19.02.1976
Sameinað þing: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2009 í B-deild Alþingistíðinda. (1669)

125. mál, fæðingarorlof bændakvenna

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Þáltill. sú á þskj. 200, sem hér liggur nú fyrir til umr., felur það í sér að ríkisstj. láti kanna möguleika á því að Lífeyrissjóður bænda greiði bændakonum allt að þriggja mánaða fæðingarorlof við barnsfæðingu, skuli í því skyni leitað samráðs við Búnaðarfélag Íslands, Stéttarsamband bænda og Lífeyrissjóð bænda og ráð fyrir því gert að álit og niðurstöður þessara aðila liggi fyrir áður en Alþ. kemur saman haustið 1976.

Það fer ekkert á milli mála eftir þær umr. sem orðið hafa hér á Alþ. um þessi mál, bæði á síðasta þingi og nú nýverið í sambandi við fæðingarorlof kvenna innan ASÍ, að þm. allir líta á fæðingarorlofið sem mikilvæga og sanngjarna réttarbót til handa þeim konum sem þátt taka í atvinnulífinu, en þær, sem ekki njóta fæðingarorlofs, verða fyrir tilfinnanlegum tekjumissi við barnsburð ef þær á annað borð leyfa sér þann sjálfsagða munað að vera heima við til að annast nýfædd börn sín fyrstu víkurnar af ævi þeirra.

Fram til þessa hafa konur, sem eru á launum hjá ríkinu, verið þær einu hér á landi sem notið hafa þessara fríðinda, en með lögum frá 1954 fengu þær rétt á 90 daga launuðu orlofi í sambandi við barnsburð. Hér er það ríkið sem er atvinnuveitandinn og því eðlilegt að það standi undir þessum greiðslum. Þegar að öðrum atvinnustéttum kemur hefur hingað til ekki þótt gerlegt að bæta greiðslum til fæðingarorlofs ofan á þau risavöxnu útgjöld almannatrygginga sem hafa undanfarið bólgnað svo út sem raun ber vitni. En ýmsir hafa verið þeirrar skoðunar, að greiðsla á fæðingarorlofi ætti að falla undir almannatryggingar.

Það kom fram í svari hæstv. heilbr.- og trmrh. nú fyrir skemmstu í fsp. um tekjustofna til að tryggja öllum íslenskum konum fæðingarorlof, að hækkun til sjúkratrygginga einna saman nemi 4000 millj. kr. milli áranna 1975 og 1976. Ríkisstj. sæi sér því ekki fært við þær aðstæður, sem nú eru, að finna aðra tekjustofna samkv. viðaukaákvæði laganna frá s.l. vori um greiðslu fæðingarorlofs úr Atvinnuleysistryggingasjóði til launakvenna innan Alþýðusambands Íslands. En þetta viðaukaákvæði hljóðaði svo, eins og hv. þm. mun kunnugt, að ríkisstj. skyldi fram til síðustu áramóta leita tekjustofna til þess að allar konur á Íslandi yrðu þessara fríðinda aðnjótandi.

Hjá nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum kemur fæðingarorlofið yfirleitt undir sjúkratryggingar. Þar á móti kemur svo það, að þar er þátttaka atvinnurekenda allmiklu meiri til sjúkratrygginganna heldur en gerist hjá okkur, þar sem þær eru fjármagnaðar, að því er mig minnir, að 90% frá ríkinu. Mér finnst sjálfri að fæðingarorlofið eigi ekki heldur að heyra undir sjúkratryggingar. Mér finnst það heldur ógeðfellt, því að ekkert er heilbrigðara og sjálfsagðara heldur en það teljist eðlilegur þáttur í lífi fjölskyldunnar að konan fjölgi mannkyninu, alla vega meðan okkar háþróuðu vísindum hefur enn ekki tekist að leysa konuna undan þeirri kvöð og framleiða börn í tilraunaglösum eða eitthvað á þá leið. Mér finnst hin leiðin, að láta lífeyrissjóðina annast þessa greiðslu, margfalt eðlilegri.

Mér er engin launung á því, að þegar við flm., við hv. 5. þm. Reykv., Ragnhildur Helgadóttir, lögðum fram þessa þáltill. nokkru fyrir jólin, þá var okkur kunnugt um að ekki höfðu fundist neinir nýir tekjumöguleikar til að standa undir greiðslum fæðingarorlofs til þeirra kvenna, þ. á m. bændakvenna, sem ekki eru ríkisstarfsmenn né heldur launþegar innan ASÍ. En með því að mig rekur minni til þess, að allmargir hv. þm. gagnrýndu frv. um greiðslu fæðingarorlofs úr Atvinnuleysistryggingasjóði, ekki síst og sumir aðallega vegna þess að það náði ekki til kvenna í sveit, þá fannst mér full ástæða til að leita annarra leiða til að bæt þar úr og ná þar með viðbótaráfanga að því lokamarki að allar íslenskar konur njóti fæðingarlauna. í þeirri leit staðnæmdist ég við Lífeyrissjóð bænda, rannar fyrir ábendingu frá bónda sem fannst þessi leið eðlileg og sjálfsögð. Taldi ég ástæðu til að ætla að aðrir stéttarbræður hans væru sama sinnis eða þætti hugmyndin a.m.k. athugunarverð.

Nú er Lífeyrissjóður bænda að vísu ungur sjóður, stofnaður árið 1970, en allfjársterkur þó, enda mun hann vera sá áttundi eða jafnvel ofar í röðinni að eignum þremur árum eftir stofnun hans af hartnær 100 lífeyrissjóðum landsmanna í dag. Iðgjöld til sjóðsins á árinu 1974, en það eru nýjustu tölur sem liggja fyrir, námu 77 millj. kr., að viðhættu mótframlagi að upphæð 115 millj. kr., samtals 192 millj. kr., og höfuðstóll sjóðsins var í byrjun árs 1975 401 millj. kr. Tekjur sjóðsins eru lögum hans samkv. iðgjöld bænda, sem eru sjóðfélagar, og eru innheimt af búvöruverði sem ákveðinn hundraðshluti þess. Á móti iðgjöldum sjóðfélaga kemur og sérstakt gjald sem lagt er á allar búvörur og nemur ákveðnum hundraðshluta ár hvert, þannig að hann samsvari 6% framlagi af reiknuðum heildarlaunum allra bænda er þeim ber að greiða iðgjald af samkv. lögum. Sjóðfélagar eiga rétt á greiðslu ellilífeyris við 67 ára aldur samkv. ákveðnum reglum svo og örorkubótum ef til kemur örorkutap til langframa eftir læknismati. Þá er í lögum sjóðsins, eins og bent er á í grg. með till., gert ráð fyrir nokkurri lánastarfsemi til sjóðfélaga. Þannig er þar að finna ákvæði um að Stofnlánadeild landbúnaðarins eigi rétt á lánum er nemi 25% af árlegum iðgjöldum og framlögum í sjóðinn fyrstu 15 starfsár hans. Sjóðsstjórn er einnig heimilt að veita lán til íbúðabygginga fyrir sjóðfélaga gegn veðrétti í fasteigninni og enn fremur í samráði við Stofnlánadeild landbúnaðarins til vinnslustöðva landhúnaðarins, gróðurhúsa og fleiri stofnana á vegum sjóðfélaga. Bent er á í grg. með till. að allt þetta, sem talið var hér að ofan, séu vissulega þörf og verguð verkefni, en jafnframt er látið í ljós það álit flm. till. að konur til sveita, er fæða bændum sínum börn og taka virkan þátt í framleiðslustörfum búsins, væru ekki síður vel komnar að stuðningi frá sjóðnum í sambandi við barnsburð sem óhjákvæmilega og eðlilega leggur á þær mikið aukaerfiði og útgjöld.

Það hefur réttilega verið á það bent, að hin miklu lánaumsvif ýmissa lífeyrissjóða hafi í rauninni fært þá frá sínu upprunalega hlutverki, að tryggja fólki víðunandi lífsviðurværi á gamalsaldri að starfsævi lokinni, að þarna fari í. rauninni fram tilfærsla á fé frá lífeyrisþegum til fólks í blóma lífsins sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið eða stendur í öðrum stórræðum. Ég fæ ekki betur séð en að greiðsla fæðingarorlofs til sjóðfélaga, kvenna og karla, standi í margfalt nánara og eðlilegra sambandi við hlutverk sjóðanna heldur en slík umsvif þótt þörf séu í sjálfu sér.

Samkv. upplýsingum frá Hagstofu Íslands var fjöldi giftra kvenna á Íslandi í árslok 1971 41681, þar af eiginkonur bænda 2900. Fjöldi barnsfæðinga yfir landið var það sama ár 4733. Samkv. þessum tölum ætti fæðingartala í bændakvennastétt það ár að vera eitthvað um 240 og reikna ég þá með nokkru lægra fæðingarhlutfalli en þegar á heildina er litið, m.a. vegna þess að meðalaldur bænda er allmiklu hærri en annarra atvinnustétta. Við síðasta útreikning á verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara voru eiginkonum bænda reiknaðar 600 vinnustundir af framleiðslu búsins, að verðmæti 184 681 kr. á ársgrundvelli. Ef þessi útreikningur væri lagður til grundvallar við greiðslu fæðingarorlofs í þrjá mánuði, eins og till. gerir ráð fyrir, þá mundi það þýða 46170 kr. við hverja fæðingu eða samtals rétt yfir 11 millj. kr. sem Lífeyrissjóður bænda mundi þurfa að greiða árlega í þessu skyni. Ég fæ ekki betur séð en að sjóðurinn gæti hæglega staðið undir þessum greiðslum, svo öflugur sem hann er fyrir.

Það er annars býsna erfitt þessa stundina að henda reiður á okkar lífeyris- og kjaramálum, svo mjög sem þau eru nú í lausu lofti, á meðan ekki hefur verið komist að niðurstöðu við gerð almennra kjarasamninga, en þar hafa lífeyrismálin einmitt verið eitt af hinum mikilvægustu samningsatriðum. En ég get ekki skilið við þetta mál án þess að láta getið lagafrv. þess um Lífeyríssjóð Íslands sem nýlega hefur verið lagt fram hér á Alþ. af hv. 6. landsk. þm., Guðmundi H. Garðarssyni. Hér er annars vegar viðamikið og athyglisvert frv. sem felur í sér gerbreytingar á meingölluðu lífeyrissjóðakerfi sem við búum við í dag. frv. gerir ráð fyrir rétti allra íslenskra kvenna til fæðingarlauna sem miðuð eru við meðallaun síðustu þriggja ára og skulu greidd í þrjá mánuði við fæðingu og aldrei lægri en 18 550 kr. á mánuði miðað við núverandi vísitekjur. Vafalaust mun það vera ýmislegt í þessu gagnmerka frv. sem þarf nánari athugunar og e.t.v. breytinga við, en frv. er engu að síður að mínu mati merkilegt framlag til þeirrar gagngerðu endurskoðunar á lögum um lífeyrissjóði og almannatryggingar sem nú stendur yfir. Nái meginmarkmið þess fram að ganga munu bændakonur sem aðrar íslenskar konur að sjálfsögðu njóta þess í framtíðinni. Till., sem hér liggur fyrir, er í rauninni mjög í anda þessa frv., þótt hún að sjálfsögðu nái til takmarkaðra sviðs.

Ég vona og treysti því að íslenskir bændur og þau samtök þeirra, sem till. verður vísað til til athugunar og ákvörðunar, taki henni vel og skoði hana með jákvæðum hug og góðum skilningi. Hún er fram borin til þess að reyna að tryggja það að húsfreyjan í sveit þurfi ekki í þessu tilliti að búa við lakara hlutskipti en þær konur aðrar á Íslandi sem þegar njóta þessara fríðinda.

Herra forseti. Ég vil gera það að till. minni að þáltill. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. allshn.