24.02.1976
Sameinað þing: 56. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2084 í B-deild Alþingistíðinda. (1714)

169. mál, vasapeningar vangefinna

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Vegna þessarar fsp. er nauðsynlegt að rekja lagareglur almannatrygginga um þau málefni sem hér um ræðir. Í 50. gr. almannatryggingalaga frá 1971, sem nú er 51. gr., segir svo:

„Ef elli-, örorku- eða ekkjulífeyrisþegi dvelst lengur en einn mánuð á stofnun, þar sem sjúkratryggingar greiða fyrir hann, fellur lífeyri hans niður, ef vistin hefur verið lengri en 4 mánuðir undanfarna 24 mánuði. Heimilt er þó tryggingarráði að víkja frá þessum tímamörkum ef sérstaklega stendur á. Sé dvölin ekki greidd að fullu er heimilt að greiða lífeyri allt að því sem á vantar. Ef hlutaðeigandi er algerlega tekjulaus er Tryggingastofnuninni heimilt að greiða honum sjálfum allt að 25% lágmarksbóta.“

Samkv. þessari lagagr. eru bætur þær, sem um er rætt í þessari fsp. og kallaðar eru vasapeningar, heimildarbætur, og samkv. 6. gr. sömu laga er það tryggingaráð sem ákveður meginreglur um notkun heimildarbóta.

Á s.l. ári bárust fsp. til rn. í sambandi við greiðslur þessara heimildarbóta til vistmanna á heimilum vangefinna og í tilefni af því ritaði rn. Tryggingastofnuninni hinn 15. júlí og spurðist fyrir um ákvarðanir tryggingaráðs í sambandi við notkun þessa heimildarákvæðis. Svar barst frá Tryggingastofnun ríkisins hinn 7. ágúst s.l. og þykir mér rétt að taka hér upp til frekari skýringa kafla úr svari forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins í því bréfi. Þar segir svo m.a.:

„Á úthlutun vasapeninga eru þau vandkvæði að þörf þeirra einstaklinga, sem þeirra eiga að njóta, er mjög misjöfn og möguleikar til að nýta þá. Upphæð þessi er nú 36 þús. á ári og er það vafalaust knappt skammtað þegar um er að ræða einstaklinga sem á einhvern hátt geta notið lífsins í þessum skilningi. En oft eru þessir möguleikar alls ekki fyrir hendi vegna vanheilsu. Almennt er ógerningur að framkvæma persónubundið mat á þessum þörfum, en reynt er, eftir því sem við verður komið, að afhenda sjúklingnum sjálfum þessa upphæð. Í öðrum tilvikum eru þessar bætur í vörslu forstöðumanna hæla um lengri eða skemmri tíma eða hjá vandamönnum. Í heild er hér um verulegar upphæðir að ræða af almannafé og nokkurt áhyggjuefni hve litlir möguleikar eru á að hafa eftirlit með því að það fé komi að tilætluðum notum.

Vangefnir og hæli þeirra eru í þessu sambandi alveg sérstakt vandamál. Framkvæmdin hefur orðið sú að forstöðumönnum hælanna hefur verið afhent þetta fé og þeim í sjálfsvald sett hvort það hefur verið notað að einhverju eða öllu leyti til sameiginlegra þarfa eða einstaklingsbundið. Komið hefur í ljós að mat forstöðumanna er ákaflega misjafnt í þessu efni. Til eru þau hæli sem nýta þetta fé eingöngu einstaklingsbundið og nær eingöngu til kaupa á eiginlegum munum, svo sem plötuspilurum, húsgögnum o.s.frv. Önnur nota þetta meira sameiginlega, til dansleikja, ferðalaga, gosdrykkja o.s.frv. Kennir þar vissulega margra grasa og er ekkert við það að athuga, enda varla um annað að ræða en hlíta mati forstöðumanna hvað þetta snertir. Til eru þau hæli sem ekki hafa óskað eftir fé í þessu skyni.

Vasapeningar eru að jafnaði greiddir ársfjórðungslega. Það er rétt, að greiðslur til hæla vangefinna hafa verið óreglulegri og í reynd hafa þau ekki nýtt hámark bóta hvað þetta snertir. Það eitt skilyrði hefur verið sett af hálfu stofnunarinnar og tryggingaráðs, að hverri beiðni um úthlutun vasapeninga til þessara stofnana fylgi skilagrein um notkun fyrri úthlutunar, enda gilda þar líka frjálsari reglur um meðferð fjárins en á öðrum hælum. Engin aths. hefur verið gerð um ráðstöfun forstöðumanna á þessu fé og vægar kröfur um fskj. með skilagreinum, enda oft erfitt að koma því við.

Sá misskilningur virðist hafa komist á kreik að í gildi væri einhver ákvörðun um að vangefnir fái aðeins hálfa vasapeninga. Stafar þetta sennilega af því, að oft hefur það skeð að þessi heimili hafa átt inni fleiri ársfjórðunga án þess að ný umsókn eða skilagrein bærist og hefur þá að jafnaði aðeins verið greiddur helmingur inneignar að svo stöddu. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að þessi heimili fái fulla vasapeninga eftir því sem þarfir, umsóknir og skilagreinar forstöðumanna gefa tilefni til. Kvörtun um þetta fyrirkomulag hefur aðeins borist frá umboðsmanni stofnunarinnar á Akureyri vegna Sólborgar á sama stað.“

Eins og fram kemur í þessu bréfi, þá liggur ekki fyrir nein sérstök ákvörðun tryggingaráðs um að önnur framkvæmd skuli gilda um vasapeninga til vangefinna en annarra þeirra sem dveljast á hælum. Hins vegar kemur skýrt fram í bréfi forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins að tryggingaráð hefur lítið nokkuð öðrum augum þörf þeirra, sem dveljast á hælum fyrir vangefna, en þörf annarra langdvalarsjúklinga. Þetta er í sjálfu sér ekki undarlegt þegar lítið er á skyldur hæla vangefinna annars vegar við vistmenn sina og skyldur sjúkrahúsa, sem annast vistun langdvalarsjúklinga, hins vegar. Í lögum um fávitastofnanir frá 22. apríl 1967 segir svo í 4. gr.: „Fávitahæli skulu sjá vistmönnum fyrir þurftum þeirra, þar með talinni læknishjálp, aðhjúkrun og gæslu.“ Í lögum um almannatryggingar, um sjúkrahúsvist í 42. gr., Segir svo: „Sjúkrasamlög tryggja ókeypis vist að ráði samlagslæknis í sjúkrahúsi sem samist hefur við, sbr. 40. gr., eins lengi og nauðsyn krefur. ásamt læknishjálp, lyfjum svo og annarri þjónustu sem sjúkrahúsið veitir.“

Af þessum tveim tilvitnunum er auðsætt að vistheimili fyrir vangefna eiga að sjá vistmönnum sínum fyrir öllum þurftum þeirra og þar með töldum öllum fatnaði. Hins vegar eiga sjúkrahús og hjúkrunarstofnanir eingöngu að sjá vistmönnum fyrir vistunarrými, fæði, lyfjum og læknishjálp Það er því í sjálfu sér ekkert undarlegt, meðan þessar mismunandi skyldur hvíla á þessum viststofnunum, að tryggingaráð líti nokkuð öðrum augum á þörf einstaklinginna fyrir heimildarbætur eftir því á hvaða stofnun þeir dveljast.

Ég tel að ég hafi með þessum orðum svarað fyrri lið fsp. Um síðari liðinn vil ég segja þetta: Ég tel að vel komi til greina að breyta þeim bótum, sem hér um ræðir, í skyldugreiðslur, en hafa þær hins vegar til tekjuviðmiðunar á svipaðan hátt og tekjutrygging almannatrygginga er, þannig að þeir einir fái greiðslurnar sem ekki hafa aðrar tekjur. Ég mun í tilefni af þessari fsp. beina því sérstaklega til þeirrar n. sem nú fjallar um endurskoðun laga um almannatryggingar hvort ástæða sé til að breyta lögum um almannatryggingar að þessu leyti.