrirtækis eru hverfandi litlar. Ég hef sagt það líka í þessum umr., að ég tel að nýju ákvæðin, sem koma út úr endurskoðuninni, nýju ákvæðin varðandi skattgreiðslur fyrirtækisins séu auðvitað miklu skárri en þessi ósköp sem ég hef verið að ræða hér um. Þau ákvæði eru miklu betri. Væntanlega gefa þau hér einhverjar fastar tekjur, eitthvert fast gjald. En þó eru augljóslega á þessum ákvæðum enn miklir gallar, — gallar sem eru býsna stingandi í augu, þar sem gert er ráð fyrir því að skattgjaldið eins og raforkuverðið eigi raunverulega að fara sílækkandi miðað við álverð eftir því sem lengra líður fram. Það er gert ráð fyrir því, að á þennan hátt fari skattgjaldið sjálft, miðað við verðlagsþróun, t.d. á áli, alltaf sílækkandi hlutfallslega. Önnur fyrirtæki hér í landinu verða auðvitað að greiða t.d. sitt umsetningargjald eða aðstöðugjald í prósentum af umsetningu á hverjum tíma eða þeim reglum sem þar er farið að miða við. En þetta fyrirtæki nær strax samningum um að það skuli ekki á komandi árum þurfa að greiða skattgjald í hlutfalli við það verðlag sem þá verður. Sömuleiðis er ákvæði um að rafmagnsverðið fari sílækkandi í hlutfalli við t.d. þróun álverðs.

Menn gefa sér það, að álverðið muni hækka um 2.5% að jafnaði á ári, reikna allt út frá því, og eru hér í grg. auðvitað strax komnir samkv. þessu álverði upp í 45 cent pundið, en nýlegar upplýsingar, sem liggja hér fyrir, eru um að álverðið er ekki nema 39 cent pundið. En þá hefur hv. 1. þm. Suðurl., málsvari þessara stóriðjusamninga, strax svar á reiðum höndum. Fyrst álverðið er í dag ekki nema 39 cent pundið, en þeir eru farnir að reikna strax í þessum dæmum, sem hér eru sett upp, 45 cent pundið mjög fljótlega, þá segir hann: Ja, það er ekki hægt að reka álverksmiðju með 39 cent á pund, það er ekki hægt. Það gefur því auga leið að það hlýtur að hækka. Það er ágætt að gefa sér svona forsendur. Það færi betur ef hægt væri að gera það í fleiri tilfellum. Það kæmi sér líklega nokkuð vel hjá okkur núna í sambandi við okkar sjávarútveg, eftir því sem menn bera sig illa þar margir hverjir, að segja: Það gefur auga leið að það er taprekstur á þessu, af því hlýtur fiskverðið að hækka og verður hækkað og við reiknum bara með því. — Nei, það er vitanlega engin ástæða til þess að reikna í þessum dæmum með öðru en því sem er, ganga út frá því sem er, og að því leyti sem er verið að miða bæði skattgjald við álverð eða raforkuverð við álverð, þá er eðlilegt að hvort tveggja fylgi þá sömu verðlagsþróun. Allt annað þýðir það að maður er að semja um að fara aftur á bak. En þrátt fyrir þessar aths., sem ég hef gert, þá segi ég það, að miðað við þá athugun sem ég hef getað gert á ákvæðunum nú og áður um skattgjald, þá tel ég að nú sé miðað við miklu öruggari ákvæði en áður var og þannig megi búast við því að skattgjaldið skili sér betur en eftir eldri samningum. Það sem sagt játa ég.

En þriðja meginathugasemd mín var varðandi mengunarvarnir. Ég benti á að upphaflegur samningur okkar hefði ekki gert ýkjamikið ráð fyrir að hægt væri að skylda fyrirtækið til að koma upp tækjum til að draga úr mengunarhættu. Og reynslan hefur orðið sú, að þrátt fyrir ýmis tilmæli eða jafnvel fyrirskipanir á öllum þessum starfstíma sem liðinn er hefur fyrirtækið ekki leyst þetta mál enn þá. Það er alltaf í athugun, það er alltaf í prófun, það eru alls konar tilraunir hafðar þarna uppi, reksturinn í fullum gangi, en úrbætur hafa ekki orðið. Ég benti á að það hefði verið full ástæða til þess nú við þessa endurskoðun að setja beinlínis í viðbótarsamninginn alveg örugg ákvæði um að viðbótarstækkunin á verksmiðjunni gæti ekki átt sér stað nema búið væri að koma upp þessum hreinsitækjum á eldri verksmiðjunni. En það var ekki gert. Það er talið að það sé nokkuð fast loforð um viðaukann, sem hér er samið um eða stækkunina, að það verði að koma til hreinsibúnaður áður en sú stækkun er tekin í notkun. En varðandi eldri verksmiðjuna, sem meginmálið hlýtur að snúast um, er í rauninni ekkert annað en loðin loforð áfram. Það var ekkert sett inn í samninginn sem bindur. Hv. 1. þm. Suðurl., Ingólfur Jónsson, vitnaði í það, að þeir hefðu fengið bréf frá Íslenska álfélaginu sem fylgdi í nál. þeirra, dags. 17. des. 1975 og meira að segja stílað á Ingólf Jónsson sjálfan, og samkv. þessu bréfi ætti þetta allt að vera í lagi.

En ekki get ég fallist á þessa skýringu. Það atriði í þessu bréfi, sem um þetta fjallar, er á þessa leið, með leyfi forseta, orðrétt, það er tölul. 3 í þessu bréfi — þar segir:

„Framkvæmdaáætlun ÍSALs um þurrhreinsitækin gerði ráð fyrir því, að unnið yrði að hönnun á kerþekjum og tilraunum með þær á tímabilinu apríl 1975 til júní 1976.“ — Ég má til með að stöðvast aðeins við þessa setningu, en ætla mér að lesa áfram. Hér er skýrt frá því, að þeir háu herrar hafi gert áætlun um áframhaldandi tilraunir sem eigi að eiga sér stað á tímabilinu frá apríl 1975 til júní 1976. Jú, þeir eru áður búnir að skýra frá því, að fleiri áætlanir hafi svo verið gerðar, fleiri loforð hafi verið gefin. Ekkert er bindandi í þessu. En svo segir hér áfram: „Síðan yrði hafist handa um endanlega hönnun kerfisins í heild“ — eftir tilraunirnar, þá á að fara að hanna. „Síðan yrði hafist handa um endanlega hönnun kerfisins í heild, útboð, smíði, uppsetningu og gangsetningu tækja, og yrði þessu að fullu lokið í árslok 1978.“ Þetta sagði áætlunin. En í lok þessa 3. tölul. segir orðrétt um þessar áætlanir og þessar fyrirhuguðu framkvæmdir til mengunarvarna: „Taka ber þó fram í því sambandi, að hér er um stórkostlega fjárfrekt fyrirtæki að ræða (heildarkostnaður er kr. 2200 millj. samkv. núv. áætlun), og getur hraði framkvæmda orðið háður því að lánsfé fáist til þeirra.“

Svo kemur hv. 1. þm. Suðurl., Ingólfur Jónsson, og segir: Þetta er allt á sléttu, þessu verður kippt í lag, þetta er allt í lagi. Ég veit að hv. þm. sannfærist um það, þegar hann er búinn að heyra mitt mál, segir hann, að þetta er allt rétt. — En hv. þm, má nú heyra það, að ég hef ekki sannfærst, ég get ekki lesið annað út úr þessu en það að þetta sé allt í nákvæmlega sömu óvissunni og það hefur verið í 6 ár: Nýtt loforð, ný áætlun, síðan hönnun, síðan útboð, kostar mikið, vitum ekki um lán, getur orðið dráttur. Svona er þetta. Sannleikurinn er sá, að þeir, sem stóðu að þessari endurskoðun, kærðu sig ekki um að setja það sem skilyrði fyrir stækkunarheimild að þetta mál yrði leyst að fullu. Það er svipað með þetta atriði að mínum dómi eins og endurskoðun á raforkuverðinu og eins og endurskoðun á skattgjaldinu, okkar menn virðast hafa verið afskaplega linir af sér í þessari endurskoðun — afskaplega linir af sér. Og þá er það sem gerist venjulega, þegar þeir eru linir í samningunum við útlendinga, þá verða þeir tilsvarandi harðir við íslendinga þegar þeir þurfa að fara að semja við þá á eftir. Einhvers staðar verður þetta að koma niður, Þegar á síðan að fara að ákveða raforkuverðið til okkar, þá verður að gæta að því að það sé ekki of lágt. Og þegar farið er að skattleggja íslensk fyrirtæki, þá verður að hafa allan vara á að skatturinn verði ekki of lítill. En þegar þessir ágætu menn eru að semja við útlendingana, þá er eins og allt leki niður í gegnum greiparnar. Ég tel því að það standi fyllilega sem ég hef sagt hér, að þessi endurskoðun hefur mistekist, þó að í endurskoðunarnefndinni séu hinir æðstu menn landsins, þeir sem áður hafa verið að semja við útlendingana æ ofan í æ og tekist svona, eins og menn eru nú farnir að viðurkenna. Jafnvel hv. 1. þm. Suðurl., Ingólfur Jónsson, verður að játa að það voru stórgallaðir samningar, einkum varðandi skattgjaldið, sem ekkert kom út úr eða lítið. Þeir eiga að viðurkenna að þessi endurskoðun hafi tekist illa, segja þessum háu herrum: Þið verðið að gera betur. Þið skuluð bara segja að þið hafið ekki fengið staðfestingu á samningnum á Alþ. og þið séuð komnir aftur og ætlið að tala við þá upp á nýtt. — Það er þetta, sem á að gera.

Ég held líka að það væri hollt fyrir fleiri en hv. 1. þm. Suðurl., sem hér hefur fengið það illa hlutskipti að tala fyrir þessu máli, að átta sig á því. T.d. mætti formaður þeirrar n., sem hafði með samningana að gera, fara að átta sig á því líka, að málíð er ekki lengur svo einfalt að það sé hægt að semja um allt of lágt raforkuverð til útlendinga, undir framleiðslukostnaðarverði, og mikil skattfríðindi o.s.frv., í trausti þess að það sé þó hægt að láta íslendinga borga það sem upp á vantar.

Nú eru komnar fram mjög alvarlegar kröfur um það, og ég vænti að hv. 1. þm. Suðurl. hafi veitt því athygli að hv. þm. Ingvar Gíslason tók mjög undir þessar kröfur sem ég hafði minnst hér á, — nú er formaður Félags ísl. iðnrekenda, Davíð Scheving Thorsteinsson, kominn fram á völlinn og studdur af forstjóra Sambands ísl. samvinnufélaga, Erlendi Einarssyni, og nú segja þeir: Við gerum kröfu um að fá raforku til okkar framleiðslu á hliðstæðu verði og erlendu fyrirtækin fá. — Þá fer nú að vandast málið. Ef við ættum að selja öllum innlendum atvinnurekstri raforku á eitthvað hliðstæðu verði og hér er verið að semja um í sífellu til útlendinga, þá er ég hræddur um, að það þyrfti að fara að hækka heldur betur raforkuverðið til landsmanna sjálfra, til heimilanna í landinu. Það er sem sagt ekki hægt að halda áfram öllu lengur að horfa á að það sé verið að semja við erlenda aðila hér um verðlag sem er langt undir framleiðslukostnaðarverði, því verði sem við verðum að ganga út frá. Hv. 1. þm. Suðurl. veit að þegar er verið að reikna út framleiðslukostnaðarverð samkv. þeim reglum sem ég hef hér vitnað til, þá er miðað við svo að segja hámarksnýtingartíma orkuveranna. Auðvitað verður raforkuverðið miklu dýrara frá virkjunum þegar nýtingartíminn fellur verulega niður frá þessum útreikningum. En þeir útreikningar sem ég hef vitnað til og eru byggðir á kostnaðargreiðslum og vaxtagreiðslum, sem við verðum að ganga út frá í dag og miða við 40 ára rekstrartíma þessara orkuvera, eru langt fyrir ofan það verð sem hér er verið að semja um á viðbótarorkunni. Mér datt auðvitað aldrei í hug að við gætum fengið þá endurskoðun á raforkusamningnum við Álfélagið, að við gætum komið því fram að selja þeim þau 140 mw., sem þeir hafa eldri samninga um, á núverandi framleiðslukostnaðarverði. Það hafði mér aldrei dottið í hug. Það þótti víst sæmilegt að koma því orkumagni í það að vera á framleiðslukostnaðarverði, eins og reynslan sýndi að það var miðað við byggingu t.d. Búrfellsvirkjunar.

Ég hafði einnig vikið hér að því vegna sérstaks tilefnis, að það hefðu verið miklar deilur um það þegar samið var um orku til álverksmiðjunnar á sínum tíma, að þeir samningar hafi verið of lágir miðað við framleiðslukostnaðarverð. Hv. 1. þm. Suðurl., Ingólfur Jónsson, gat þess að þeir hefðu haldið því fram að raforkuverðið hafi raunverulega verið 22 aurar á kwst., þegar þeir samningar voru gerðir við Álfélagið á sínum tíma, en framleiðslukostnaðarverðið hafi ekki verið nema 20 aurar. Ég kannast vel við þessar tölur. Þetta eru þær tölur sem þeir notuðu mikið þá. En við héldum hinu fram, að samningarnir næðu því ekki á þeim tíma að gera ráð fyrir framleiðslukostnaðarverði, og við töldum að það lægi skýrt fyrir að framleiðslukostnaðarverðið lægi þó nokkuð fyrir ofan 22 aura sem þarna var raunverulega samið um. En þessi deila, eins og ég hef sagt hér áður, er ekki lengur aðalatriðið. Við játum að þessi samningur var gerður á svona lágu verði. Við erum bundnir við þann samning. En við þurfum ekki að semja við Álfélagið um viðbótarorku eða heimild til stækkunar án þess að knýja fram endurskoðun á þessum óhagstæða samningi, — endurskoðun sem skilaði okkur einhverju. Við vissum að þeir þurftu á stækkunarheimildinni að halda. Þeir vildu fá hér samning um meiri orku, og í þessum efnum höfðum við trompin á okkar hendi. En þau voru ekki notuð, því að raunverulega felur þessi endurskoðun í sér litla sem enga verðbreytingu á því orkumagni sem áður var samið um, og verð á þeirri orku, sem selja á til viðbótar, er greinilega undir framleiðslukostnaðarverði, eins og ég hef bent á. Því er ekki um miklar umbætur að ræða varðandi orkusölusamninginn, einhverjar minni háttar hagsbætur að ræða varðandi framleiðslugjaldið, en þó eru þar á miklir gallar.

Ég skal svo ekki eyða frekari orðum að þessu máli að sinni, En það er nauðsynlegt að hv. alþm. geri sér fulla grein fyrir því, hvað raunverulega felst í þeim samningi sem hér er óskað eftir staðfestingu á, því að þessi ákvæði, sem ég hef gert að umtalsefni, koma svo mikið inn í önnur mál sem við höfum með að gera. Hér er ekki á ferðinni sú gamla deila, hvort við hefðum átt að semja yfirleitt um byggingu álversins, það er orðin staðreynd, eða semja á þeim grundvelli sem þá var gert, en við hljótum að verða að taka fullt tillit til þess, hvað við fáum fyrir þá orku sem við seljum þessu fyrirtæki, að ég tali nú ekki um þá orku sem verið er að fá til viðbótar við eldri samning. Við hljótum að taka fullt tillit til þess, þegar endurskoðun á að fara fram, eftir hvaða reglum þeir eiga að borga skatta. Líti menn fram hjá þessu, þá komast menn fljótlega í vanda gagnvart öðrum þeim sem þarf ýmist að skattleggja eða selja raforku úr því sem nú er komið.