19.02.1976
Sameinað þing: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég skil þannig yfirlýsingu hæstv. forseta að hann muni athuga möguleika á því, hvort hægt er að koma á samkomulagi um að umr. um vantrauststill. geti orðið fyrr en á mánudag í næstu viku, en viðurkenni að sjálfsögðu að það er á hans valdi að ákveða hvenær þessi umr. fer fram.

Hæstv. forseti sagði að hann teldi eftir atvikum eðlilegt að taka tillit til hæstv. ríkisstj. í þessum efnum. Það er að sjálfsögðu einnig nauðsynlegt að taka tillit þar til fleiri, og það verður þá ekki skilið á annan veg en þann, að hæstv. ríkisstj. sé ekki við því búin, hún sé ekki tilbúin að ræða vantraust á sjálfa sig, hún þurfi að fá enn þá lengri umhugsunartíma, hvernig hún eigi að bregðast við slíku, því að ég efast ekkert um að hæstv. ráðh. hafa tíma til að mæta hér á Alþ. og flytja sínar hálftíma ræður í sambandi við vantraust. Þeir hafa þegar látið auglýsa sig á ýmsum fundum úti í bæ, a.m.k. seinni partinn á laugardag, og þeir gætu alveg eins mætt hér og svarað til saka í sambandi við vantrauststill., nema þeir þurfi að fá eina helgi og kannske einhverja daga í viðbót til að lesa sér til áður en þeir svara hér til saka.

Ég vil sem sagt ítreka fyrri beiðni mína, en undirstrika að það er vægast sagt óvenjulegt, þegar vantraust er flutt við hliðstæðar kringumstæður og hér er gert, að þá beiti hæstv. forsrh. sér fyrir því að fá fram drátt á umr. um mál eins og þetta. Það er alveg óvenjulegt, fyrst samstaða gat myndast á milli allra annarra aðila. Það er mjög furðulegt, og ég held að þar sé um venju að ræða sem ekki ætti að taka upp, því að hver veit nema næsti forsrh. fyndi upp á því, þegar vantrauststill. kæmi, að hann segði að hann þyrfti að biða enn þá lengur. En vitanlega er eðli vantrauststill. þannig, að það er ætlast til þess að hún sé tekin fyrir til umr. og afgreiðslu eins fljótt og tök eru á með góðu móti. Auðvitað geta mál legið þannig — og hafa oft legið þannig — þegar vantrauststill. eru fluttar, að þeir, sem flytja þær, geta vel sætt sig við að þær komi ekki til umr. fyrr en eftir viku eða jafnvel hálfan mánuð. Og þá er ekkert við því að segja. En nú standa málin hins vegar þannig, að þeir, sem að vantrauststill. standa, óska eftir að fá umr. flýtt og það er full aðstaða til þess að koma umr. við. Þá er, eins og ég segi, vægast sagt óviðeigandi að sjálfur hæstv. forsrh. fari að draga úr því að umr. geti farið fram. Ég vænti nú þess að hæstv. forsrh. sjái að þetta er ekki frambærilegt og geti fallist á það að umr. fari fram á föstudagskvöld.