19.02.1976
Sameinað þing: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2028 í B-deild Alþingistíðinda. (1681)

125. mál, fæðingarorlof bændakvenna

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Í máli mínu áðan gat ég um það alveg sérstaklega að ég hefði verið einn af þeim sem hefðu verið mjög óánægðir þegar lög voru afgreidd á s.l. ári í sambandi við atvinnuleysistryggingarnar, þar sem mörgum konum var tryggt fæðingarorlof. Það var e.t.v. af þeim ástæðum, að við vorum margir óánægðir með afgreiðsluna, sem var sett inn í þau lög bráðabirgðaákvæði sem í raun og veru gerir flutning þessarar till. alveg óþarfan. Bráðabirgðaákvæðið hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Fyrir 1. jan. 1916 skal ríkisstj. láta kanna á hvern máta megi veita öllum konum í landinu sambærilegt fæðingarorlof og tryggja tekjustofn í því skyni.“

Þetta er bráðabirgðaákvæði og þetta skal ríkisstj. gera. Það stendur hér. Ég efast um, þó að samþ. verði þáltill. sem hefur minni rétt en lög og minna gildi, að hún hafi meira að segja. Þetta eru þó lög og þar stendur: „skal“.

En í sambandi við grein Jóhannesar Nordals, þá fer það náttúrlega alveg eftir því umfangi sem lífeyrissjóðurinn hefur, það þýðir ekki að horfa á krónutöluna eina. Það er alrangt mat. Ég vit benda hv. 9. landsk. þm. á að það þýðir ekkert að horfa á krónutöluna, heldur það umfang sem lífeyrissjóðurinn þarf að hafa, þannig að þessi tala, sem þm. vitnar í, segir okkur ekki nokkurn skapaðan hlut — ekki neitt. Ég bara endurtek það sem ég sagði áðan, að það var mat þeirra, sem stóðu að samningu þessara laga á sínum tíma, að hann yrði ekki megnugur að taka við þessum greiðslum fyrr en eftir 10 ár. Það var mat okkar þá. Það fé, sem hefur komið í hann þessi ár, eins og ég var að segja áðan, er ekki nema litill hluti af því sem þarf að vera til þess að ráða við verkefni hans.

Það er alrangt að við séum með einhverjar úrtölur um að konur í sveitum landsins fái þetta fæðingarorlof. Það er hreinn útúrsnúningur. Það hafa sjálfsagt engir meiri áhuga á því en við. En það þýðir auðvitað ekkert að koma hér með svona till. sem er bara sýndarmennska og ekkert annað, í fyrsta lagi óþörf og í öðru lagi byggð á algjörum misskilningi.