23.02.1976
Sameinað þing: 54. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2072 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

166. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Góðir hlustendur Hv. 9. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, staðfesti í ræðu sinni það, sem raunar var alþjóð kunnugt, að Alþfl. á eitt brennandi áhugamál og það er að vera á móti Kröfluvirkjun. Hv. þm. viðhafði gífuryrði um glæframennsku og vafasamar viðskiptaaðferðir sem ég ætla ekki að svara hér, enda eru þessi ummæli ákaflega ólík honum, það eru einhver annarleg áhrif sem þar gætir. Hann minnti einna helst á miðil sem aðrir tala í gegnum, að vísu lífs, en ekki liðnir. En það voru fjögur atriði í ræðu hv. þm. sem mér þykir rétt að svara til upplýsinga fyrir áheyrendur.

Í fyrsta lagi taldi hann óvíst hvaða aðili ætti að reka Kröfluvirkjun. Því máli hagar þannig, að sérstök n. er starfandi að því að undirbúa löggjöf um Norðurlandsvirkjun, og mun hún væntanlega taka við rekstri Kröfluvirkjunar. Ef það fyrirtæki, Norðurlandsvirkjun, verður ekki tilbúið í tæka tíð, þá kemur mjög til greina að Laxárvirkjun taki við rekstri Kröfluvirkjunar og hefur það þegar verið rætt við forráðamenn Laxárvirkjunar.

Í öðru lagi sagði hv. þm. að engar rekstrar- eða greiðsluáætlanir væru til. Ég vil í því sambandi upplýsa það, að gerð hefur verið áætlun um framleiðslukostnað frá Kröfluvirkjun, en þar er gert ráð fyrir að þegar hún er fullbyggð verði framleiðslukostnaður 1 75 kr. á kwst., en til samanburðar má nefna að framleiðslukostnaður hjá hagstæðustu virkjunum sem hér er nú um að ræða, eins og Sigöldu-, Hrauneyjafoss- og Blönduvirkjun, er milli 1.50 og 1.60, þannig að framleiðslukostnaður Kröfluvirkjunar yrði mjög nærri því sem gerist við hinar hagstæðustu. vatnsvirkjanir.

Í þriðja lagi taldi hv. þm. að framleiðslugeta Kröfluvirkjunar yrði langt umfram eftirspurn. Þar er því til að svara, að í fyrsta lagi er ákveðið fyrir alllöngu að aðeins verði tekin í notkun nú fyrri vélasamstæðan, en hinni frestað um stund. Samkv. áætlunum og orkuspám er gert ráð fyrir því að þessi fyrri vélasamstæða verði fullnotuð á árunum 1977–1978, þannig að ekki er nú hægt að segja að verið sé að virkja að óþörfu eða framleiðslugetan sé langt umfram eftirspurn.

Í fjórða lagi sagði hv. þm. að vísindamenn hefðu varað við þessum framkvæmdum, en hvað varði stjórnmálamenn um það, þeir haldi áfram. Hér er farið villandi með. Það var í janúar sem fjórir jarðvísindamenn rituðu mér bréf þar sem þeir sögðu að meðan jarðskjálftahrinan stæði yfir teldu þeir óráðlegt að ráðast í aðrar framkvæmdir en þær sem miðuðu að því að styrkja og vernda þær byggingar sem unnið væri að. Þetta er nákvæmlega það sem þá var verið að gera og fyrirhugað að gera og þess vegna hefur ráði þessara vísindamanna verið fylgt. Það má ekki villa hv. þm. þó að sumir frétta- og blaðamenn hafi túlkað þetta á allt annan veg heldur en stendur í bréfinu.

Þegar þjóðin öll stynur undan víðtækum vinnudeilum og verkföllum, þá verður sú spurning áleitin hvort ekki þurfi að endurskoða aðferðir við undirbúning og gerð kjarasamninga. Ekki svo að skilja að einn eða annan sé um að saka hve seint hefur miðað. Þeir mörgu menn, sem að samningum vinna, hafa lagt á sig mikið erfiði og vökur. Forustumenn á báðar hliðar vilja að fyrr og fljótar gangi og hafa lýst áhyggjum yfir hægagangi Sáttamenn vinna störf sín af kostgæfni undir leiðsögn ríkissáttasemjarans Torfa Hjartarsonar sem hefur á löngum ferli leyst marga deilu við traust og tiltrú aðila. En hin venjubundnu vinnubrögð eru þunglamaleg og úrelt. Ýmis mikilvæg deiluatriði nú hefði þurft að leysa áður en til verkfalls kæmi. Því ber að fagna að tekist hefur að ná niðurstöðu í því mikla réttlætismáli að tryggja öldruðu fólki í verkalýðsfélögunum lífeyri sem miðast við laun eins og þau eru á hverjum tíma, en ekki prósenta af löngu liðnu kaupi. Þetta mál leystist ekki fyrr en verkfall hafði staðið um stund. Samt kemur í ljós að þótt ríkissjóður komi nokkuð við þetta dæmi, þá reyndist þetta fyrst og fremst vera samningsmál milli lífeyrissjóðanna innbyrðis.

Annað dæmi um úrelt og þunglamaleg vinnubrögð ern hinar fjölmennu samninganefndir. Í gær var t.d. talið að samningafólkið á Hótel Loftleiðum frá báðum aðilum væri hátt á þriðja hundrað manns, landssambandsnefndir, félagsnefndir, baknefndir, hópar og oft sami maðurinn í mörgum. Um mörg atriði þarf hvert einstakt félag að semja og heildarsamtökin hafa takmarkað umboð. Aðilar vinnumarkaðarins hafa oft sakað gagnaðila um að leggja of seint fram ákveðnar kröfur og um drátt á svörum eftir að kröfur eru komnar fram.

Hér er margt, sem verður að ráða bót á og til þess eru margar leiðir. M.a. þarf að gera starf sáttasemjara að aðalstarfi. Sáttasemjari þarf að vera að verki árið um kring, hafa vakandi auga á því, ef vinnudeila er í uppsiglingu, og beita áhrifum sínum svo sem verða má í tæka tíð til þess að samkomulag náist. Það þarf að leggja á sáttasemjara ríkari skyldur til að hefjast handa um sáttastörf en nú er og fela honum svipað vald og er með öðrum Norðurlandaþjóðum. Einnig þarf að opna betur möguleika til þess að stéttarfélagasambönd, heildarsamtökin, geti staðið að gerð kjarasamninga og verið aðili að þeim, og fjölmörg önnur atriði þarf að endurskoða. Þegar þessari kjaradeilu er lokið sem nú stendur yfir verða samtök launamanna og atvinnurekenda ásamt fulltrúum ríkisins að taka til við það verkefni af fullri alvöru að finna ný og bætt form fyrir undirbúning og gerð kjarasamninga.

En eitt er að bæta vinnubrögð við kjarasamninga til að tryggja vinnufrið og forðast verkföll, annað er lífskjörin sjálf, hvernig auka megi þjóðartekjur og draga úr þjóðarútgjöldum. Það er mikið áhyggjuefni hversu dökkar horfur eru nú um þá fiskistofna sem verið hafa uppistaðan í þjóðarframleiðslunni. Þær skoðanir hafa komið fram hjá sumum framámönnum í sjávarútvegi að leggja beri a.m.k. hluta ú ári nokkrum hluta fiskiflotans. Það er spáð samdrætti og minnkun fiskveiða og minnkandi þjóðarframleiðslu. Ef svo er, sem margt bendir til, þá er að bregðast við þessum nýja vanda með fyrirhyggju og hugdrifð: “Leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða,„ stendur þar. Það verður að leita nýtta leiða og finna þær, reyna að veiða nýjar tegundir fisks í stað þeirra sem ofveiddar eru. Það þurfti hugkvæmni og áræði á sínum tíma til að leggja út á nýjar brautir, svo sem að veiða humar, rækju og hörpudisk. Það er ekki ýkjalangt síðan þær veiðar hófust.

Við þurfum að vera óhræddir við að prófa nýjar brautir. auk þess að byggja upp hina hefðbundnu fiskstofna þarf á næstu árum að nýta meira þá stofna sem þegar eru þekktir og kannaðir hafa veriðað nokkru en verið lítt nýttir af okkur. Þar má nefna t.d. loðnu því að talið er að auk hinnar venjulegu loðnuvertíðar í janúar til mars mætti veiða nokkur hundruð þúsunda lesta um sumar- og haustmánuðina fyrir norðan. Það má nefna kolmunna, sem lítt hefur verið nytjaður hér við land, en fróðir menn telja að þar geti verið um að ræða fjölbreytta vinnslumöguleika, stofninn er mjög stór og af miklu að taka. Þá binda margir vonir við frekari veiðar og vinnslu rækju á djúpslóð. Það er talið að veiða mætti meira af spærlingi. Við útfærslu landhelginnar skapast meiri möguleikar til veiða grálúðu. Nefndar eru ýmsar djúpfisktegundir sem lítt eru kannaðar enn. Þannig eru óteljandi möguleikar sem fiskifræðingar og fróðir menn í þessum efnum telja að við eigum að prófa og reyna, og þetta verður þjóðin að gera. En einnig þarf að efla rannsóknir á fiskrækt og þá fyrst og fremst hvort fiskeldi getur beinst að því að hjálpa náttúrunni sjálfri á eðlilegum slóðum. En fiskrækt og fiskeldi er eitt af okkar mikilvægu málum fram undan.

Þær erfiðu aðstæður, sem íslensk þjóð býr við, undirstrika það mikilvæga hlutverk sem iðnaðurinn gegnir í efnahagslífinu. Eftir síðustu gengisbreytingu tók iðnrn. upp viðræður við Landssamband iðnaðarmanna og Félag ísl. iðnrekenda um það, á hvern hátt mætti efla sölu á íslenskum iðnaðarvörum og glæða almennan skilning á mikilvægi iðnaðarins, — glæða skilning á þeirri miklu atvinnu sem hann veltir gjaldeyrisöflun og gjaldeyrissparnaði. Þegar hefur verið gerð áætlun um slíka tilkynningu og fræðslustarfsemi á vettvangi iðnaðar. Í fjárl. fyrir þetta ár er veitt nokkurt fé til iðnkynningar. Stjórnvöldin þurfa að sjálfsögðu að sýna áhuga á eflingu iðnaðarins, — iðnrekendur, iðnaðarmenn og verksmiðjufólk sýna dugnað og árvekni í störfum sínum. Framtíð iðnaðarins fer ekki aðeins eftir mörkuðum erlendis, heldur ekki síst eftir jákvæðum viðtökum þjóðarinnar sjálfrar. Með því að kaupa íslenskar vörur efla menn þjóðarhag, og það er vert að þjóðin íhugi mikilvægi iðnþróunar á Íslandi. Með því að landsmenn auki kaup á íslenskum iðnaðarvörum stuðla þeir að aukinni atvinnu, atvinnuöryggi og velmegun.

En til þess að draga úr kaupum á erlendum vörum og spara gjaldeyri þarf einnig að gefa fólki tryggingu fyrir því að sparifé, sem það leggur í banka og sparisjóði, rýrni ekki, heldur haldi gildi sínu ekki síður en ef það fé væri notað til að kaupa erlendar vörur, bila, frystikistur eða annað. Og nú, þegar verið er að verðtryggja lífeyri aldraðra, þá er næsta verkefnið að verðtryggja sparifé landsmanna.

Þökk þeim er hlýddu.