24.02.1976
Sameinað þing: 56. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2086 í B-deild Alþingistíðinda. (1715)

169. mál, vasapeningar vangefinna

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin og sérstaklega þakka honum fyrir það að hann skuli hafa tekið þetta mál upp við tryggingaráð annars vegar og hins vegar svo aftur beint þessum ákveðnu tilmælum til þeirrar n. sem fjallar nú um endurskoðun tryggingalaganna. Það væri vissulega æskilegt að hér yrði um skyldugreiðslur að ræða og þessu yrði komið í það form sem ég tel sjálfsagt og eðlilegt.

Í sambandi við svör hans kom það í ljós, sem mig grunaði nú jafnvel, að hér væri um vanrækslu að ræða hjá forstöðumönnum viðkomandi hæla og þá kannske alveg sérstaklega þess hælis sem á að vera forustuhæli í þessum efnum, mótandi aðili, þ.e. Kópavogshælisins. Ég hef einmitt grun um að þar séu hvað mest vansmíði hér á og vanræksla. Er illt að svo skuli vera og ég treysti heilbrigðisyfirvöldum og tryggingaráði til hreinlega að ýta á þessa aðila. Að vísu hafa þeir fengið á sig nokkurn þrýsting núna frá ungu starfsfólki sem á þessum hælum er og sér þá miklu þörf sem vangefnir hafa fyrir þessa vasapeninga ekki síður en aðrir til þess einmitt að geta, eins og var tekið fram áðan, notið lífsins, því að þeir eiga vissulega til þess kröfu eins og aðrir.

Ég held að það séu nánast allir, sem hér þekkja til, sammála um að þörf vangefinna fyrir þessa vasapeninga, fyrir utan þennan fasta klæðnað sem hæstv. ráðh. minntist á, sé ekki síðri en annarra. Þarfir þeirra og þrár eru ærið líkar okkar, og um leið er það ljóst að til þess þarf nokkurn stuðning frá samfélaginu sem þykir sjálfsagður til handa öðrum vistmönnum andlega heilum og á þá einnig að vera sjálfsagður til handa þessu fólki. Og það er illt ef það er aðeins þetta eina hæli, sem er úti á landsbyggðinni, og forstöðumenn þess, þ.e.a.s. forstöðumenn Sólborgar á Akureyri, sem hafa sýnt þessu milli fullan áhuga og gert sér grein fyrir því hvað mikilsverðir þessir peningar geta oft á tíðum verið fyrir þetta fólk. Ég er engu að síður á því að hér eigi tryggingaráð hreinlega að ýta á eftir og sjá til þess, ef um vanrækslu er að ræða hjá þessum aðilum, að þeir gæti ótvíræðrar skyldu sinnar gagnvart því fólki. sem þeir eru að annast. Ég hlýt að treysta hæstv. ráðh. til að ráða hér á bót svo sem mögulegt er og þeirri n., sem hér fjallar um, og einnig tryggingaráði.

Ég held að jafnrétti til handa vangefnum á hvaða sviði sem er sé það markmið sem sjálfsagt hlýtur að teljast. Um það hefur nú verið flutt till. þingmanna úr öllum flokkum. Það fyrirkomulag, sem hér hefur verið gert að umræðuefni, þar sem vangefnum er skipað skör lægra en öðrum þegnum þjóðfélagsins, þó að það eigi sínar skýringar, hjá þeim aðilum sem síst skyldi, og sú framkvæmd, sem nú viðgengst, er í hrópandi mótsögn við þessa jafnréttiskröfu. Því þarf að ráða á þessu bót og ég geri mér vonir um það af svörum hæstv. ráðh. að svo verði.