28.10.1975
Sameinað þing: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

1. mál, fjárlög 1976

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég er alveg hissa á því hvernig hæstv. samgrh. er farinn að tala allt í einu. Ég heyrði ekki betur en hann léti að því liggja að ég hefði verið að byggja flugvelli vestur á fjörðum og það hefði komið fram hjá mér, en eigi að síður væri þetta talið ríkisframkvæmd. Hann hefur líklega ætlast til þess að við vestfirðingar fjármögnuðum þetta sjálfir, borguðum það úr eigin vasa beint. Þetta er alveg augljóst mál og það skal ég þakka hæstv. núv. samgrh., þetta komst í gegn í hans tíð og með hans aðstoð sem fjmrh. og það má hann eiga. En að vera að tala um það hér að ég eða einhver annar einstakur þm. sé að byggja þetta eða hitt út um hvippinn og hvappinn, það er alls ekki samboðið hæstv. ráðh. að tala svona.

Hann sagði að það væri verið að gera ýmislegt á Vestfjörðum, það væri verið að vinna að varanlegri gatnagerð. Það er alveg rétt. Ég veit ekki betur en það sé líka verið að vinna að því í Vesturlandskjördæmi, eða heyrst hefur að þar væri verið að vinna við varanlegar gatnagerðarframkvæmdir. (Gripið fram í: Og brúarspotta.) Og brúarspotta, bætir einhver við. Það er ekki verið að tala um þessa hluti hér. (Gripið fram í: Þetta eru ríkisframkvæmdir.) Þetta eru ríkisframkvæmdir já.

En það, sem ég ætlaði nú aðallega hér að tala um, var í sambandi við það sem hæstv. samgrh. sagði um Póst og síma. Hann hefur tekið skakkt eftir ef hann hefur heyrt mig halda því fram að það þyrfti að hækka gjöld hjá Pósti og síma til þess að standa undir þeim framkvæmdum sem áætlaðar voru í fjárlögum. Ég hélt því ekki fram. Það, sem ég var að gagnrýna, var að eftir að búið er að ákvarða í fjárl. fjárveitingar til hinna ýmsu framkvæmda sem á að framkvæma á viðkomandi ári, þá skuli hringlað með það í embættismannakerfinu án þess að fjárveitingavaldið fái að sjá það. En það gerist í þessu tilfelli hjá Pósti og síma. Og það var það sem ég var að gagnrýna, og á sama hátt hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Það var búið að marka í fjárlögum ársins 1975 fjárveitingar til hinna ýmsu framkvæmda, og það átti fjvn. að fá að fjalla um, ef því var breytt, en ekki einstakir embættismenn eða rn. Það var þetta sem ég gagnrýndi. Og það var fyrst og fremst það sem ég vildi ítreka hér, að ég lít svo á að eftir að búið er að afgreiða fjárlög frá Alþ., þá verði þeim ekki breytt nema því aðeins að fjárveitingavaldið fjalli um þau. Það á enginn annar að geta breytt því. Það er ástæða til þess að rifja það upp hér með tilliti til þess sem á undan hefur gerst, og það var þetta sem ég talaði um.