19.02.1976
Sameinað þing: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2002 í B-deild Alþingistíðinda. (1664)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Í gær milli kl. tvö og þrjú kom fyrsti fim. vantrauststill. að máli við mig og spurðist fyrir um hvort samkomulag gæti náðst um að hafa umr. um vantrauststill. samkv. ósk hans á föstudagskvöld. Ég sagði þá strax að ég skyldi sjá svo um að það yrði alla vega á mánudagskvöld, en taldi vandkvæði á því að þessi umr. færi fram á föstudagskvöld. Ég ræddi enn fremur um sama bil við annan flm. þáltill. um vantraust á ríkisstj. og gat um afstöðu mína, og hann gerði enga athugasemd við það út af fyrir sig að umr. um þáltill. færi fram á mánudagskvöld. Þegar ég hitti forsvarsmenn flm., þ.e.a.s. fyrsta og annan flm. vantrauststill. og formann þingflokks SF í stað formanns flokksins, sem er þriðji flm. vantrauststill., báru þeir sameiginlega fram þá ósk að umr. yrðu á föstudaginn. Ég ítrekaði afstöðu mína, en kvaðst mundu hafa samráð við ríkisstj. og stuðningsflokka hennar. Að höfðu því samráði var sú afstaða tekin, að eðlilegast væri að þessi umr. færi fram á mánudagskvöld, það væri í fullu samræmi við þingvenjur og þingsköp og eigi líði lengri tími frá framlagningu till. til umr. en svo að fulls réttlætis væri gætt og tilhliðrunarsemi gagnvart flm.

Ég hef enn ekki heyrt neina efnislega ástæðu fyrir því að flýta þurfi svo mjög umr. um till. sem hér hefur fram komið. Það er rétt, sem hv. 2. hm. Austurl. sagði, að nú er hið alvarlegasta ástand þar sem er allsherjarverkfall. En það breytist ekki við flutning þessarar vantrauststill. né heldur við umr. um hana. Og miðað við það, sem hv. 9. þm. Reykv. sagði áðan um það að stjórnmálaflokkar eigi ekki að hafa áhrif á eða afskipti af lausn kjaradeilu, þá verður því ekki trúað að þessi vantrauststill. sé flutt í skjóli kjaradeilurnar eða í þeim tilgangi, en hins vegar læðist sá grunur að manni vegna þess óðagots sem er á flm. varðandi umr. um málið.

Ég bendi á það sem hv. 9. þm. Reykv. sagði, að þótt stjórnmálaflokkar eigi ekki að hafa áhrif á eða afskipti af lausn kjaradeilu, þá gegni öðru máli um ríkisstj. Ég held sannast best að segja að ríkisstj. eigi að verja tímanum í dag og á morgun og um helgina eða svo löngum tíma sem nauðsyn krefur, þar til kjaradeilan er leyst, til þess að stuðla að lausn hennar. Og ég vil að því leyti segja mig ósammála sjónarmiði hv. 9. þm. Reykv., að stjórnmálaflokkar eigi ekki að hata áhrif á lausn kjaradeilunnar, að ég teldi mjög æskilegt að stjórnmálaflokkar hefðu jákvæð áhrif á lausn kjaradeilunnar. En aftur á móti efa ég að það sé í þeim tilgangi gert, að þessi vantrauststill. er borin fram. En um það getum við rætt síðar.

Ég vil einnig leiðrétta það sem fram kom í máli hv. 9. þm. Reykv., að ríkisstj. hefði hvorki svarað till. launþegasamtakanna né heldur sameiginlegum till. launþegasamtakanna og vinnuveitenda. Þetta er algjörlega rangt. Ríkisstj. hefur haldið fundi með þessum aðilum og svarað þessum till. þeirra lið fyrir lið, fyrst till. launþegasamtakanna einna og síðan sameiginlegum till. launþegasamtakanna og vinnuveitenda. Varðandi hið síðara hefur ríkisstj. sent minnisgrein frá sér til Alþýðusambands Íslands og samtaka vinnuveitenda, frásögn af sameiginlegum fundi fulltrúa þessara aðila sem haldinn var 5. febr. s.l. vegna hinna sameiginlegu till. sem eru dags. 20. jan. s.l. Það kom ekki fram nein rödd á þessum sameiginlega fundi að ríkisstj. hefði ekki svarað hinum sameiginlegu till. Það var mismunandi afstaða að vísu til einstakra till., og ríkisstj. gat ekki svarað öllum till. þeirra jákvætt, en almennt má segja að saman hafi farið afstaða launþegasamtaka og vinnuveitenda annars vegar og ríkisstj. hins vegar í veigamestu málunum, eins og þeim að tryggja fulla atvinnu og hamla á móti vaxandi verðbólgu. Hitt er rétt að fram komi, að bæði í till. launþegasamtakanna út af fyrir sig og í sameiginlegum till. vinnuveitenda og launþegasamtakanna var mjög um almennar ábendingar og till. að ræða, meira og minna í ályktunarformi, þar sem ekki voru sérgreindar þær ráðstafanir sem grípa skyldi til. Vitaskuld er góðra gjalda vert að fá slíkar ábendingar og till. Hins vegar er og ljóst, að það er erfiðara að grípa á afgreiðslu slíkra almennra ábendinga en beinna sundurgreindra og sundurliðaðra till.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta efni, en ítreka það, að hér er farið að þingsköpum og réttum reglum. Það er engin efnisleg ástæða fyrir þeim flýti sem farið er fram á, og við getum, þegar umr. um vantrauststill. fara fram, fjallað frekar um einstök efnisatriði málsins.