23.02.1976
Sameinað þing: 54. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2067 í B-deild Alþingistíðinda. (1700)

166. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það er rangt, sem hæstv. dómsmrh. sagði áðan, að ríkisstj. hafi gert allt sem í hennar valdi stóð til þess að koma í veg fyrir þau verkföll sem nú hafa staðið í vikutíma. Í viðtali við dagblaðið Þjóðviljann s.l. þriðjudag sagði forseti Alþýðusambands Íslands, Björn Jónsson, m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj. hefur hundsað allar þær stjórnmálalegu aðgerðir sem við höfum bent á að gætu liðkað fyrir samningum.“ Svo mörg eru þau orð og ég a.m.k. trúi því sem forseti Alþýðusambands Íslands hefur sagt um þessi mál, þannig að þessi ummæli hæstv. dómsmrh. eru röng.

Hvers vegna flytja formenn stjórnarandstöðuflokkanna hér á Alþ. till. um vantraust á ríkisstj.? Þannig hafa ýmsir spurt síðan sú till. til þál. um vantraust á ríkisstj., sem hér er til umr., var lögð fram s.l. miðvikudag, og margir bæta við: Af hverju var slík till. ekki flutt fyrr? Og víst er mjög eðlilegt að þannig sé spurt.

Stjórnarandstæðingar hafa frá upphafi verið í eindreginni andstöðu við meginatriði raunverulegrar stefnu núv. ríkisstj. og þeir hafa beitt sér af ákveðni gegn neikvæðum ráðstöfunum hennar, t.d. í efnahags- og kjaramálum, í byggðamálum og í samningamakki við erlend stórveldi um lífshagsmunamál þjóðarinnar, landhelgismálið. Og fullyrða má að ríkisstj. hafi fyrir alllöngu misst allt traust almennings í landinu.

Það er vitað mál að verulegur hluti kjósenda stjórnarflokkanna var andvigur núverandi stjórnarsamstarfi frá upphafi og taldi að samstarf þessara flokka kallaði fram það versta í þeim báðum. Og ferill ríkisstj. hefur sannfært fjölmarga til viðbótar um það að hún sé einskis trausts verð.

En þótt allur þorri landsmanna hafi þegar kveðið upp sinn vantraustsdóm yfir ríkisstj. og þótt stjórnarandstaðan hafi frá upphafi verið andvíg helstu aðgerðum stjórnarinnar, þá hefur það fyrst og fremst komið áþreifanlega í ljós nú síðustu víkurnar hversu hættulegt það er fyrir farsæld íslensku þjóðarinnar í nútíð og framtíð að þessi dáðlausa, úrræðalausa og sjálfri sér sundurþykka ríkisstj. sitji áfram við völd. Stjórnarandstæðingar flytja því ekki vantraust á ríkisstj. eingöngu vegna þess að þeir séu andvígir stefnu hennar, heldur fyrst og fremst til þess að vekja sérstaka athygli þjóðarinnar á þeirri miklu hættu sem framtíðarheill landsmanna stafar af áframhaldandi setu þessarar ríkisstj.

Núv. ríkisstj. var mynduð í ágústmánuði 1974 og hefur því verið við völd í um það bil 11/2 ár. Formaður Framsfl., Ólafur Jóhannesson, myndaði þessa ríkisstj. fyrir Geir Hallgrímsson eftir að hafa komið í veg fyrir myndun vinstrisinnaðrar ríkisstj. Þetta var gert í óþökk verulegs hluta kjósenda Framsfl., og innan Sjálfstfl. var einnig umtalsverð óánægja með stjórnarmyndunina. Ríkisstj. naut þess vegna strax í upphafi stuðnings einungis hluta þeirra kjósenda sem veitt höfðu stjórnarflokkunum brautargengi í síðustu kosningum. Þessi hópur stuðningsmanna hefur síðan farið stöðugt minnkandi eftir því sem getuleysi ríkisstj. hefur orðið augljósara og öngþveitið vegna stjórnleysis hennar í efnahags- og kjaramálum alvarlegra.

Eina afsökun forustumanna Framsfl. vegna myndunar þessarar ríkisstj.var þjóðsagan um hina sterku ríkisstj. Þetta átti að vera sterk stjórn sem gæti leyst efnahagsmálin og önnur brýn úrlausnarefni íslensks þjóðfélags. Ekki er að efa að ýmsir fylgismenn stjórnarflokkanna sættu sig við þessi rök. En þeim og landsmönnum öllum varð brátt ljóst að styrkleiki ríkisstj. fer ekki endilega eftir þingmannafjölda. Það kom fljótlega í ljós að þótt ríkisstj. hefði 42 þm. var hún veikari og þar með óhæfari til að takast á við vandamálin en nokkur önnur meirihluta stjórn hér á landi um áratugaskeið. Ríkisstj. skorti nefnilega allt sem gerir ríkisstj. sterka og hæfa til að leysa vandamálin, nema þingmannafjöldann, hann var fyrir hendi. En styrkleiki ríkisstj. varð í reynd í öfugu hlutfalli við þingmannafjöldann og talið um hina sterku stjórn varð brátt aðhlátursefni jafnt á meðal stjórnarsinna sem stjórnarandstæðinga, líkt og hin mjög svo alvarlegu augu Geirs Hallgrímssonar nú síðustu víkur.

Fyrsta árið, sem ríkisstj. sat að völdum, gerði hún tilraunir til þess að leysa vanda efnahagsmálanna. Aðgerðir hennar höfðu þó yfirleitt öfug áhrif við það sem boðað var og sköpuðu því fleiri vandamál en þær leystu.

Annars vill ríkisstj. reyna að fara eftir mjög einfaldri formúlu við lausn efnahagsmálanna, sem sagt þeirri að öllum erfiðleikum skyldi mætt með kauplækkun hjá almenningi og niðurskurði á lífsnauðsynlegum framkvæmdum úti á landsbyggðinni. Kjörum alþýðunnar og uppbyggingu landsbyggðarinnar var því fyrst fórnað. Aðrir aðilar í þjóðfélaginu, atvinnurekendur og ýmis gróðaöfl, sem virðast forustumönnum beggja stjórnarflokkanna kærkomin, voru mikilvægari að dómi ríkisstj. Hagsmuni þeirra varð að vernda. Launafólk og þá alveg sérstaklega þeir þegnar þjóðfélagsins, sem lakast voru settir, og íbúar landsbyggðarinnar fengu að taka á sig byrðarnar. Ríkisstj. taldi það augsýnilega skipta minna máli að vernda hag þeirra.

Þær aðgerðir, sem ríkisstj. greip til í þessu skyni, og afleiðingar þeirra þekkir allur almenningur af biturri reynslu: ítrekaðar gengisfellingar, gengissig, afnám verðtryggingar á laun í mestu óðaverðbólgu sem um getur hér á landi, stórhækkun á ýmsum álögum á almenning, svo sem söluskatti, vörugjaldi, hækkun lyfja hjá sjúkum og öldruðum, bein skerðing á kjörum sjómanna, niðurskurður á fjárveitingum til opinberra framkvæmda úti á landsbyggðinni á sama tíma og tugum milljóna er varið í stórframkvæmdir á suðvesturhorni landsins. Og svo mætti lengi telja. En slíkt er óþarft því að launþegar og íbúar landsbyggðarinnar þekkja þessar aðferðir vel. Þeir hafa fengið að finna fyrir afleiðingum þeirra á hverjum degi í síharðnandi lífsbaráttu sinni.

Með þessum aðgerðum tók núv. ríkisstj. þegar í upphafi af öll tvímæli um það, hverjir væru óskabörn hennar og hverjir ekkí. Landsbyggðarfólk og launþegar þurftu ekki lengi að vera í vafa um það að við veisluborð þessarar ríkisstj. var þeim ekki ætlað neitt sæti. Þar var óskabörnum ríkisstj., gróðaöflunum í landinu, einum boðið til að gæða sér á sífellt stærri hluta þjóðarkökunnar.

Þessi ferill ríkisstj. er öllum kunnur og um hann þarf því ekki að fara fleiri orðum. Þótt aðgerðir ríkisstj. hafi þannig haft mjög alvarleg áhrif á kjör almennings í landinu, þá er þó sú lömun, sem einkennt hefur ríkisstj. síðustu vikur og mánuði, jafnvel enn alvarlegri fyrir framtíð íslenskrar þjóðar. Það er engu líkara en ríkisstj. sé orðin gersamlega óstarfhæf. Hún virðist ekki geta náð samkomulagi um bráðnauðsynlegar aðgerðir í ýmsum þýðingarmestu málum þjóðarinnar. Þetta á við um landhelgismálið þar sem undanhaldið og aðgerðaleysið gegn erlendu valdi er þvílíkt að þjóðinni hefur hvað eftir annað ofboðið. Og þetta á ekki síður við um efnahags- og kjaramálin þar sem ríkisstj. hefur með stefnu- og aðgerðaleysi sínu orðið meginorsök þeirra verkfalla sem nú hafa stöðvað allt atvinnulíf í landinu í heila viku, — verkfalla sem eru þau víðtækustu sem orðið hafa hér á landi.

Ríkisstj. fékk nokkuð á þriðja mánuð til þess að fjalla um og taka jákvæða afstöðu til megintill. Alþýðusambands Íslands um aðgerðir í efnahags- og kjaramálum og afstýra þar með verkfalli. Þetta gerði ríkisstj. ekki. Hún einfaldlega gerði ekki neitt. Það er því ekki að furða þótt komið hafi fram hjá ýmsum að það sé engu líkara en engin ríkisstj. sé til í landinu.

Þetta gerðist á sama tíma og verkalýðshreyfingin ákvað að taka upp að ýmsu leyti ný vinnubrögð í sambandi við kjaramálin. Forustumenn verkalýðshreyfingarinnar lýstu því yfir að þeir teldu nauðsynlegt að leysa kjaramálin að verulegu leyti með sameiginlegum aðgerðum verkalýðshreyfingarinnar, ríkisstj. og atvinnurekenda í efnahagsmálum. Í samræmi við þetta samþykkti verkalýðshreyfingin ítarlega stefnuyfirlýsingu þar sem lögð var áhersla á aðgerðir í 15 líðum til þess að tryggja fulla atvinnu, bæta kjörin og draga verulega úr verðbólgunni. Verkalýðshreyfingin var reiðubúin til víðtæks samstarfs við ríkisstj. á grundvelli þessara till., m.a. vegna þess að þannig væri frekar hægt að tryggja kjör alþýðunnar og skynsamlega stjórn efnahagsmála en með hinni hefðbundnu kauphækkunaraðferð einni saman. Og verkalýðshreyfingin stóð ekki ein að slíku tilboði því að stjórnarandstöðuflokkarnir lýstu allir yfir samþykki sínu við þessa stefnumótun. Till. verkalýðshreyfingarinnar voru skýrðar fyrir ríkisstj. þegar í byrjun des. og ráðh. gert ljóst að viðbrögð ríkisstj. við þeim mundu ráða úrslitum um gang viðræðna við atvinnurekendur um kaup og kjör.

Dagar og víkur liðu og urðu að mánuðum án þess að ríkisstj. fjallaði af alvöru um till. Værðin var slík að engu var líkara en engin ríkisstj. væri til. Með þessari furðulegu afstöðu hafnaði ríkisstj. í raun og veru till. Alþýðusambandsins. Hún vísaði í reynd á bug tilboði verkalýðshreyfingarinnar um samstöðu til lausnar vandanum í efnahags- og kjaramálum og það varð til þess að viðræður drógust á langinn. Verkalýðshreyfingin neyddist til að fara hina hefðbundnu leið til að knýja fram leiðréttingu launafólki til handa með verkföllum. En auðvitað þurfti ekki svo að fara. Ríkisstj. hafði augsýnilega um tvo kosti að velja. Hún gat tekið í útrétta hönd verkalýðshreyfingarinnar og tryggt vinnufrið í landinu og skynsamlega stjórn efnahagsmála með samvinnu launþega og ríkisvalds eða þá hafnað slíku samstarfi og kallað allsherjarverkfall yfir þjóðina.

Valið var því skýrt. Með aðgerðaleysi sínu valdi ríkisstj. síðari kostinn. Hún hafnaði samstarfinu og neyddi verkalýðshreyfinguna til verkfalls. Þótt ekki væri nema fyrir það eitt á núv. ríkisstj. vissulega vantraust skilið.

Við skulum vona að yfirstandandi allsherjarverkfall leysist sem fyrst og að þessi neyðarráðstöfun verkalýðshreyfingarinnar færi launþegum a.m.k. umtalsverðan hlut þess sem af þeim hefur verið tekinn með kaupránsaðgerðum ríkisstj. frá því að hún komst til valda.

En fleira kemur til en aðgerðaleysi ríkisstj. í efnahags- og kjaramálum sem leitt hefur allsherjarverkfall yfir þjóðina. Sama aðgerða- og stjórnleysið hefur einkennt meðferð annarra mála. Það hefur m.a. birst í óákveðni og ístöðuleysi gagnvart erlendum aðilum í landhelgismálinu. Og það ístöðuleysi hefur vakið almenna reiði meðal þjóðarinnar. Það hefur auðvitað verið vitað mál að innan stjórnarflokkanna hafa verið og eru sterk öfl sem alltaf hafa viljað samninga við breta um landhelgismálið og þessi öfl hafa því miður átt um of greiðan aðgang að núv. forsrh., sjútvrh. og jafnvel fleiri hæstv. ráðh. sem ekki hafa einungis verið veikir fyrir hinum erlendu aðilum, heldur og að því er virðist sjálfir mjög áfjáðir í samninga. En andspænis þessum öflum hefur þorri þjóðarinnar staðið. Ríkisstj. hefur ekki verið í tala við almenningsálitið þótt hún hafi ekki þorað að ganga að öllu leyti í berhögg við það. Afleiðingin hefur verið stefnuleysi, óákveðni, hik og aðgerðaleysi. Forsrh., oddviti ríkisstj., hefur ævinlega litið mjög alvarlegum augum á málið, en gert sem allra minnst. Hafi eitthvað jákvætt gerst, hefur það gerst vegna mikils þrýstings frá almenningi.

Sem dæmi má nefna að það var fyrst eftir margra vikna háværar kröfur almennings að ríkisstj. mannaði sig loks upp í að hóta bretum slitum á stjórnmálasambandi. Þegar sú hótun hafði loks verið lögð á borðið hófst mikill skollaleikur. Bretar kölluðu herskipin út fyrir 200 mílurnar og Landhelgisgæslan fékk fyrirmæli um að láta bresku veiðiþjófana í friði um tíma á meðan forsrh. ræddi við Wilson í London. Að vísu var reynt að sverja fyrir þetta, en um síðir játaði þó dómsmrh., sem ekki kallar allt ömmu sina, að hann hefði gefið slík fyrirmæli. Þó er það fyrst nú þegar bretar hafa hafnað hugmyndum ríkisstj. um þriggja mánaða samning og Jóseph Luns framkvæmdastjóri NATO hefur sett fram hugmyndir um lausn deilunnar sem Þórarinn Þórarinsson segir í forustugrein í Tímanum að séu jafnvel enn óaðgengilegri fyrir íslendinga en tilboð breta, og þegar bretar hafa sýnt enn meiri dólgshátt í ásiglingum á varðskipin, þá er það fyrst eftir allt þetta að ríkisstj. ákveður að standa við fyrri orð sín um stjórnmálaslit. Það er auðvitað augljóst hverjum manni að þetta gerir ríkisstj. tilneydd. Hún veit að vegna almenningsálitsins er henni ekki lengur stætt á því algera aðgerðaleysi sem einkennt hefur framkomu hennar í landhelgismálinu.

Góðir tilheyrendur. Ég hef hér rakið í stuttu máli hversu alvarlegar afleiðingar stjórnleysi ríkisstj. í efnahagsmálum, kjaramálum og landhelgismálinu hefur haft fyrir almenning í landinu og mun hafa ef núv. ríkisstj. fer áfram með völd. Tímans vegna hef ég þó orðið að fara mjög fljótt yfir sögu og aðeins fjallað um megineinkenni stjórnarfarsins. Auðvitað kemur þetta aðgerða- og stjórnleysi ríkisstj. fram á fjölmörgum öðrum sviðum sem snerta hag almennings beint eða óbeint. Þó að ekki sé tími til hér að rekja það alvarlega ástand sem ríkir af þessum sökum á mörgum sviðum, er ástæða til að benda alveg sérstaklega á þá hættulegu stöðu sem skapast hefur vegna stjórnleysis í gjaldeyrismálum og þeirrar taumlausu skuldasöfnunar erlendis sem ríkisstj. hefur staðið að og hlýtur að setja efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar í mikla hættu ef áfram verður haldið á sömu braut.

Það er einnig rétt að minna á þann mikla samdrátt sem átt hefur sér stað að fyrirlagi ríkisstj. í bráðnauðsynlegum framkvæmdum úti á landsbyggðinni. Þessi samdráttur af mannavöldum hlýtur að leiða til nýrrar og enn alvarlegri byggðaröskunar og hún er þó ærin fyrir. Ekkert bendir til þess að hægt verði að koma núv. valdhöfum í skilning um þetta. Það er því brýnt hagsmunamál þeirra, sem vilja öfluga byggðastefnu, að koma núv. ríkisstj. frá.

Þá mun ljóst að aldrei fyrr hafa dómsmál og réttarfar í landinu verið undir jafnmikilli og harðri gagnrýni og nú að undanförnu. Og ekki er stjórnarfarið betra hér á hv. Alþ. undir handarjaðri hæstv. ríkisstj. Mörg mála liggja óafgr. í n. þingsins. Dæmi eru þess að aðeins einn fundur hefur verið haldinn í sumum n. þingsins frá upphafi þings s.l. haust, og það virðist heyra til undantekninga að fundir hafi verið haldnir í n. þingsins frá því að þing kom saman í lok janúar s.l.

Allt ber því að sama brunni, stjórnleysið er allsráðandi. Það er nauðsynlegt fyrir almenning að velta því fyrir sér hvers vegna svo er komið fyrir núv. ríkisstj. með 42 þm. að baki að hún skuli í reynd vera óstarfhæf. Hvað veldur og hvers vegna halda stjórnarflokkarnir samstarfinu áfram eftir að slík upplausn í stjórnarliðinu hefur átt sér stað? Vafalaust eru margar ástæður þess valdandi að ríkisstj. er orðin óstarfhæf. Nokkrar blasa þó við. Í fyrsta lagi nýtur ríkisstj. ekki stuðnings helstu samtaka fólksins í landinu og hún hefur ekki heldur borið gæfu til að taka upp samstarf við þau. Þess vegna er hún þrátt fyrir þingmeirihlutann ófær um að leysa vandamál efnahagslífsins. Í öðru lagi er sundurlyndið innan stjórnarflokkanna sjálfra og þá sérstaklega Sjálfstfl. mjög alvarlegt og leiðir til þess, að langan tíma og mikið samningamakk þarf til að ná samstöðu um einföldustu aðgerðir. Í þriðja lagi hefur upplausn skapast á stjórnarheimilinu vegna þeirra hatrömmu deilna sem risið hafa milli stjórnarmálgagnsins Vísis og formanns Framsfl. og undrar það víst engan. í fjórða lagi hafa árekstrar milli einstakra ráðh. gert samstarf þeirra vægast sagt stirt. Það var því ekki að ástæðulausu að formaður Framsfl. líkti veru sinni í ríkisstj. við það að kyssa gamlan karl með tóbakslög í skegginu, og ekki er samlíkingin slæm. En þannig er samstarfið orðið milli forustumanna ríkisstj. Þar er hver höndin upp á móti annarri. Afleiðingin er aðgerðaleysi, forustuleysi, stjórnleysi. Slík ríkisstj. er lítið annað en nafnið tómt.

Fyrir nokkru sagði hæstv. dómsmrh. í umr. hér á Alþ. um skrif aðstandenda dagblaðsins Vísis: „Mafía er hún og mafía skal hún heita“. Um hæstv. ríkisstj. má segja: Úrræðalaus er hún og úrræðalaus skal hún vera. Slíkri stjórn ber auðvitað að víkja. – Góða nótt.