19.02.1976
Sameinað þing: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2025 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

125. mál, fæðingarorlof bændakvenna

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Það er alveg rétt, okkur veitir ekki af að fjármagna almannatryggingakerfið okkar. Það þarf vissulega að gera það vel, og það þarf að standa vel að öllum þáttum þess kerfis. Það er einhver mesta samfélagsskylda okkar að standa vel að því kerfi, og því fjármagni sem til þess er varið, er vissulega vel varið. Einmitt út af því vil ég segja það, að varðandi fæðingarorlofið sem slíkt sem heildarmál, þá er þar ekki um síðasta verkefnið hjá almannatryggingakerfinu að ræða. Og ef við lítum til Norðurlandanna, þá fer það ekkert á milli mála hvernig frændþjóðir okkar þar skilja þetta mál um fæðingarorlofið. Þær skilja það sem hreint tryggingamál og leysa það samkv. því. Það, sem ég átti við þegar ég sagði að ég óttaðist að afgreiðsla á þessu máli og málinu í fyrra gætu tafið fyrir frambúðarlausn, var þetta, að ég tel að þegar áfangarnir eru teknir á þennan veg, sitt á hvað, með sitt hverjum hætti, með að sumu leyti óheppilegra formi en því sem t.d. Norðurlöndin hafa tekið upp, þá óttast ég að við það verði látið sitja og meira verði ekki í málinu gert og frambúðarlausnin verði þannig fjær. Ef áfangarnir væru hins vegar teknir beint í því formi sem ég álit tvímælalaust réttast og best, þ.e.a.s. í gegnum tryggingakerfið, þá er auðvitað engin spurning um það, að það stuðlar að frambúðarlausn á málinu. Þá stuðla áfangarnir að því sjálfkrafa. En með þessum hætti, sem var samþ. í fyrra og eins núna, þá dreg ég nokkuð í efa og hef þess vegna haft nokkurn fyrirvara á um þetta, þrátt fyrir það að ég hafi stutt þetta á sínum tíma.