19.02.1976
Sameinað þing: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2011 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

125. mál, fæðingarorlof bændakvenna

Jón Helgason:

Herra forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt voru á s.l. vori samþ. lög um fæðingarorlof verkakvenna. Þessi lög urðu mjög umdeild og einkum af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi var það álit margra að sú leið, sem þar var farin til greiðslu á fæðingarorlofi, að láta Atvinnuleysistryggingasjóð greiða það, — sú leið var mjög umdeild þar sem margir töldu að það væri ekki hlutverk Atvinnuleysistryggingasjóðs að gera þetta og hann hefði ekki nægilegt fjármagn til að inna af hendi þessa skyldu. Og svo í öðru lagi að með þessu móti var gert upp á milli stétta, þarna var aðeins ætlað að finna lausn á því að greiða fæðingarorlof til takmarkaðs hóps kvenna. Margir töldu að það væri réttara að reyna að finna leið til þess að gera hér öllum konum jafnt undir höfði og fresta þess vegna málinu til haustsins og leggja þá fram frv. hér á Alþ. um fæðingarorlof sem tryggði öllum konum þennan rétt, þar sem líka var kveðið svo á í frv. að lögin öðluðust ekki gildi fyrr en um s.l. áramót, þannig að það átti að vera þar nokkur tími til stefnu. Ég var fylgjandi því að þessi leið væri valin. Hins vegar varð nú niðurstaðan sú, að frv. var samþ. og lögin öðluðust gildi.

En í þessum lögum var einnig það ákvæði að ríkisstj. skyldi fyrir síðustu áramót finna leið til þess, að allar konur gætu fengið fæðingarorlof, og leggja frv. um það efni fyrir Alþ. Eins og fram kom í svari hæstv. heilbr.- og trmrh. hér fyrir skömmu hafði ríkisstj. ekki fundið leið til þess að gera þetta nógu fljótt, þannig að frv. hefur ekkí verið lagt fram enn þá. En hins vegar hefur n. þeirri, sem nú er að endurskoða tryggingalöggjöfina, verið falið að reyna að finna lausn á þessu atriði eins og fleirum.

Á þskj. 200 hefur verið flutt þáltill. sú, sem hér er til umr., og þá bent á þá leið að Lífeyrissjóður bænda tæki að sér það hlutverk að greiða bændakonum allt að þriggja mánaða fæðingarorlof. Ég get ekki fallist á það að þessi leið verði valin, vegna þess að hér er einnig verið að mismuna. Hér er Lífeyrissjóði bænda lögð einum lífeyrissjóða þessi kvöð á herðar. Hv. flm. sagði áðan að Lífeyrissjóður bænda væri allsterkur lífeyrissjóður. Ég verð því miður að segja aðra sögu, því að samkv. því sem tryggingafræðingur hefur sagt nú fyrir stuttu, þá telur hann að Lífeyrissjóðir bænda sé einhver veikasti lífeyrissjóðurinn til þess að gegna sínu hlutverki. Það byggist m.a. á því hvað það eru margir fullorðnir bændur sem eiga þegar rétt á bótum úr lífeyrissjóði bænda eða munu bætast í þann hóp á næstunni. Þetta er augljóst ef við athugum það, að á s.l. ári nutu 1049 einstaklingar bóta úr Lífeyrissjóði bænda, en í bændastétt eru hins vegar 4–5 þús., þannig að það er allhátt hlutfall bótaþega miðað við þá sem greiða í sjóðinn, og ég a.m.k. rengi ekki þennan vitnisburð tryggingafræðingsins.

Ég held því að það verði að finna aðra leið til þess að leysa þennan vanda, og ég vil undirstrika það, að ríkisstj. reyni að gera það sem allra fyrst, að uppfylla þessa skyldu sem lögin íeggja henni á herðar. Ríkisstj. hefur ekki talið fært að fara þessa leið til þess að uppfylla lögin, og það sýnir að hún telur þetta ekki réttmætt.

Það var bent á það áðan að Lífeyrissjóðurinn lánaði til bænda, og það er alveg rétt. Þetta gera allir lífeyrissjóðir. Þeir reyna að gera tvennt í einu, að ávaxta sina eign og styðja eigendur hvers lífeyrissjóðs með því að veita þeim lán. Og Lífeyrissjóður bænda hefur gert mögulegt að veita bændum ýmsa lánaflokka sem annars hefði ekki verið hægt. Hann veitir viðbótarlán til íbúðahúsabygginga. Á s.l. ári voru það 350 þús. kr. á hvert íbúðarhús og eru till. uppi um að hækka þá upphæð verulega á þessu ári. Hann hefur einnig veitt frumbýlingum bústofnskaupalán og er þar miðað við að það sé veitt lán samkv. skattmati búfjár allt að helmingi bústofns miðað við verðlagsgrundvallarbúið. Hann hefur veitt lán til jarðarkaupa. Nú er einnig rætt um að reyna að veita frumbýlingum enn þá meiri lán. Það byggist á því að það er mat bændastéttarinnar að kynslóðaskiptin á jörðum séu eitthvert alvarlegasta vandamálið, vegna þess að stöðugt vex það fjármagn sem þarf til bústofnsmyndunar og þess vegna er þetta mjög brýnt verkefni.

Ég vil láta í ljós þá von að ríkisstj. sjái sér fært sem allra fyrst að uppfylla þá lagaskyldu nem lögin frá s.l. vori leggja henni á herðar. Ég tel að sú lagaskylda sé miklu þyngri heldur en þótt Alþ. færi nú að samþykkja þáltill. um að ríkisstj. færi nú að skoða einhvern einstakan möguleika. Mér finnst það skrýtið ef við eigum að efast svo um að ríkisstj. framkvæmi þessa lagaskyldu, að það sé ástæða til þess að fara að benda á einn möguleika sem ég tel alls ekki réttlátan.