24.02.1976
Efri deild: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2089 í B-deild Alþingistíðinda. (1722)

168. mál, flugvallagjald

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mjög, en ég vildi taka undir það sem kom fram bæði hjá hv. frsm. n. og hv. síðasta ræðumanni, að leggja beri þetta gjald í flugvallasjóð til framkvæmda að flugmálum. Vil ég endurtaka það, sem ég sagði við 1. umr., að ég tel ákaflega nauðsynlegt að tryggja framkvæmdum á sviði flugmála tekjur á svipaðan máta og gert er um vegamál. Ég er þeirrar skoðunar að fyrr komist ekki gott lag á áætlanagerð á þessu sviði, en stefna ber að því að gera áætlanir til nokkurra ára. Ég tel reyndar að í slíkan sjóð ætti fleira að renna, eins og t.d. tekjur af Keflavíkurflugvelli, og annað mætti nefna. En ég ætla ekki að fara út í það hér, ekki til þess staður né stund, en fyrst og fremst lýsa fylgi mínu við þær hugmyndir sem hér hafa komið fram og ég hef reyndar gert að mínum áður.