18.02.1976
Neðri deild: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1997 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

113. mál, álbræðsla við Straumsvík

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það eru bara örfá atriði úr ræðu hv. 1. þm. Suðurl. sem mig langar til að gera aths. við. Hann sló því föstu að við vildum allir kappkosta að hafa það sem sannara reynist. Ég er hjartanlega sammála honum. En þá kemur upp í hugann þessi sígilda gamla spurning Pílatusar heitins: „Hvað er sannleikur?“ Ég get ekki fallist á, eftir að hafa hlýtt með mikilli athygli á röksemdafærslu hv. 1. þm. Suðurl., að hann hafi höndlað neinn stórasannleik varðandi þetta orkuverð. Hann ber brigður á þær tölur sem ég og e.t.v. fleiri þm. fórum með um heildarnotkun rafmagns og um verð á rafmagni. Hann skýrði þennan verðmun þannig, að ÍSAL sér um dreifikerfi og aðveitustöðvar, sagði hv. þm. RARIK sér náttúrlega líka um sitt dreifikerfi. Það er að vísu alveg rétt, að álverið fær á annarri spennu rafmagn heldur en Rafmagnsveitur ríkisins. En ég er þess fullviss að Rafmagnsveitur ríkisins væru fúsar til þess að spenna niður aflið frá Landsvirkjun ef þær ættu kost á að fá það keypt á svipuðu verði og álverið, en það hygg ég að Rafmagnsveitum ríkisins strandi ekki til boða. Og það er alveg ábyggilegt, ef lítið er á þær tölur sem síðasti ræðumaður var að vitna til hér áðan beint frá Landsvirkjun um verðmun á orku til álversins og til annarra kaupenda., að Rafmagnsveiturnar mundu hafa verulegan hag af því að spenna þetta niður. Auk þess er búið þannig um hnútana með miklu öruggari hætti, að álverinu er skapað varaafl með allt öðrum skilmálum heldur en Rafmagnsveitur ríkisins þurfa að búa við. Ég vil nú biðja hv. 1. þm. Suðurl. að athuga vandlega töflur og línurit og skýringarmyndir í ársskýrslum Landsvirkjunar undanfarin ár, hún hefur gefið út sérstaklega vandaðar og litprentaðar skýrslur, og þá mundi hann sannfærast um það, að ég fer með rétt mál.

Það hefur verið bjartsýni ríkjandi og glaðar vonir hér á Alþ. við gerð samningsins 1966. Þá fylgdu þeirri samningsgerð í frv. yfirlit um þjóðhagsleg áhrif af byggingu álbræðslu, m.a. áhrif af bræðslu á þróun raforkumála. Ég ætla — með leyfi forseta — að lesa örstutta klausu úr þeim kafla á bls. 96. Þar segir:

„Sé litið á rekstrarafkomu Landsvirkjunar fram til ársins 1985, eins og hún mundi verða samkv. hvorri leiðinni fyrir sig, kemur í ljós að samanlagður tekjuafgangur fram til ársins 1985 mundi án vaxta verða 700 millj. kr. meiri ef gerður yrði rammasamningur við álbræðsluna. Er þá þegar búið að reikna inn í dæmið allan kostnað af byggingu nýs orkuvers er kæmi í stað hluta Búrfellsvirkjunar er framleiddi raforku fyrir álbræðsluna. Sú mikla lækkun á framleiðslukostnaði raforku fyrir innanlandsmarkað, sem samningur við álbræðslu gerir mögulegan, gæti að sjálfsögðu komið fram annaðhvort í lægra raforkuverði eða örari uppbyggingu raforkukerfisins, eftir því hvað þætti þjóðhagslega hagkvæmara.“ — Ég endurtek: „Sú mikla, lækkun á framleiðslukostnaði raforku fyrir innanlandsmarkað, sem samningur við álbræðslu gerir mögulega, gæti að sjálfsögðu komið fram annaðhvort í lægra raforkuverði eða örari uppbyggingu raforkukerfisins, eftir því hvað þætti þjóðhagslega hagkvæmara.

Að því er raforkuverðinu viðkemur sýna útreikningar að raforkukostnaður á árunum 1969–1980 mundi verða 28% hærri ef Búrfellsvirkjun væri eingöngu byggð fyrir almenningsnotkun og enginn sölusamningur gerður við álbræðsluna. Fyrstu árin mundi þó raforkuverðið þurfa að hækka enn þá meira en þetta umfram það, sem nauðsynlegt yrði ef álbræðsla væri byggð.“

Þar lýkur þessari tilvitnun. Ég held nú að ef við lítum af sæmilegri rósemi hugans yfir liðna tíð, þá hafi þessar vonir ekki ræst, því miður. Enn þá ræður bjartsýnin ríkjum. Enn þá er verið að gera útreikninga. En ég óttast að menn verði enn þá fyrir vonbrigðum. Og þrátt fyrir þessa bjartsýnu samninga frá 1966, og það erum við allir sammála um, þá reyndist raforkusamningurinn stórgallaður, og það er auðvelt að sanna að hann var það gallaður að viðræðunefnd um orkufrekan iðnað þurfti að leggja það á sig að standa í heilmiklu samningastússi við Alusuisse um leiðréttingu á samningnum. Og það mundi nefndin ekki hafa gert ef henni hefði þótt þetta viðunandi sjálfri, jafnvel þótt hv. 1. þm. Suðurl. geri mikið úr því hér á Alþ., hvað þetta hafi allt saman gengið vel, og hann ætli sér raunar bara að láta það ganga enn þá betur eftir nýja skipulaginu.

Hvað varðar gjaldeyristekjur af framleiðslu átversins, sem hefur forréttindaaðstöðu í þessu þjóðfélagi, þá eru þær ekki óskaplegar. Þær eru t.d. ekki nema nokkru meira en helmingi hærri en gjaldeyristekjur af útfluttri ull og gærum, sem eru þó einungis aukageta í landbúnaðarframleiðslu okkar.