19.02.1976
Sameinað þing: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2006 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Það skyldi þó aldrei vera óttinn við það, að vinsældir ríkisstj. verði einmitt meiri á mánudagskvöldið heldur en þær eru í dag eða annað kvöld, sem fær flm. þáltill., stjórnarandstöðuþm., til þess að þrýsta svo þétt á umr. og þá sjónvarpsumr. líklega um þessa vantrauststill. (Gripið fram í.) Já, ég reikna með því að þeim verði útvarpað og sjónvarpað.

Ég vil, herra forseti, lýsa furðu minni á því ábyrgðarleysi sem fram kemur í flutningi slíkrar till. sem þessarar á þeim erfiðleikatímum, sem þjóðin stendur frammi fyrir, og þessum annatímum, sem þeir hljóta að vera fyrir ríkisstj. Ríkisstj. á ekki eingöngu í baráttu við að leysa deilur á vinnumarkaðnum, því að það hvarflar ekki að mér eitt augnablik að ríkisstj. hugsi ekki í þá átt að hjálpa til við að finna lausn deilna á vinnumarkaðnum þrátt fyrir það að heppilegast þyki að aðilar vinnumarkaðarins komi sér saman um lausn. Hún hlýtur að eyða miklum tíma í að aðstoða aðila vinnumarkaðarins til að finna þá lausn sem heppilegust telst og allir geta sætt sig við. Ég held að við séum öll sammála um það, að barátta okkar við erlenda aðila, breta, um fiskveiðilögsöguna hljóti að taka mjög mikinn tíma hjá ríkisstj., auk þess að við eigum í erfiðleikum með efnahagsvanda okkar. Þar höfum við allir reynt að leggja okkur fram til að finna lausn á, en ekki tekist betur en orðið er. Og sameiginlega erum við öll, a.m.k. við sem hér erum, hvort sem það eru stjórnarandstæðingar eða stjórnarliðar, ábyrg fyrir þeim fjárl., sem fram hafa komið, og þeim vanda, sem þjóðin er í á því sviðinu. Ég held því að ríkisstj. hafi annað við sinn tíma að gera og þm., hvort sem þeir eru stjórnarliðar eða stjórnarandstæðingar, eigi ekki að auka á þann vanda sem ríkisstj. er þegar í. Ég tel flutning þessarar till. ábyrgðarleysi, vitandi það að till., eins og kom fram hjá hæstv. dómsmrh., verður að sjálfsögðu felld vegna þess að það er ekki brestur í því samstarfi sem stendur að ríkisstj., ég hef ekki orðið var við hann.

Ég tek undir orð hæstv. ráðh., að ég hef ekki orðið var við það sem sjálfstæðismaður, því að hann talaði sem framsóknarmaður, að farið hafi verið fram á það við Sjálfstfl. að hann sviki Framsfl. Ég tel ólíklegt að það sé á döfinni.

En vegna till. sjálfrar, þá held ég að öllum þeim, sem standa að stjórninni, sé jafnljóst og öllum þeim, sem standa gegn stjórninni hér á Alþ., að þessi ríkisstj. hefur aldrei haft traust þessara flm. eða stjórnarandstöðunnar, þannig að vantrauststill. gat komið á hvaða tíma sem var. En af hverju tímasetja þeir hana einmitt nú þegar þjóðin öll stendur frammi fyrir mesta vanda sem hún hefur staðið frammi fyrir í langan tíma? Það er ekki nema til eins, þ.e. að koma ríkisstj. í eins mikinn vanda og mögulegt er, að auka vandann ef mögulegt er. Það þjónar ekki nema andstæðingunum.

Ég vil því ljúka þessum orðum mínum með því að fara þess á leit við flm. till., — ég vil taka undir orð hæstv. dómsmrh., að þeir hafa allir stundum verið skynsamir hér á Alþ., — að þeir dragi þessa vantrauststill. til baka.