28.10.1975
Sameinað þing: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

1. mál, fjárlög 1976

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Það má nú ekki minna vera en að maður þakki fyrir sig þegar það er nú farið að gerast hér á hv. Alþ. að andstæðingarnir eru farnir að hæla mér. Þá fer mér nú að líða hálfilla. Hér var skýrt frá raunveruleikanum, sem alltaf mun segja til sín og verður að hafa að leiðarljósi við þessa fjárlagagerð eins og fjárlagagerð almennt. Það er alveg ljóst, eins og ég tók fram við fjárlagaafgreiðslu síðast, að fjárl. verður ekki breytt svo að milljörðum skipti nema hafa áhrif á lagasetningu sem áður hefur verið gerð. Fjárl. eru að mestu leyti byggð upp á lagasetningu sem Alþ. hefur gengið frá og eru um framkvæmd á þeim lögum.

Ég sé að hv. fulltrúi Alþfl., sem talaði hér áðan, hv. 1. landsk., er kominn í þingsalinn og það gleður mig stórum. Ég var einmitt að hugsa um það undir ræðu hans áðan og ræðu hv. 5. þm. Vestf., þegar þeir töluðu um að þessi fjárl., sem nú væru í gildi, væru markleysa ein, að þá var það nú svo þegar þau voru afgr. hér fyrir jól árið 1974 að þá sýndi Alþfl. því fjárlagafrv. það traust sem það sýndi aldrei þeim fjárlagfrv. sem ég flutti hér á hv. Alþ., að þeir sátu hjá við atkvgr. málsins, en áður höfðu þeir alltaf greitt atkv. á móti. Það ber mér að þakka. Ég gat ekki gert það við fjárlagaafgreiðsluna, en geri það hér með og mun að sjálfsögðu meta það. En hvort þeirra mat var miklu réttara þá en það hafði áður verið skal ég nú ekki um segja.

Ég vil svo út af því, sem fram kom í ræðu hv. 5. þm. Vestf. og hv. 11. landsk. þm. um framkvæmdir á yfirstandandi ári, sem báðir kvörtuðu allmikið undan og jafnvel einnig hv. 1. landsk., þá vil ég segja það, að á þessu ári hafa verið verulegar framkvæmdir í landinu. Ég held t. d. að þeir hv. þm. í Reykn. hafi ekki lifað annan tíma meiri framkvæmdir í undirstöðu í atvinnu þeirra, þ. e. í höfnunum, heldur en á árinu 1975. Þar hafa verið stórkostlegar framkvæmdir, eins og í Grindavík, sem var framhald á þeirri framkvæmd sem þar hófst 1913 eða 1974, og í Sandgerði, Hafnarfirði og Njarðvíkum. Á öllum þessum stöðum hefur verið unnið mjög myndarlega að hafnarframkvæmdum. Og þó að hv. 1. landsk. þm., Jón Árm. Héðinsson, teldi að ekki væri nóg að gert í Njarðvíkum, þá er það munur eða það sem áður var, þegar ekkert var gert. Hitt er svo að það mun reynast þar sem annars staðar, að þegar verðbólgan vex svo hratt sem raun ber vitni um nú, þá reynast þær kr. sem áttu að vera til framkvæmdarinnar ekki nægjanlegar, og það skiptir auðvitað meginmáli fyrir okkur í okkar efnahagsmálum að hafa nokkuð vald á því.

Ég held líka t. d. að það hafi verið unnið að mörgum framkvæmdum á Vestfjörðum. Ég las það í einhverju blaði um daginn að hv. 5. þm. Vestf., Karvel Pálmason, hefði byggt flugvöll á Súgandafirði. Þetta er nú framkvæmd sem er ómaksins vert að tala um, þegar einn hv. þm. byggir eitt stykki flugvöll og er fljótur að því. (Gripið fram í.) Ég held hins vegar að núv. flugmálastjóri telji það með ríkisframkvæmdum á árinu núna sem þar hefur verið gert. Sama held ég sé um flugvellina í Tálknafirði, Gjögri og á Hólmavík. Allt tilheyrir þetta Vestfjarðakjördæmi, ef ég kann rétt, og tel ég góðra gjalda vert. Ég tel líka að það hafi verið merkur áfangi í samgöngusögu Vestfjarða þegar við hv. 5. þm. Vestf. ásamt fleirum vorum við að opna hringveginn í Ísafjarðardjúpi um daginn. Ég álít að það hafi verið stórmerkur áfangi sem sannarlega var gleðilegt að ná. (Gripið fram í.) O, við gerðum það nú í félagi, en ég held að engum einum hafi verið ætlað það verk. (Gripið fram í.) En það er nú svo með flestar meiri háttar framkvæmdir að þar stendur þjóðfélagið að og svo mun verða áfram. Ég vil líka minna á að á þessu ári hefur verið gert stórátak í að leggja varanlega vegi í kringum og í þéttbýlisstöðunum á Vestfjörðum meira en hefur verið gert áður. Mér finnst að það megi líka muna eftir því sem gert er. Þó að mönnum láti hitt betur, þá má ekki alveg gleyma þessu. Og sannarlega er það ánægjulegt, og það fólk, sem byggir þessar byggðir, átti það sannarlega skilið, og svo er um fleiri af þeim framkvæmdum sem okkur langar til að láta verða að raunveruleika, en verðum að sætta okkur við þó að þær verði það ekki í skyndi.

Út af því, sem hér hefur komið fram, þá var það eitt atriði sem mig langaði til að leiðrétta í ræðu hv. 11. landsk., Geirs Gunnarssonar, þegar hann talaði um að það væri hjáróma, sem hefði komið fram í ræðu hæstv. viðskrh. á fundi í Framsóknarfélagi Reykjavíkur, að okkur bæri að athuga stöðvunarleið og á sama tíma hefði verð á landbúnaðarvörum hækkað. Verðið, sem hækkaði á landbúnaðarvörum 1. sept., var ekki nema afleiðing af því sem orðið var. Þar voru bændur að fá þær kauphækkanir sem þær stéttir, sem þeirra kaupgjald hefur verið miðað við, höfðu fengið áður, og það var verið að taka inn í verðlagið þær hækkanir sem höfðu orðið á rekstrarvörum þeirra. Þetta var því ekkert í samhengi við þessa stefnuyfirlýsingu, heldur var hér um að ræða framkvæmd á því sem þegar var orðið og tilheyrði þessari stétt og hún hafði orðið eftir á með.

Ég vil í sambandi við framkvæmdirnar á þessu ári segja það, að þeim hefur yfirleitt verið haldið og kannske raunverulega meira en við höfum haft efni á.

Um það, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði um símaframkvæmdirnar, vil ég segja honum að síminn og pósturinn hafa ákveðnar tekjur úr að spila sem þeir afla sjálfir, og þeir hafa enga möguleika til þess að framkvæma fyrir fé sem þeir hafa ekki ráð á. Til þess að síminn og pósturinn geti framkvæmt meira verður að hækka þjónustugjöld þeirra meira en orðið hefur. Að öðrum kosti er sú stofnun rekin með halla. Það hefur verið gert, það er óforsvaranlegt og því verður að breyta.

Út af fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, vil ég segja það, að það er eins og ég sagði í fyrra um lækkun á fjárl., að það verður að halda sér að staðreyndum og þetta fjárlagafrv. fær ekki staðist nema með því móti að breyta lögum sem snerta þær lækkanir á útgjöldum sem boðaðar eru. Það er alveg ljóst að eins og áföll þau eru mikil, sem þjóðin hefur orðið fyrir á s. l. ári og þessu ári, versnandi viðskiptakjör í ríkum mæli, þá getur hún ekki haldið uppi þeim framkvæmdahraða, sem hún áður gerði, þegar viðskiptakjörin voru hagstæð og góð. Þá naut almenningur og þjóðfélagið allt þessara hagstæðu viðskiptakjara, og það hlýtur að fara svo að þau koma við alla þegar á móti blæs eins og nú hefur gerst. Þessi tvö ár, 1974 og 1975, hefur orðið stökkbreyting í þessum efnum, viðskiptakjör þjóðarinnar hafa versnað gífurlega. Það hefur leitt til þess að þjóðin hefur í staðinn fyrir að eiga innstæður erlendis safnað skuldum og á ekki gjaldeyri, nema þann gjaldeyri sem hún hefur tekið að láni. Það liggur í augum uppi að það er ekki hægt að halda áfram slíkum búskap. Það er líka ljóst að við höfum verið of bjartsýnir um ýmsa hluti í sambandi við útgjöld ríkissjóðs á yfirstandandi ári. Það er alveg ljóst að ríkissjóður verður rekinn með halla á yfirstandandi ári, og það er ekki hægt að reka ríkissjóð með stórfelldum halla ár eftir ár. Þess vegna er það svo, að hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá verðum við að beygja okkur fyrir staðreyndum um verri stöðu þjóðarinnar í efnahagsmálum og haga seglum eftir vindi í þeim efnum. Þetta er það sem er verið að boða með fjárlagafrv. og ég dreg í efa að muni nægja til að ná því takmarki sem við raunverulega þurfum að ná.

Ég álít að engum sé greiði gerður, hvorki hv. alþm. né þjóðinni í heild, að gefa von um að geta gert betur en raunveruleikinn segir til um. Þess vegna er það svo, að við verðum að takast verulega á við vandamálin, í sambendi við þessa fjárlagaafgreiðslu, og sú breyting verður að verða á, hv. 5. þm. Vestf., að það sé hægt að aga svo þingið að það sé hægt að koma slíkum breyt.í gegn, enda held ég að ljóst sé að þegar hv. alþm. horfa á hlutina raunhæft, þá geri þeir sér grein fyrir því að það er þjóðinni og þá um leið þeirra kjördæmum fyrir bestu að taka raunhæft á málunum hverju sinni. Hitt er alveg ljóst núna, eins og hefur alltaf verið og eins og allt tal um lægri fjárlög hefur verið yfirleitt bundið við, að menn hafa náttúrlega ekki haldið að hægt væri að gera þetta án þess að það kæmi við einhvern, og það verður auðvitað ekki hægt nú frekar en fyrri daginn.

Eitt af því, sem boðað er í þessu fjárlagafrv., eru breyt. á útgjöldum til almannatrygginga. Mér er það fullkomlega ljóst að hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða. Ég vil þó taka skýrt fram að það er ákveðin stefna hæstv. ríkisstj. að það á ekki að ganga á rétt þeirra sem hafa tekjutryggingu og verst eru settir. Það er ríkisstj. alveg ljóst að inn á það svið ætlar hún sér ekki að fara. En það er ekki þar með sagt að það megi ekki breyta neinu í tryggingalöggjöfinni. Eru það nú örugg sannindi að brýna nauðsyn beri til þess að allir, sem eru orðnir 67 ára gamlir og eru í fullu starfi, þurfi að fá ellilaun til viðbótar þó að þeir séu í háum stöðum? Ég lét á sínum tíma, 1972, þegar blöðin töluðu mest um níðslu mína á gamla fólkinu í sambandi við skatta, þá lét ég skattstjórann í Reykjavík gefa mér sýnishorn af ákveðinni tölu manna sem ég vissi ekki hvað hétu, sem voru á aldrinum frá 67–70 ára, Þeir voru sumir hverjir með einna hæstu skatttekjurnar í þjóðfélaginu. Er ástæða til að bæta við þessa þegna þjóðfélagsins tekjum frá ellitryggingarlögum? Er ekki hægt að íhuga það, þegar þjóðin þarf að leggja að sér og komast út úr erfiðleikum, hvort þarna megi ekki annaðhvort breyta lögum eða fresta framkvæmd laga, sem mér finnst að geti alveg eins komið til í sambandi við tímabundnar aðgerðir, því að allir vonumst við til þess að betri tímar séu fram undan.

Sama finnst mér að þurfi að athuga í sambandi við þá sem búa við verðtryggða lífeyrissjóði. Ef við berum saman þá möguleika sem þeir hafa og hinir sem ekki hafa verðtryggða lífeyrissjóði, er þá ósanngjarnt að skoða þessi mál og vita hvort þarna er ekki hægt að draga úr útgjöldum í tryggingakerfinu? Mér finnst það ekki ósennilegt. Mér finnst svo mikill munur á þeim þegn í þjóðfélaginu, sem hefur verðtryggðan lífeyrissjóð, og hinum, sem hefur það ekki, að þetta eigi að koma til athugunar.

Ég hef líka alltaf lítið svo á að það orkaði mjög tvímælis að greiða fjölskyldubætur með einu barni eða jafnvel tveimur. Hins vegar hefur mér fundist að þetta ætti að hækka eftir að börnunum fjölgaði. Ég hef talið að fullheilbrigt fólk, sem hefði fyrir einu eða tveimur börnum að sjá og hefði góðar tekjur, þyrfti ekki aðstoð ríkisins og þetta skipti það í sjálfu sér afskaplega litlu máli. Hins vegar getur þetta atriði nú verið farið að grípa inn í önnur mál, eins og tryggingakerfið og eins og skattakerfið, að það sé nú e. t. v. erfiðara í framkvæmd en það var á þeim tíma, sem þetta var athugað, og þess vegna þurfi að skoða það betur. En mér finnst að þetta sé eitt af þeim atriðum sem megi skoða. Ég er ekki að slá því föstu að niðurstaðan af þeirri athugun leiði til þess arna, þótt mér finnist að það þurfi að skoða þetta.

Eins og kunnugt er ná sjúkratryggingar til allra alveg án efnahags, og ég er ekki alveg viss um nema mætti fresta slíku að einhverju takmörkuðu leyti þegar við höfum við erfiðleika að stríða í okkar fjárhagsmálum.

Ég vil í framhaldi af þessu koma að öðrum líð, útflutningsbótum á landbúnaðarvörum. Þessar útflutningsbætur hafa átt sér stað um 15 ára skeið. Af þessu tímabili hefur um 8 ár eða helming af þessu verið þannig að það hefur verið notað til fulls, þessar bætur, en 7 árin hefur það ekki verið gert. Í fjárl. hafa þetta alltaf verið áætlaðar tölur og reynslan hefur svo sýnt hvort sú áætlun hefur staðist eins og fleiri útgjaldaliðir fjárl. Á árunum 1972 og 1973 þurfti ekki á 10% áætluninni að halda, en aftur á árinu 1974 var hún notuð að fullu. Þetta er áætlað nú í þessu fjárlagafrv. eins og gert er ráð fyrir að reynslan muni verða á þessu ári. Mér finnst að það komi mjög til athugunar að endurskoða þetta atriði. Þá er ég ekki með það í huga að 10% ákvæðið standi ekki, heldur verði sett takmörkun á það að hve háu marki megi verðbæta hvern vöruflokk. Mér finnst að það megi aldrei ganga lengra í þessu efni en það að það hvetji til hagkvæmustu sölu sem hægt er að hugsa sér. Ef lengra er gengið, alveg sama hvort er um að ræða landbúnaðarvörur eða aðra vöruflokka, þá tei ég að stefnan sé röng. Að þessari athugun vil ég því vinna og hef framkvæmt hana að nokkru leyti á yfirstandandi ári með því að gefa ekki leyfi til að selja úr landi nautakjöt sem ekkert verð var í raun og veru hægt að fá fyrir. Það var samkomulag á milli mín og bændasamtakanna að þetta yrði ekki greitt hærra en útflutningsbætur á dilkakjöti ef út yrði flutt, og þá tekið það dilkakjötið sem minnstar útflutningsbætur þyrfti. Ég álít að þennan þátt eigi að endurskoða og megi gera tímabundna ákvörðun um framkvæmd á eins og hvað annað.

Út af niðurgreiðslunum vil ég svo segja það, að ég veit og það hefur sannast, sem ég og fleiri hafa haldið fram, að niðurgreiðslurnar hafa alltaf verið gerðar sem efnahagsráðstöfun. Veit ég að þeir, sem sátu með mér í fyrrv. ríkisstj., minnast þess að ég var því andstæður að ganga eins langt og gert var í niðurgreiðslunum sumarið 1974. Það var af okkur metið sem tímabundin framkvæmd. Sama er að segja um ákvörðun núv. ríkisstj. sem gerð var um hækkun þá sem átti að koma til framkvæmda 1. júlí í sumar. Það var tekin sú ákvörðun þá að það ætti ekki gilda nema júlímánuð. Hins vegar varð samkomulag í sambandi við kjarasamningana að láta þetta gilda áfram út árið. Nú er gert ráð fyrir þeirri einni breytingu á niðurgreiðslunum að fella þetta niður, hækkunina sem varð í júlí. Mér er fullkomlega ljóst að þetta hefur sína vankanta, og auðvitað hækkar vöruverð við þetta, því að það er ekki þarna frekar en annars staðar hægt að taka hálfan annan milljarð án þess að það komi einhvers staðar við. Hins vegar er það svo, að niðurgreiðslur þurfa eins og annað að eiga sín takmörk. T. d. núna 1. sept., þegar þá varð breyting á landbúnaðarvörum, þá hækkaði mjólkin hlutfallslega mest af þeirri einföldu ástæðu að hún er sú vörutegund sem langsamlega mest er niðurgreidd. Þess vegna varð hlutfallshækkunin á mjólkinni meiri en á öðrum landbúnaðarvörum. Þess vegna þarf að gæta sín í því að gera ekki of róttækar ákvarðanir í þessum efnum sem öðrum þegar komið er langt frá raunveruleikanum getur það reynst öllum hættulegt, eins og t. d. núna hefur komið fram í sambandi við það sem skeði með sjómennina. Eitt af því, sem þar var verið að deila um, er olíuverðið sem hefur verið greitt niður og er svo langt frá raunveruleikanum að fáir vita hvað lítrinn raunverulega kostar, vegna þess að skipin hafa fengið olíuna á sama verði og var áður en olíuverðshækkunin átti sér stað. Nú eru menn að komast á þá skoðun að þetta sé svo óraunhæft að það geti ekki gengið lengur. Þannig er um marga slíka hluti að það verður að gæta sín þótt þetta geti verið handhæg leið í efnahagsmálum og verði oft að gripa til hennar. Og fjarri er mér að halda því fram að það megi taka stórt stökk í þessum efnum, og þessi ákvörðun frá í júlí er því miður orðin of dýr núna þegar snúið er til baka. En einhvers staðar verður að byrja, því að annars leiðir þetta út í ógöngur.

Ég tel að eins og horfir núna um fjármál ríkisins verði ekki komist hjá því að þessi og fleiri málaflokkar, sem ég ætla nú ekki að fara út í hér, því að ég ætla ekki að fara að tala eins og ég væri fjmrh., og jafnvel þeir málaflokkar, sem ég mundi síst af öllu vilja skerða, verði að vera í þeirri skoðun sem við nú verðum að gera í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna. Ég get t. d. lýst því sem minni skoðun að ég tel að samgöngumál, eins og vegamál, séu sá málaflokkur í okkar landi sem verst sé að búið. Ef við berum vegamálin hér saman við það sem gerist hjá öðrum þjóðum, þá held ég að við séum þar mest á eftir öðrum þjóðum. Mér sýnist að t. d. í skólamálum og öðrum slíkum séum við miklu nær því að vera samkeppnisfærir, þó að þar sé ýmislegt að, heldur en við erum í þessum málum. Hitt geri ég mér samt fulla grein fyrir, að það verða ekki þær óskir, sem ég vildi hafa uppi um vegaframkvæmdir á næsta ári, sem verða niðurstaðan, enda lít ég svo á að við verðum að gera í sambandi við fjárlagaafgreiðslu 1976 ráðstafanir, sem við ætlum að tengja því ári, í þeirri bjargföstu trú og von að okkur takist að rétta af okkar fjárhag. Ef við ætlum að fylgja fram þeirri stefnu að fylgja eftir verðbólgunni í öllum framkvæmdum og öðru slíku, þá erum við komnir út í hreint kviksyndi, enda er þá ekki hægt að mata hana betur en með því yrði gert. Ég tel því að við verðum að sætta okkur við að ákveða fjárlög með mjög mikilli aðhaldssemi og umfram allt að reyna að ná árangri í að stilla okkar verðbólgugang, því að það er hann sem er að reyta af okkur það góða sem við viljum í framkvæmdum og uppbyggingu þjóðfélagsins gera. Með slíku framhaldi verður það svo, að fjármunir þeir, sem þjóðin hefur sameiginlega, verða aðeins til brýnustu rekstrarþarfa, en ekki til uppbyggingar og slíkt er illa farið. Og ég vil heldur leggja verulega á mig í slíkum átökum fyrir eitt ár í von um betra heldur en draga slíkar dræsur og efla þær, eins og stefnir ef ekkert verður að gert.

Ég get því tekið undir það með hv. stjórnarandstæðingum, sem hér hafa talað, að margt er hér enn þá óljóst og við eigum eftir að leggja fram frv. til breytinga í samræmi við fjárlagafrv. og kannske meira en það. Það verða að sjálfsögðu umr. um þau málefni þegar þar að kemur, en ég hef í þessum orðum nefnt nokkra þætti, sem mér finnst að taka verði til athugunar, og einnig þá, sem ég tel að verði að forðast, eins og bæði í sambandi við tryggingarnar, niðurgreiðslur og útflutningsbætur, — vissa þætti sem ég bæði tel að eigi að gera og hina sem ég tel að eigi ekki að gera. Og svo er það, að við verðum, þrátt fyrir það að okkur þyki það miður, að draga úr framkvæmdahraðanum á næsta ári og í þeirri von að okkur takist að rétta okkur af til þeirra verka sem við viljum vel vinna.