19.02.1976
Sameinað þing: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1998 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs í tilefni af því máli sem hér var nú á dagskrá til ákvörðunar umr., en það er þáltill. um vantraust á ríkisstj. Það hefur ekki enn náðst samkomulag á milli flokka um það, hvenær umr. um þessa till. geti farið fram.

Við í Alþb. leggjum á það mikla áherslu að umr. um þessa till. geti farið fram hið allra fyrsta. Þessi vantrauststill. er flutt við nokkuð sérstakar aðstæður í okkar landi, þegar allsherjarverkfall er skollið á, nær öll framleiðslutæki þjóðarinnar hafa stöðvast og upp hefur komið hið alvarlegasta ástand. Það er því full ástæða til þess að vantrauststill., sem fram kemur, sé rædd svo fljótt sem við verður komið.

Þessi till. kom fram hér á Alþ. á miðjum degi í gær. Ég tel því að það hefði verið mjög auðvelt að koma því við að hafa umr. um till. á föstur dagskvöld í þessari viku, þegar það er einnig haft í huga að fundir hér í þinginu eru ekki yfirleitt nú um þetta leyti á föstudögum. Það kom fram í viðræðum á milli flokkanna í gær, að fulltrúar allra flokka nema Sjálfstfl. gátu fallist á það að umr. færi fram um till. á föstudagskvöld. Formaður Framsfl. tók þar undir og sagði að ekkert væri að vanbúnaði frá hans hálfu að taka þátt í umr. um till. þá. En hins vegar var það forsrh. sem skoraðist undan, bar ýmsu við og vildi fá frestun á umr. Ég tel að það sé með öllu óviðeigandi að forsrh. komi í veg fyrir umr. eins og þessa, að hún geti farið fram hið fyrsta, og sé enga frambærilega ástæðu til að skjóta umr. á frest.

Ég hefði að vísu óskað eftir því að hæstv. forsrh. hefði tekið álit sitt, sem fram kom varðandi umræðutíma, til endurskoðunar og það hefði getað orðið samkomulag á milli flokkanna um það hvenær umr. færi fram, eins og jafnan áður um slíkar till. Hitt þykir mér líka augljóst, að takist ekki samkomulag, þá er réttmætt að þessi umr. fari fram eigi að síður á föstudagskvöld þar sem mikill meiri hl. virðist styðja þá hugmynd. Það eru því tilmæli mín til hæstv. forseta, sem að sjálfsögðu ræður því endanlega hvenær till. er tekin á dagskrá og umr. geta farið fram, að hann hlutist til um að þessi umr. fari fram á föstudagskvöld eða beiti sér að öðrum kosti fyrir því að samkomulag geti tekist um það, hvenær umr. fer fram, og að hún geti farið fram hið allra fyrsta.

Ég veit að það eru mörg dæmi þess, að nokkur dráttur hafi orðið á umr. á vantrauststill. sem fram hafa komið. Það breytir engu í sambandi við deilu þá sem nú hefur komið upp um það, hvenær þessi umr. eigi að fara fram. Það hefur alltaf áður, allan þann tíma sem ég hef fengist við þessi mál. orðið samkomulag um það á milli flokkanna hvenær umr. færi fram. Stundum hefur það komið fyrir að þeir, sem flutt hafa vantrauststill., hafa sjálfir óskað eftir því að fresta umr. um langan tíma og þá hefur það að sjálfsögðu orðið ofan á. En ég minnist þess ekki að neinn forsrh. hafi beinlínis hlutast til um að tefja umr. um vantraust á ríkisstj., og mér þykir það óviðeigandi í meira lagi.

Með hliðsjón af því, hvernig mál standa nú í okkar landi, og að sjálfsögðu með það í huga, hver staða ríkisstj. er varðandi þá alvarlegu atburði sem komnir eru upp í okkar landi, þá tel ég að leggja beri áherslu á það að umr. fari fram hið fyrsta. Ég get ekki séð að það sé neitt til fyrirstöðu að þessi umr. fari fram á föstudagskvöld nú, ella á laugardag, en að skjóta þessu á frest eitthvað fram í næstu viku, ég mótmæli því fyrir hönd míns flokks, að það sé gert, og tel að þá sé ekkert samkomulag um það á milli flokka, hvenær umr. fer fram, og þá hljóti það að vera hæstv. forseti sem sker úr hvenær till. verður tekin á dagskrá og umr. ákveðin.

Ég endurtek sem sagt þá ósk mína til hæstv. forseta að hann hlutist til um að þessi umr. geti farið fram annað kvöld og í fullu samræmi við þingsköp um umr. um vantrauststillögur.