19.02.1976
Efri deild: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2030 í B-deild Alþingistíðinda. (1685)

168. mál, flugvallagjald

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Í frv. þessu er gert ráð fyrir að endurnýja flugvallagjald og jafnframt gert ráð fyrir að það renni í ríkissjóð, og eins og kom fram hjá hæstv. fjmrh er svo gert ráð fyrir í frv. til fjárl. Ég er því ekki með neinar athugasemdir út af fyrir sig við þessa ákvörðun nú, við höfum raunar tekið bana. En almennt sýnist mér hér um mál að ræða sem þurfi að skoða betur, a.m.k. á næsta fjárlagaári. Mér sýnist óeðlilegt að slíkt flugvallagjald renni beint til ríkissjóðs og æskilegra að komið verði á fót flugvallasjóði, svipuðum Vegasjóði, sem hljóti þessar tekjur ásamt ýmsum öðrum beinum tekjum af flugmálum, enda standi þá sá sjóður eins og hann getur, að viðbættu því framlagi sem fjárveitingavaldið kýs að veita á fjárl. til þess sjóðs, undir framkvæmdum á sviði flugmála. Ég held að fyrr takist ekki að koma þeim framkvæmdum í viðunandi horf en ákveðin tekjustofn er þarna fyrir hendi.

Mér sýnist að ein af ástæðunum fyrir því, að okkur hefur tekist sæmilega a.m.k. að gera vegáætlun til nokkurra ára og gera okkur þannig grein fyrir því fram í tímann hvað við getum þar gert, — ég viðurkenni að verðbólgan hefur svipt því úr skorðum, — sé einmitt sú ráðstöfun í vegamálum að láta aðrar tekjur af vegamálum en þær, sem fást með tollum og innflutningsgjöldum, renna í Vegasjóð. Ég vil nota þetta tækifæri til að láta í ljós þessa skoðun mína. Ég tel að gjald sem þetta og aðrar beinar tekjur af flugmálum eigi að renna í framkvæmdasjóð flugmála.

Ég veit að þessu hefur verið hreyft áður. Mig minnir að því hafi verið hreyft einmitt þegar þetta gjald var á lagt. Og ég vil gjarnan spyrja hvort mig minni það ranglega að hæstv. fjmrh. hafi þá ekki tekið því fjarri að þessi háttur yrði á hafður.